30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v. að að sjálfsögðu skýrist bæði þetta frv. og eins það frv. sem flutt var hér um skattamál s.l. miðvikudag við nánari skoðun í þingnefnd. Ég vona að mitt mál hér verði ekki til að lengja þessar umr. eða draga þær út af þeirri braut sem þær eru nú á og ég tel vera málefnalegar.

Ég vil aðeins lesa hér smáfyrirsögn á því blaði sem ég var með. Þetta frv. til l. er um frádrátt frá skattskyldum tekjum manna, þ.e. einstaklinga, vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Fyrri spurningin til ASÍ á fundi fjh.- og viðskn. í morgun á því ekki rétt á sér í sambandi við þetta fylgifrv. vegna þess að hér er ekki verið að tala um skattskyldar tekjur fyrirtækjanna. Það er verið að tala um skattskyldar tekjur einstaklinga sem leggja fé í fyrirtæki. Og það er líka rangt að tala um að það væri eðlilegra að leyfa að það fé sem lagt er í bankakerfið almennt verði frádráttarbært en það fé sem lagt er í fyrirtæki. Ég held að það sé allt annað mál, peningar sem almennt eru lagðir inn í banka. Almennt hlýtur að ná yfir alla þá möguleika sem til eru við að leggja peninga inn í banka. Það nái þá yfir fyrirtæki á hlaupareikningum og alls konar viðskiptareikningum. En það er ekki til umræðu hér og hefur ekki verið gerð till. um það. Hér er bara verið að tala um að opna möguleika fyrir einstaklinga að taka þátt í atvinnurekstrinum.

En varðandi það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði, þá er það alveg rétt að tilgangurinn er að auka ávöxtun fjármagns einstaklinga í atvinnurekstri. Þetta þýðir einfaldlega það að hér er verið að reyna að styrkja vinnumarkaðinn betur en kannske hægt er að gera á annan hátt og stórauka atvinnutækifæri. Hér er ekki verið að tala um að atvinnurekandinn, sem er vondur maður að mér skilst, auðgist á þessu, heldur þveröfugt. Hér er verið að tala um að styrkja atvinnufyrirtæki og auka atvinnutækifæri. Fé rennur sem sagt í hringrás til fólksins. Gleggsta dæmið um það sem hér er verið að gera er t.d. stofnun og síðan rekstur á Eimskipafélagi Íslands, sem er almenningshlutafélag þar sem fátækir sem ríkir tóku höndum saman og lögðu misjafnlega mikið fé til stofnunar Eimskipafélagsins sem nú veitir um 1000 manns hér í Reykjavík atvinnu. Það er einmitt þessi möguleiki sem við erum að reyna að fylgja eftir.

Ríkisstj. hefur ekki sem slík ætlað sér að stýra fé inn á einn ákveðinn farveg eða atvinnugreinar. Fótkið sjálft verður að velja hvar það telur sínum peningum best fyrir komið, hvar áhættan er minnst og ágóðinn kannske mestur. Hvaða áhrif þetta hefur á kjör þeirra sem þess njóta að geta lagt í hlutafélag get ég ekki sagt á þessari stundu. Fé hefur verið lagt í fyrirtæki, sem alls ekki hafa gefið neitt af sér í langan tíma, þannig að þetta er áhættufé. Þar af leiðandi njóta þeir sem leggja í þessa áhættu betri kjara að því leyti en menn gera almennt þegar þeir leggja fé í banka. Þar er féð geymt í ákveðinn tíma og þegar fólk óskar eftir, ef féð er ekki bundið sérstaklega með samkomulagi við bankann, getur það tekið sína peninga út, hvenær sem það þarf á þeim að halda. Aftur á móti er áhættan í þessu tilfelli sú, að fólk getur kannske ekki selt þessi hlutabréf fyrirvaralítið eða þarf jafnvel að selja þau með afföllum þegar og ef það þarf skyndilega á þeim fjármunum að halda til annarrar notkunar.

En sem sagt, þetta er bara ein leið til viðbótar. Það er ekki verið að taka frá fólki neina þá ávöxtunarleið sem nú er fyrir hendi til að fá arð af peningum sem það kann að eiga afgangs. Það er bara verið að bæta við möguleika. Fólkið hefur þar með meira valfrelsi og það getur ekki skemmt nokkurn mann. Það er held ég rangt að gera það tortryggilegt með málflutningi í þá veru. En sem sagt, ég vona að sú leið sem hér er um rætt í því frv. sem hér er á dagskrá verði til þess að auka tekjumöguleika fólksins á sama tíma sem það styrkir atvinnureksturinn í landinu. Og að sjálfsögðu er sú hringrás sem hv. 8. þm. Reykv. gat um áðan mjög sterkt inni í myndinni, en það er að um leið og atvinnurekstrargrundvöllur er styrktur og atvinnutækifæri aukin og fleira fólk hefur atvinnu, þá aukast tekjur ríkissjóðs að sama skapi og verða þá vonandi jafnframt hærri tekjur sem einstaklingar fá með þessum hætti. Hvenær framlag skilar ágóða í atvinnurekstri er erfitt að spá um. Ef maður sem fer út í atvinnurekstur hefði ákveðna hugmynd um það, þá væri lífið auðvelt, því að margir, kannske fleiri en menn grunar, fá aldrei nokkurn skapaðan hlut út úr atvinnurekstri og jafnvel missa allt sitt. Það er ómögulegt að segja hvernig fyrirtækjum reiðir af þegar til þeirra er stofnað. Niðurstaða og árangur verður að fara eftir hugkvæmni og dugnaði þeirra sem að því standa.

Ég skal ekki segja hvort ég hef nokkurt svar við því sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm., Eiði Guðnasyni, sem hefur efasemdir um að þetta frv. sé það brýnasta í skattamálum. Ég held að það verði aldrei samkomulag um það meðal þm. hvað er brýnast eða hvað er ekki brýnast í nokkru máli. Þau 20 ár sem ég er búinn að sitja á þingi man ég ekki til að þingheimur hafi orðið sammála um slíkt. Og það getur vel verið að það sé ekki fráleitt að leggja áherslu á till. Alþfl. um neikvæðan tekjuskatt. En það er bara ekki það sem hér er um að ræða. Það er allt annars eðlis. Hér er verið að tala um að opna möguleika einstaklinga til fjárfestingar í fyrirtækjum. Ég held að menn megi til með að átta sig á því að hér er ekki verið að gera þá ríku ríkari og fátæku fátækari. Það getur vel verið að það sé verið að gera þá ríku fátæka. Það getur vel verið að á sama tíma sé verið að gera þá fátæku ríkari. Þetta dæmi er svo óendanlega óljóst, þegar farið er út í fyrirtæki, að það er ómögulegt að segja fyrir fram hverjir verða fátækir og hverjir verða ríkir eða hvort allir halda hlutfallslega sínu.

Ég efast um að það sé rétt hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni að hér sé gengið lengra í að leggja byrðar á almenning en nokkru sinni fyrr eða þessi ríkisstj. stefni sí og æ í þá átt. Það er alveg þveröfugt. Ég held að það sé verið að létta hér á fólki með því að gefa því viðbótarmöguleika. Það er ekki verið að taka neina möguleika af fólki heldur að auka möguleika fólks til þess að ávaxta sitt fé.