30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Þessir tveir hv. fyrirspyrjendur hafa fjallað um sama mál svo eðlilegast er að reyna að svara þeim sameiginlega. Ég vil byrja með því að lesa 1. gr. í efnahagsmálakafla ríkisstj., með leyfi forseta.

„Festa verði sköpuð með raunhæfri gengisstefnu sem ásamt aðhaldssamri fjármála- og peningastefnu myndi umgjörð ákvarðana í efnahagslífinu. Að loknum aðlögunartíma beri aðilar vinnumarkaðarins ábyrgð á samningum um kaup og kjör í ljósi hinnar opinberu stefnu í gengis- og kjaramálum.“

Í stefnuyfirlýsingunni er jafnframt fjallað ítarlegar um framkvæmd á þessum atriðum en ég læt nægja að lesa þennan kafla enda veit ég að allir hv. þm. lesa eins og áður var sagt stefnuyfirlýsinguna eflaust kvölds og morgna.

Á aðlögunartíma þeim sem nú er lokið hefur ríkisstj. náð þeim markmiðum sem hún setti sér með þeim brbl. sem gefin voru út 26. maí s.l. Tekist hefur að ná verðbólgunni úr um 130% í um 15% og er það reyndar töluvert betra en að var stefnt. Tekist hefur að draga úr viðskiptahalla sem var 10% árið 1982 í 2,5% og liggur nú fyrir endanlegt mat á honum. En viðskiptahalli á þessu ári stefndi í maí-júní-mánuði í allt að 10%.

Sömuleiðis hefur tekist að halda erlendum skuldum innan við 60% þjóðarframleiðslu eins og að var stefnt og vextir hafa verið lækkaðir um meira en helming og eru nú u.þ.b. 20% eða lægri á flestum lánum.

Hins vegar segir ríkisstj. jafnframt að hún muni skapa þann ramma sem aðilum atvinnulífsins, aðilum vinnumarkaðarins, er ætlað að starfa innan. Það hefur ríkisstj. einnig gert. Ríkisstj. hefur birt að hún muni ekki breyta gengi á þessu ári um meira en hámark 5% nema einhverjar sérstakar utanaðkomandi ástæður valdi. Ríkisstj. hefur einnig sagt að hún stefni að því að ná verðbólgu niður í 10% eða lægra í lok þessa árs. Ríkisstj. hefur í þjóðhagsáætlun sem lögð var fyrir hv. Alþingi í okt. s.l. gert ítarlega grein fyrir því hvernig þessum markmiðum megi ná. Í þeirri þjóðhagsáætlun kom m.a. fram að svigrúm til launahækkana innan þessa ramma er að meðaltali eða var þá að meðaltali talið vera 6%.

Eftir að tillögur fiskifræðinganna um verulegan samdrátt í þorskveiðum voru birtar endurskoðaði ríkisstj. þessi ákvæði. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar og ríkisstj. var þá sú að svigrúm til launahækkana, ef ná ætti þessum markmiðum sem ég nefndi, vær'i um 4%. Til viðbótar þessum markmiðum og sem ég gat ekki um áðan stefnir ríkisstj. að því að viðskiptahalli á þessu ári verði um eða innan við 1%.

Er þá ríkisstj. ekki að skipta sér af kjaramálum með því að gefa út slíka yfirlýsingu? Það hlýtur að vera. En ríkisstj. hefur gert það og það er satt að segja skylda ríkisstj. að birta þær forsendur sem aðilar vinnumarkaðarins geta farið eftir. Og það sem ég hef sagt í þessu sambandi er að kjarasamningar sem ganga langt umfram þetta samræmast alls ekki þessu markmiði. Þá munum við ekki ná verðbólgu niður í 10%. Þá munum við ekki ná því að viðskiptahalli verði um eða innan við 1%. Þá munum við ekki ná því að erlendar skuldir verði innan við 60%. Það er þetta sem ég hef sagt í þeim yfirlýsingum sem ég hef gefið og það mun ég halda áfram að segja.

