30.01.1984
Neðri deild: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur J. Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Þegar ég heyrði í hæstv. iðnrh. sællar minningar í síðustu viku var ég staddur á fundi í Verkamannasambandi Íslands og ég var sennilega einn af þeim fáu sem ekki reiddist vitundar ögn. Ekki var það nú vegna þess að mér líkaði málflutningur ráðh. heldur fóru að leita á mig ýmis gömul atvik. Til að hafa forsögu að þessum atvikum sem rifjuðust upp fyrir mér vil ég minna á að ég held að það hafi verið Adenauer, kanslari Vestur-Þýskalands, einn áhrifamesti stjórnmálaskörungur Vestur-Evrópu, sem efnislega mæltist eitthvað á þessa leið við gott tækifæri:

„Þegar maður sér og heyrir og þá ekki síður kynnist forsrh. íslenska lýðveldisins, Ólafi Thors, finnst manni nærri undarlegt að þetta sé forsrh. aðeins 200 þús. manna þjóðar. Maður skyldi ætla að hann væri betur kominn sem forsrh. 200 millj. manna þjóðar.“

Þetta eru nú líklega einhver stærstu orð sem viðhöfð hafa verið um íslenskan þjóðhöfðingja. Því minnist ég þessa að á árum fyrr — ég man ekki nákvæmlega hvort það var 1952 eða 1955 — höfðu verkamannafélagið Dagsbrún og nokkur önnur félög staðið í verkfalli. Til þess að herða á samningum — verkamenn voru orðnir aðþrengdir í þessu verkfalli — var boðað verkfall hjá vélstjórum í frystihúsum. Þetta þýddi að frostið hefði farið af frystiklefum húsanna sem voru yfirleitt full af fiski og þúsundir tonna hefðu eyðilagst.

Ólafur Thors hafði nokkuð annan hátt á en hæstv. iðnrh. Hann kallaði á sinn fund forustumenn boðaðs verkfalls, spjallaði við þá í upp undir 2 klukkustundir og óskaði eftir frestun verkfallsins og reifaði mál sitt skilmerkilega eins og hans var vandi og ræddi við viðstadda eins og jafningja. Forustumenn viðkomandi verkfalls eða verkalýðsfélaga — ég var nú ekki þarna staddur, þetta var fræg heimsókn — voru nú ekkert á því að lýsa yfir að verkfallinu skyldi frestað. Þó voru þeir allir löngu ákveðnir í að láta það ekki koma til framkvæmda. Í lok samtalsins sagði Ólafur: „Ég hefði gaman af að sjá ykkur ná kauphækkunum við frystihúseigendur þegar þeir eiga ekkert nema nokkur þúsund tonn af úldnum þorski í geymslunum. Farið þið nú út,“ sagði hann með sínum sérstæða hætti, „og svo eruð þið velkomnir aftur þegar þið eruð búnir að fá vitið og þá skal ég jafnvel bjóða ykkur upp á kaffi.“

Þetta var eftirminnilegt samtal. Allt leystist þetta farsællega enda voru snillingar þarna á ferð eins og t.d. Eðvarð heitinn Sigurðsson og fleiri. En rök Ólafs á þessum fundi um úldna þorskinn voru óspart notuð á fundum Dagsbrúnar til að knýja fram frestun á þessum boðuðu verkföllum. Slík vinnubrögð, slík lagni og harka samtímis, verða ekki borin á hæstv. iðnrh. Hann hefur í þessari uppákomu í álverinu hagað sér eins og fíll í glervörubúð. Öll viðbrögð hans hafa einkennst af yfirlæti, hroka, ef ekki beinlínis valdníðslu. Með framkomu sinni hefur hann beinlínis kallað á verkfall í Straumsvík.

