30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hér er ekki mörgu við að bæta, en ég stend upp fyrst og fremst til að leiðrétta misskilning sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. Ég hafði gert það hér að umtalsefni í minni ræðu, bæði í dag og á miðvikudaginn var, að sú hlið sem helst væri jákvæð á þessu máli væri sú að hér væri verið að reyna að stuðla að innlendum sparnaði, þ.e. að hvetja menn til að leggja fram fé til fjárfestingar í atvinnuvegum og væntanlega stuðla þannig að auknum þjóðartekjum. Þetta er sú hlið málsins sem helst getur talist jákvæð, en neikvæða hliðin svo aftur á móti að það er verið að gefa þeim best settu í þjóðfélaginu skattalækkanir, gjafir úr ríkissjóði, til að stuðla að þeim markmiðum sem ég nefndi áðan.

Ég vakti máls á því þegar á miðvikudag, að ef væri verið að verðlauna menn fyrir að taka þátt í innlendum sparnaði og auka fjárfestingu og fjármunamyndun væri kannske eðlilegast að allir sætu þar við sama borð og innlegg á bankareikninga nytu þá sams konar skattalegrar meðferðar og þessi framlög. Hæstv. fjmrh. misskildi hins vegar orð mín allhrapallega. Væntanlega var það ekki vísvitandi, heldur af því að hann hafði ekki áttað sig á í hverju mínar hugmyndir fólust. Hann sagði að hér væri greinilega átt við hvers konar innlegg í banka, hvort heldur sem væri á hlaupareikning, ávísanareikning, sparireikning eða hvað sem er. Að sjálfsögðu hefur hvorki mér né neinum öðrum dottið í hug að sérhver inngreiðsla í banka gæfi mönnum skattundanþágu. Slíkt er auðvitað fjarri öllu lagi og gæti aldrei komið til greina, enda er ég hræddur um að það kæmi ansi lítið í kassann hjá hæstv. fjmrh. ef sú regla væri upp tekin.

Það sem mér og kannske mörgum öðrum hefur dottið í hug er að upp séu teknir sparireikningar, sem væntanlega væru þá bundnir til allmargra ára, kannske fimm ára, kannske tíu ára, og að inngreiðslur á þessa reikninga væru með einhverjum hætti verðlaunaðar með lækkun skatta. Vafalaust er hæstv. fjmrh. kunnugt um að í umr. um innlendan sparnað á undanförnum tveimur árum hafa komið fram hugmyndir af þessu tagi, m.a. frá þeim seðlabankamönnum hygg ég vera, og ég veit að hæstv. fjmrh. hefur verið að ræða slíkar hugmyndir í fjmrn. og vafalaust hefur ríkisstj. eitthvað á þær minnst. Menn þurfa því ekki að láta eins og þeir komi gersamlega af fjöllum eða þeir geti ekki skilið svona einfalda hluti. Mátið snýst auðvitað um hvort það gæti komið til greina að verðlauna fólk almennt fyrir að taka þátt í því að draga úr erlendum lántökum með því að gefa því einhverja skattaívilnun ef það leggur fé inn á bundna sparireikninga, sem að sjálfsögðu þyrftu þá að vera bundnir til alllangs tíma.

Hér hefur verið rætt hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt að veita mönnum hlunnindi af því tagi sem þetta frv. felur í sér. Það hefur verið talað um hvort það væri öruggt að hér væri ævinlega um að ræða þjóðhagslega arðbær fyrirtæki. Auðvitað þarf ekki að rökræða það frekar. Það verður auðvitað allur gangur á því. Sum þau fyrirtæki sem menn leggja fé í og fá út á það skattalækkanir munu auðvitað aldrei geta talist nein sérstök þjóðþrifafyrirtæki, enn síður að þau séu þjóðhagslega hagkvæm. Önnur eru það vafalaust, kannske framleiðslufyrirtæki eða mikilvæg þjónustufyrirtæki. Það verður alltaf allur gangur á því. En fé sem lagt er í banka ellegar notað til að kaupa spariskírteini ríkissjóðs sem bundin væru til fimm eða tíu ára mætti tryggja að gengi til þjóðhagslega arðbærra fyrirtækja og til fjárfestinga sem þjóðin þarf virkilega að leggja áherslu á, til þess líka um leið að draga úr erlendum lántökum. (Gripið fram í: Ertu ekki með kosningayfirlýsingu sjálfstfl. í huga?) Það skyldi nú vera að Sjálfstfl. hafi lýst yfir fylgi sínu við hugmyndir af þessu tagi einmitt í kosningastefnuskrá sinni. Ég þekki það ekki vel. Ég verð að játa að kosningastefnuskrá Sjálfstfl. er ekki það lesefni sem er mér kærast eða ég legg helst á minnið. Reynslan hefur verið sú að slíkar yfirlýsingar eru fljótar að fjúka þegar kosningar eru afstaðnar og það er þá helst að maður geti gluggað eitthvað í slíkar yfirlýsingar til að finna sér einhvern mat í kosningaræðu því að þar eru bæði skynsamlegar og óskynsamlegar tillögur. — En ég hygg sem sagt að þessi hugmynd hafi víða komið fram.