Ég skal svo koma að nokkrum þeim atriðum sem hér hefur verið sérstaklega bent á og þá sérstaklega spurningum hv. þm. Guðmundar Einarssonar. Fyrsta spurningin var: Í ljósi ýmissa ummæla hæstvirtra ráðherra spyr ég hver sé skilningur ríkisstj. á hugtakinu „frjálsir samningar á ábyrgð samningsaðila“ sem hún hefur þóst fylgja?

Ég hef þegar komið að hluta inn á þetta. Ríkisstj. hefur birt þann ramma sem hún ætlast til að aðilar vinnumarkaðarins starfi innan eða a.m.k. starfi innan ef þeir eru sammála þeim markmiðum sem ríkisstj. hefur sett sér í efnahagsmálum, í gengismálum, í viðskiptahalla, í erlendum skuldum. Ríkisstj. hefur hvað eftir annað sagt að verði farið út fyrir þennan ramma muni þessi markmið ekki nást. Ríkisstj. hefur líka sagt að kjósi atvinnurekendur að semja um meira sé það á þeirra ábyrgð. Ég hef jafnframt sagt að treysti t.d. atvinnurekendur sér í þeim samningum sem nú standa yfir sér til að semja um meira skuli þeir ekki gera sér vonir um að því verði mætt með meiri gengisfellingu. Það verða þá útflutningsatvinnuvegirnir að bera og ég hef ekkert við það að athuga út af fyrir sig að þeir semji um slíkt ef þeir geta staðið við það án meiri gengisfellingar. Ríkisstj. mun standa gegn því að viðskiptahalli verði meiri en að er stefnt en það mun vissulega verða erfitt ef samið verður um meira en 4% launahækkun.

Önnur spurning: Telur ríkisstj. hættulegt efnahagsástandinu í landinu að starfsfólk einstakra fyrirtækja njóti þess sérstaklega í launum ef vel gengur? Ríkisstj. telur að ef gerðir verða samningar við einstök fyrirtæki sem brjóta verulega þann ramma sem ég hef lýst þá verði erfitt að standa gegn því að þeir sem langtum lægri launa njóta fái svipaðar hækkanir. Ég hefði satt að segja gaman af að spyrja hv. fyrirspyrjanda hvort hann sé mér ósammála um þetta. Hvað telur hv. þm. Guðmundur Einarsson? Telur hann virkilega ef starfsmenn ÍSALs fá 40, 30 eða jafnvel 20% hækkun að unnt verði að neita þeim lægst launuðu um a.m.k. eitthvað svipað og reyndar flestum öðrum í þjóðfélaginu því að þetta eru með allra tekjuhæstu mönnum í íslensku þjóðfélagi.

Ég segi því hiklaust að verði gerðir samningar við einstök fyrirtæki um verulega meiri launahækkanir en um er að ræða á hinum almenna markaði mun það þýða að slík launahækkun gengur í gegnum efnahagslífið og að þeim markmiðum sem við settum okkur verður ekki náð. Við skulum þá ekki tala um 10% verðbólgu í lok ársins. Við skulum tala um 20, 30, 40% eða jafnvel miklu meira í lok ársins.

Þriðja spurning: Var það skv. ósk ÍSALs að felldar voru niður hömlur á aðild fyrirtækisins að samtökum íslensks vinnumarkaðar? Ef svo er hvenær var sú ósk borin fram síðast? Um þetta fjallaði jafnframt aðallega ræða hv. þm. Svavars Gestssonar og get ég því komið inn á hans ræðu í svari við þessari spurningu.