Annars er seta hans í ráðherrastól farin að verða nokkuð athyglisverð — það er verst að iðnrh. er ekki hér staddur. Sætleiki valdsins hefur stigið honum svo til höfuðs að jafnvel vinir þessa málsnjalla ráðh. eru farnir að undrast nokkuð. Hann hefur fyrirskipað sérstaka stafsetningu í rn. sínu og manni kæmi ekki á óvart þó að hann fyrirskipaði á næstunni sérstakan einkennisbúning meðal starfsmanna rn. Hann er farinn að tala af þvílíku yfirlæti að t.d. í síðustu viku var hann að ræða einhver fyrirtæki og sagði: „Fyrirtækin sem ég hef velþóknun á.“ Það er bara eins og drottinn allsherjar sé að tala. Og hann sagði hér áðan: „Þegar búið er að greiða mér raforkuverð. Þegar ég er búinn að fá ... Hver sagði: „Ríkið, það er ég“?

Þetta er út af fyrir sig rannsóknarefni. En ég býst við að iðnrh. þurfi að bæta sig töluvert frá því sem verið hefur til að sagt verði um hann að æskilegt sé að hann væri iðnrh. hjá 200 millj. manna þjóð. Ég hugsa að flestum finnist nóg um þann málaflokk sem hann er ráðh. yfir. Ég held að með þessari framkomu, öllum þessum hótunum, öllum þessum hroka hafi hann beinlínis spennt upp þetta verkfall.

Ég skal ekkert um það fullyrða hvort möguleikar hefðu verið á að fá á því frestun. Það hefði mátt reyna það. En forsrh. sem ég minntist hér á áðan taldi ekkert eftir sér að ræða við menn, fara fram á þetta og nefna fyrir því rök. Þess í stað ganga hótanir. Þar sem hann sé á móti þessu og þessu muni það ekki ná fram að ganga. Ég held að ef einhver einn maður eigi sök á þessu sé það hæstv. iðnrh. Svona held ég að sé ákaflega óhyggilegt hjá ráðh. að haga sér í viðkvæmum málum. Iðnrh. er ekki viðstaddur svo að best er að spara frekari svigurmæli í hans garð þó að fleiri mætti til tína.

Nú þekki ég reyndar ekki ítarlega kröfur þær sem eru hjá starfsmönnum í Straumsvík. Hitt veit ég að þeir hafa talað um áfangahækkanir og þeir hafa talað um að fá kjaraskerðingu bætta og talað um að fá það í áföngum. Ríkisstj. hefur úrskurðað að það væri 40% lagfæring. Ég skal ekkert um það segja. Hins vegar er ákaflega villandi að tala um 30–40 þús. kr. kaup. Það er rétt hjá iðnrh. að kaup þarna er yfirleitt hærra en tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði. Það er hærra að því leyti að kauptrygging er eitthvað tæpar 11 þús. kr. Að vísu er nú lægsti taxti Dagsbrúnar svona um 9 600 kr. á mánuði í byrjunarlaun og kemst eftir 6 ár í 10 800 kr. Þeir munu vera með um 12 600. Ég held að kaup sé þarna hjá þeim sem lægstir eru um 12 600 og hjá þeim sem hæstir eru um eitthvað 18 þús. Ég býst ekki við að Vinnuveitendasambandinu ofbjóði það í sambandi við iðnaðarmenn en þarna er til viðbótar eins og kom fram í umr. um vaktaálag og gífurlega yfirvinnu að ræða.

Þarna hefur verið ófriðarástand. Verið hafa samfelldar uppsagnir á starfsmönnum. Andrúmsloft virðist vera þarna orðið býsna erfitt. Lagt er til grundvallar kaup sem á er vaktaálag, ekki einungis að þarna séu unnar þrjár vaktir, heldur er unnið þarna alla daga ársins. Að vísu kemur þarna ákveðið vetrarfrí fyrir þá helgidaga sem unnir eru en það er engin mínúta sem úr fellur. Hins vegar er vinnutími ekkert bundinn við þessa 1600 tíma. Það er óvíða meiri yfirvinna en á þessum vinnustað. Það er ákaflega villandi og óheiðarlegt af manni sem er hér iðnrh. og slær um sig hér sem fulltrúi réttlætisins að veifa slíkum tölum. Þessar tölur er hægt að koma með af miklu fleiri stéttum og hópum, ef tekin er yfirvinna, helgidagavinna og vaktavinna. (Forseti: Þar sem nú er komið að þingflokksfundatíma langar mig að spyrja hv. þm. hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. Þessari umr. verður fram haldið á nýjan leik kl. 6. Það eru enn 3 hv. þm. á mælendaskrá og ef hv. þm. á töluvert eftir af sinni ræðu vildi ég óska eftir að hann mundi halda áfram sinni ræðu kl. 6.) Já, virðulegi forseti, það er eiginlega óráðið hvað ég tala lengi en ætli ég taki ekki ágætu boði forseta og haldi áfram þegar fundur verður boðaður að nýju. — [Fundarhlé.]