Ég vil taka fram að ég hef verið dálítið hikandi við að styðja hugmyndir um að menn geti lækkað skatta sína með einberum sparifjárinnlögum. Ég held að það séu vissulega tvær hliðar líka á því máli. T.d. held ég að ekki komi til greina að öll upphæðin, sem menn legðu inn á svona reikning, væri frádráttarbær frá skatti. Þá teldi ég mjög gróft í hlutina farið og þá gæti varla komið til greina annað en að fyrir hverjar 100 þús. kr., sem menn legðu inn á svona sparireikninga, fengju menn kannske 10, kannske 20, kannske 30 þús. kr. frádrátt. Það yrði að vera einhver lítill hluti af upphæðinni sem menn legðu inn sem stuðlaði að skattalækkun hjá mönnum. Hvatningin þyrfti ekki heldur að vera miklu meiri en það. Í dag njóta sparifjáreigendur þess að vextir af sparifé eru sem almenn regla skattfrjálsir, a.m.k. ef ekki er um vaxtaútgjöld að ræða hjá viðkomandi einstaklingi, og ég teldi það of í lagt að auk þess skattfrelsis sem menn fá og menn njóta í dag af vaxtatekjum fengju menn upphæðina alla dregna frá tekjum sínum. En það er einmitt það sem verið er að gera hér varðandi þá sem leggja fé í atvinnureksturinn. Öll upphæð að ákveðnu marki verður frádráttarbær við skattálagningu. Það er auðvitað það fráleita í þessu máli, auk þess sem ég tel blátt áfram ósiðlegt að þeir einir fái þessar skattalækkanir sem eiga þess kost að leggja fé í fyrirtæki sem þeir vita fyrir fram að eru það örugg að þar er ekki verið að kasta fénu fyrir borð.

Vissulega á ekki hver sem er kost á því að leggja fram fé í áhættulaus fyrirtæki. Hinn venjulegi maður, sem hvergi hefur nærri atvinnurekstri komið og þekkir ekkert inn á þá hluti, væri að taka þarna miklu stærri áhættu en fjármálamaðurinn, en iðnrekandinn, sem hefur mikla reynslu á þessu sviði, eða hver annar atvinnurekandi. Hinn venjulegi maður ber ekki mikið skynbragð á þessa hluti og kann ekki að fjárfesta sitt fé svo að ekki verði þar um mikla áhættu að ræða, en sá sem hefur ekki gert neitt annað allt sitt líf en að fást við slíka hluti getur notað sína skattalækkun og sína fjárfestingu á þann hátt að áhættan sé heldur takmörkuð. Það er einmitt þessi þátturinn sem er ósiðlegur í þessu, að hinn venjulegi launamaður, sem ekki þekkir inn á þessa hluti, á ekki kost á að afla sér sambærilegrar skattalækkunar með þeim einfalda hætti að leggja sitt fé inn á bankareikning og láta þá annaðhvort ríkisvaldið eða þá hina ágætu bankastjóra sjá um hina hliðina í hvaða tegund fjárfestingar féð fer.

Ég þarf ekki að orðlengja þetta frekar. Mér fannst bara nauðsynlegt, af því að ég vil gjarnan ræða þetta mál á málefnalegan hátt og skoða allar hliðar þess, að leiðrétta þann misskilning, sem hér kom fram hjá hæstv. fjmrh., að mér dytti í hug að allar greiðslur inn á reikninga í banka ættu að vera frádráttarbærar frá skatti. Þar yrði einungis um að ræða innistæður sem stæðu í tiltölulega langan tíma, sennilega þyrftu þær 5– 10 ára bindingu, og í öðru lagi gæti ekki verið um að ræða nema hluta af greiðslunni sem væri frádráttarbær til skatts.