Ríkisstj. eða hæstv. iðnrh. barst skeyti frá ÍSAL 19. jan. s.l. þar sem í fáum orðum sagt — skeytið er nú á ensku en ég fer efnislega með það hér — er farið fram á að ríkisstj. falli frá því ákvæði að ÍSAL verði ekki heimilt að gerast aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands þegar það kýs að gerast aðili. Hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir þessari ósk ÍSALs á fundi ríkisstj. 19. jan. s.l. Málið var þá allítarlega rætt. Á fundi ríkisstj. 24. jan. lagði hæstv. iðnrh. jafnframt fram tillögu um þetta mál sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta:

Ríkisstj. samþykkir að fella niður skilyrði sem Swiss Aluminium Ltd, var á sínum tíma sett um að ÍSAL verði ekki félagi í samtökum vinnuveitenda á Íslandi, sbr. bréf iðnrh. Jóhanns Hafstein dags. 15. apríl 1966, sbr. einnig svarbréf Swiss Aluminium Ltd. 19. apríl 1966.“

Um þetta urðu miklar umræður og var málinu frestað og athugað vandlega á milli funda, rætt við ýmsa menn sem þessu eru á einn eða annan máta tengdir. Þessi tillaga var síðan á fundi ríkisstj. 26. jan. síðastliðinn afgreidd með því skilyrði að ekki yrði um að ræða beina inngöngu ÍSALs í Vinnuveitendasamband Íslands heldur að félagið gerðist ef það óskaði fullur aðili að Félagi ísl. iðnrekenda og gæti þannig gerst óbeinn aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég geri á þessu ákaflega mikinn mun. Þær reglur gilda innan Félags ísl. iðnrekenda að þar getur enginn farið með nema 4% af atkvæðum þess félags hjá Vinnuveitendasambandi Íslands. Og þegar munu vera fjögur félög sem eru aðilar að Félagi ísl. iðnrekenda sem eru undir þessu þaki. Áhrif ÍSALs í Vinnuveitendasambandi Íslands verða því raunar aldrei nema brot af þessum 4%, af atkvæðum Félags ísl. iðnrekenda. Í mínum huga er þetta allt annað en bein aðild ÍSALs að Vinnuveitendasambandi Íslands.

Ég vil einnig geta þess að upplýst er að ÍSAL hefur verið aðili að Félagi ísi. iðnrekenda að öðru leyti en að kjaramálum allt frá 14. júlí 1977 og sömuleiðis að ÍSAL hefur árum saman haft samning við Vinnuveitendasamband Íslands um fjölbreytta þjónustu, m.a. og ekki síst þegar kjaradeilur eru og greiðir til Vinnuveitendasambands Íslands þegar 0,2% af launagreiðslum hjá ÍSAL. Með þessari fullu aðild að Félagi ísi. iðnrekenda munu þær greiðslur til Vinnuveitendasambandsins verða 0,4%. Það eru því miklar ýkjur og öfgar að með þessu móti sé ÍSAL að gerast áhrifamikill aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands.

Ég er þeirrar skoðunar að komið hafi í ljós frá því fyrrgreind og umrædd ákvörðun var tekin á Alþingi af hæstv. þáv. iðnrh. að ÍSAL gerðist ekki aðili að íslenskum samtökum atvinnurekenda, að sú ákvörðun var ekki rétt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé langtum betra og heilbrigðara að launaákvarðanir hjá þessu fyrirtæki sem er í erlendri eigu verði í samræmi við það sem ákveðið er á íslenskum launamarkaði. Með því að þeir gerast nú fullir aðilar að Félagi ísl. iðnrekenda ef þeir óska og ákveða er ákvarðanataka um launagreiðslur hjá ÍSAL samræmd því sem ákveðið kann að vera hverju sinni af aðilum vinnumarkaðarins innanlands. Ég er ekki þeirrar skoðunar að heilbrigt sé að erlendur hringur ákveði þau laun sem hann greiðir í því fyrirtæki sem hann kann að eiga hér á landi án þess að tekið sé fullt tillit til þess sem tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég er því þeirrar skoðunar að þarna hafi fundist skynsamleg lausn á þessu máli, sem sagt að þeir gerast fullir aðilar ef þeir óska að Félagi ísi. iðnrekenda en hafa ekki þau áhrif á Vinnuveitendasamband Íslands sem menn hafa hræðst.

Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi einnig nokkuð um aðild ríkisfyrirtækja að Vinnuveitendasambandi Íslands. Það er rétt sem hv. þm. sagði að ríkisfyrirtæki voru færð úr Vinnuveitendasambandi Íslands með samkomulagi í ríkisstj. 1971–1974. Hæstv. iðnrh. lagði fram á þessum sama fundi 24. jan. s.l. svofellda tillögu, með leyfi forseta:

Ríkisstj. lýsir sig samþykka ákvörðun iðnrh. um að fyrirtæki sem eru í umsjá iðnrn. sæki um aðild að samtökum vinnuveitenda. Þetta mál var einnig ítarlega rætt og geymt á milli funda og sú ákvörðun tekin að iðnrh. væri frjálst að gera þetta eins og hann leggur til og ráðherrar í ríkisstj. gerðu ekki aths. við það.

Ég held einnig að þarna beri að læra af reynslu. Mér hefur ekki sýnst að reynsla undanfarinna ára sé jákvæð að því leyti að samningar við þessar verksmiðjur hafi verið í eins góðu samræmi við það sem gert hefur verið á hinum almenna vinnumarkaði eins og æskilegt er. Staðreyndin er sú að þessir samningar hafa iðulega gengið lengra en samið hefur verið um á hinum almenna vinnumarkaði. Yfirleitt hafa þessir samningar fylgt á eftir og orðið þeim vissulega til leiðinda og vandræða sem staðið hafa fyrir samningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Það má einnig geta þess að samningar við ÍSAL hafa haft mjög mikil og víðtæk áhrif á samninga við ýmis iðnaðarfyrirtæki ríkisins. Þar hefur að sjálfsögðu verið viðmiðun og samanburður og iðulega erfitt að standa gegn því að ýmis launakjör sem hinn erlendi hringur kaus að veita sínum starfsmönnum yrðu veitt starfsmönnum íslenskra iðnfyrirtækja sem að sumu leyti hafa unnið við svipaðar aðstæður. Þá hefur þess að sjálfsögðu ekki verið gætt hvort afkoma þessara fyrirtækja hafi verið slík að undir slíkum launahækkunum yrði í raun og veru staðið.

Eins og kom fram í þeirri till. sem hæstv. iðnrh. flutti og ég las var þetta hans ákvörðun en hún var tekin án þess að mótmælt væri í ríkisstj. Ég tel að þessi ákvörðun hafi verið rétt. Ég tel eins og ég segi að reynsla undanfarinna ára hafi sýnt að æskilegast sé að stuðla að heildarsamningum um kaup og kjör í íslensku efnahagsog atvinnulífi.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg fleiri orð, virðulegi forseti. Ég hygg að áfram verði umr. hér um málið sem eðlilegt er og kem ég þá kannske síðar inn í þær umr. en vil aðeins undirstrika það að lokum — og reyndar hygg ég að ég eigi eftir að svara einni spurningu frá hv. þm. Guðmundi Einarssyni — að afskipti ríkisstj. sem slíkrar af þessum málum eru fyrst og fremst fólgin í að skapa, auglýsa og tilkynna þann ramma sem hún telur að fær sé íslensku efnahagslífi. Það hefur ríkisstj. gert og það mun hún gera áfram og leggja áherslu á að vilji menn ná þeim markmiðum sem að er stefnt verður ekki mikið vikið frá því sem sá rammi leyfir.

Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga þótt einstakir hæstv. ráðherrar kunni að hafa sínar persónulegu skoðanir á einstökum þáttum þessa máls. Ríkisstj. mun a.m.k. binda sig við yfirlýsingar sem tengjast þeirri efnahagsstefnu sem hún hefur sett íslensku þjóðinni.