Virðulegi forseti. Sannleikurinn er nú sá um þetta mál sem hér er á dagskrá að um það er hægt að ræða bæði í þrjá klukkutíma og tíu mínútur. Ég skal reyna að velja síðari leiðina og vil þá reyna að draga mál mitt saman.

Ég held að kröfugerð starfsmanna ÍSALs hafi verið ákaflega ýkt í fjölmiðlum. Ég held líka, eins og ég hef áður tekið fram, að framkoma og stíll hæstv. iðnrh. hafi verið ákaflega óheppilegur og hafi gert þarna erfiðara með alla samninga. Það vill nú verða svo á vinnumarkaði að upp koma ákveðin vandamál á vinnustöðum og sum þeirra eru ótrúlega oft staðbundin. Ég held að hluti af þeim vanda sem þarna er sé nokkuð staðbundinn. Hitt þarf hæstv. ríkisstj. ekki að láta sér koma neitt á óvart þó einhverjir launahópar í landinu vilji eitthvað rétta sinn hlut eftir það sem á undan er gengið.

Sannast að segja er ég ákaflega ókunnugur þessu fyrirtæki. Það félag sem ég á að veita forstöðu hefur ekkert með samningagerð þarna að gera og ég vil leiða minn hest frá því á þessu stigi að fullyrða þarna mjög ítarlega um kröfugerð. En af þeim viðtólum sem ég hef átt sýnist mér að allar tölur framámanna og fjölmiðla séu þarna ákaflega ýktar og þannig hafi verið haldið á þessum málum að það hafi skapað spennu og sé kannske torleystara en áður var.

En það er fleira sem hæstv. iðnrh. leggur til. Hann leggur til að fyrirtæki iðnrn. gangi í Vinnuveitendasambandið. Nú er það svo að þarna er verið að afhenda Vinnuveitendasambandinu, samtökum einkaaðila, ákveðið vald. Það er verið að framselja því vald sem ríkið hefur yfir sínum fyrirtækjum. Sannast sagna er ég einn úr þeim hópi sem hef oft verið ákaflega óánægður með það ósamræmi sem er milli almenns verkafólks og samninga ríkisstarfsmanna. En engu að síður, það er ákveðin vinnumálanefnd ríkisins. Hvar á að stoppa hluti af þessum starfsmönnum iðnrn.? Fyrirtæki iðnrn. falla undir BSRB. Verður það afhent Vinnuveitendasambandinu? Eða verður hluti af starfsfólkinu sem ríkið semur við og hluti af því sem Vinnuveitendasambandið semur við? Síðan er greiddur skattur til Vinnuveitendasambandsins, ekki er aðeins framselt vald yfir fyrirtækjum ríkisins heldur er greiddur skattur til Vinnuveitendasambandsins. Ekki skal ég fullyrða það á þessu stigi, vera má að gjöld í Vinnuveitendasambandinu hafi lækkað, en ég hélt að það væri meira en 0,4%. Það var það hér áður fyrr, en það hefur kannske lækkað, ég skal ekkert um það fullyrða.

Á svo að halda áfram? Ætlar ríkið að framselja t.d. samninga við ríkisbankana, áður en þeir verða seldir, til Vinnuveitendasambandsins? Á einhver hluti af bankastarfsmönnum að vera samningsaðilar við Vinnuveitendasambandið og hluti samningsaðilar við ríkisbankana? Í hvað er verið að fara þarna? Mér sýnist þarna hlaupið til ákaflega lítið grundað og það sem verra er að ekki er einu sinni tekið fram að t.d. í samningum við fyrirtæki iðnrn. sé áheyrnarfulltrúi frá ríkinu sem getur fylgst með málum.

Þessi mál eru öll ákaflega flókin og erfitt að ræða einstaka þætti þeirra. En ég verð að segja að þarna virðist mér ákaflega snarlega gripið til hendi. Ég er ekki viss um að það sé jafn vel grundað og hæstv. iðnrh. vill vera láta.

Hitt skal ég viðurkenna og hef aldrei farið dult með að oft hefur gætt ákaflega mikils ósamræmis milli ríkis og bæjarfélaga annars vegar við hliðstæða starfshópa og Vinnuveitendasambandsins hins vegar. Gagnrýni um það sem sjálfsagt kemur fram á eftir er á sínum stað. Mér dettur ekki til hugar að mótmæla því. Ég hef verið framarlega í þeim flokki að gagnrýna þau vinnubrögð.

Allt er þetta skiljanlegt hjá hæstv. iðnrh. og hjá þeim sjálfstæðismönnum. En leikurinn gerist hins vegar tvíbentari þegar þeir framsóknarmenn fara að ræða málin. Það er nú svo létt sannfæringin hjá hæstv. forsrh. að mér kæmi ekki á óvart þó að hann vippaði SÍS í Vinnuveitendasambandið. Hann hikar ekki við að segja um orð eins farsælasta foringja Framsfl., Eystein Jónsson — virtur vel, umdeildur, en er sakaður um annað heldur en vitsmunaskort í gegnum tíðina — að þetta sé löngu úrelt og bara óeðlilegt og óheppilegt. Ég vona að það kosti ekki of mikil læti þó lesið sé hér upp úr þingtíðindum, ég skal lesa lítið. Eysteinn Jónsson segir í ræðu:

„Ég nefni eitt dæmi, eitt atriði, sem verið er að ræða í sambandi við þetta sérstaka mál, þ.e. um þátttöku þessa álfyrirtækis í atvinnurekendasambandinu. Atvinnurekendasambandið er vitanlega mikið áhrifavald í íslensku þjóðlífi og hefur stórkostleg áhrif á þjóðarbúskapinn og eitt sem kemur upp í þessu sambandi er þetta: Á þetta fyrirtæki að vera í Vinnuveitendasambandinu og beita áhrifum sínum þar í íslenskum þjóðarbúskap? Menn geta náttúrlega alla vega leikið sér með orðið pólitík, en auðvitað er okkur ljóst að það er auðvitað pólitískt atriði hverjir hafa áhrif í atvinnurekendasambandinu eða Vinnuveitendasambandinu.“

Og áfram í þessum dúr sem lesið var hér áðan hvernig Alþfl. ætlaði sér að tryggja að þeir gengju ekki í Vinnuveitendasambandið og síðan þessi fleyga setning Eysteins Jónssonar í þessari þingræðu:

„En að því er Morgunblaðið hefur eftir herra Meyer er svo að sjá að frá þessu hafi alls ekki verið gengið. Hringurinn telji það ekki á dagskrá.“ o.s.frv., o.s.frv.

Mér kæmi ekki á óvart eftir að hæstv. forsrh. er búinn að dæma þessar fullyrðingar fyrrv. formanns Framsfl. bull og vitleysu að næsta verkefni hans væri að kippa SÍS inn í Vinnuveitendasambandið til þess að fá samræmingu í hlutina. Það er þetta sama prinsippleysi, þessi tækifærispólitík. Einn daginn er algjörlega staðið á því að þetta sé pólitísk ráðstöfun að láta erlend fyrirtæki styrkja og efla Vinnuveitendasambandið. Nú er einhver hópur sem er í einhverjum erfiðleikum, — hæstv. forsrh., þá burt með prinsippin, bara inn í Vinnuveitendasambandið með þá. Ef Eysteinn Jónsson hefur sagt eitthvað hér áður fyrr eða aðrir framámenn Framsfl. og það kemur illa við mig, þá látum það bara detta. Þetta er þetta pólitíska prinsippleysi og mér kæmi satt að segja ekki á óvart þó að SÍS yrði nú vippað inn í Vinnuveitendasambandið þó að ekki hafi nú alltaf ríkt friður þar á milli án þess að ég vilji nú fara nánar þar inn í. (Gripið fram í: Er það nokkurt prinsippbrot?) Nei, ekki er það nú prinsippbrot, en dálítið er það nú hvimleitt þegar þarf að loka Vinnuveitendasambandið inni í öðrum enda hússins og Vinnumálasambandið í hinum og hafa sérstakan útgang fyrir hvern til að menn rekist ekki á. Þetta munum við Þorsteinn pálsson báðir. Ég veit að Þorsteinn mundi fagna því, hv. 1. þm. Suðurl., ef hann fengi þennan hóp SÍS-manna undir sinn verndarvæng. Ég býst við að hann fái það ef þannig stendur á hjá forsrh., að hann þurfi að losa einhverja ákveðna klemmu. Það er ekki svo nojið með þessi prinsippbrot eða þessa samvinnuhreyfingu svona í augnablikinu þó hún gangi í Vinnuveitendasambandið.

Ég skal nú draga mál mitt saman. Ég vil þó aðeins segja að í sambandi við að talað hefur verið hér um að ÍSAL sé sá aðili sem helst hafi rutt veginn í þessum verksmiðjusamningum — já, það er nú svo, það er nú svo. Ég held að það hafi verið hv. 1. þm. Suðurl. — við höfum báðir lent í því að einn ákveðinn embættismaður, forstjóri járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, hann hafði bara samið fríhendis og sprengdi: ÍSAL og allar ríkisverksmiðjurnar. Eftirlitið var nú ekki meira þar. Svoleiðis að það eru nú allir hlutir til í þessu. Nú, ég ætla ekki að fara ítarlega yfir í það.

Líka ætlaði ég að spara mér — því að hvorugur þeirra er viðstaddur, hæstv. heilbrrh. eða fjmrh. — en það kom hér fram hjá iðnrh. þessi ást og umhyggja fyrir hinum lægst launuðu sem ekki hafa til hnífs og skeiðar eins og það var orðað. Síðan var lögð áhersla á hugmyndir Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur og Bjarna Jakobssonar. Þær hugmyndir voru að vísu þokukenndar en ýmislegt var í þeim sem rétt væri að athuga. Það er auðvitað allt komið fram þegar sá ágæti ráðh. og ágæti maður, hæstv. heilbrrh., hafði viðtal við Morgunblaðið og lýsti því yfir að stóraukin útgjöld hjá ríkissjóði í sambandi við tryggingar hefði hann alls ekki á dagskrá. Þetta er nú ekki alveg orðrétt haft eftir en efnislega var það á þessa leið.

Hæstv. fjmrh. talar um halla á ríkisfjárlögum og að binda sig við 4%. Á sama tíma eru menn hér að tala um ást og umhyggju fyrir þessu fólki sem hafi ekki til hnífs og skeiðar. Ég er reiðubúinn til þess að setjast bara hér á eftir með iðnrh. með allt sitt vald og jafnvel semja við hann svo sem ég hef vald til um að þessi ást hans og umhyggja komi fram í einhverjum samningum og verkum. Svona skrúðmælgi er ekki heppileg. Hún hljómar vel í ræðustól og jafn orðsnjall maður og hæstv. iðnrh. getur fært hana í góðan búning en bak við þetta býr ekki neitt. Það á enginn jafn erfitt með að ná samningum og það fólk sem á lægstu kauptöxtunum er.

Ég skal ljúka þessu máli mínu. Ég vil aðeins ítreka að mér finnst allt reka sig á annars horn í þessum umr. Hitt veldur kannske einhverri furðu hjá sumum það prinsippleysi sem ríkir hjá hæstv. forsrh. Ég lýsi því yfir að það veldur mér engri undrun.