31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

407. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þann 7. maí 1982 samþykkti Alþingi lög um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og kaus stjórn fyrir væntanlegt fyrirtæki. Á grundvelli laganna var þann 4. júní 1982 stofnað fyrirtækið Kísilmálmvinnslan hf. með 25 millj. kr. hlutafé frá íslenska ríkinu. Skv. 3. gr. laganna skyldi stjórn félagsins gera skýrslu um starfsemi þess og athuganir og hún leggjast fyrir næsta Alþingi. Samþykki Alþingi niðurstöður skýrslunnar er ríkisstj. heimilt að leggja fram allt að 200 millj. kr. í hlutafé til viðbótar, segir í lögunum.

Stjórn félagsins skilaði umræddri skýrslu til iðnrn. í jan. 1983. Var hún þá þegar send þingflokkum til kynningar og síðan lögð fyrir Alþingi af þáv. ríkisstj. í marsbyrjun 1983 með svofelldri þáltill.:

„Með vísan til 3. gr. laga nr. 70 frá 17. maí 1982 um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði samþykkir Alþingi niðurstöður stjórnar Kísilmálmvinnslunnar hf. dags. 7. jan. 1983 og ályktar að stefna eigi að gangsetningu verksmiðjunnar á árunum 1986–1988.“

Till. þessi varð ekki útrædd á þinginu sem rofið var þann 14. mars s.l. Áhersla var hins vegar lögð á það af iðnrn., að undirbúningi yrði haldið áfram, m.a. varðandi samninga vegna kaupa á vélbúnaði til verksmiðjunnar. Þann 19. maí 1983 samþykkti stjórn Kísilmálmvinnslunnar samning um kaup á tveimur 21 megawatta ofnum ásamt miklu af búnaði í verksmiðjuna frá vestur-þýska fyrirtækinu Mannesman Demag og var sá samningur undirritaður með eðlilegum fyrirvara þann 28. maí s.l. Er samningur þessi hagstæður og kaupverð búnaðar til muna lægra en áætlað hafði verið í skýrslu stjórnar fyrirtækisins hálfu ári áður.

Við ríkisstjórnarskipti í vor stóðu mál því þannig að miðað við þá stefnu sem fylgt hafði verið um uppbyggingu kísilmálmverksmiðjunnar sem íslensks fyrirtækis og að því tilskildu að Alþingi samþykkti niðurstöður stjórnar fyrirtækisins um uppbyggingu verksmiðjunnar fyrir árslok 1983 hefði verið unnt að gangsetja verksmiðjuna seint á árinu 1986.

Núv. ríkisstj. breytti hins vegar um stefnu á þessu sviði sem öðrum. Í stjórnarsáttmála hennar frá 26. maí 1983 má lesa eftirfarandi: „Nýjum aðilum verði gefinn kostur á eignaraðild að kísilmálmverksmiðjunni.“

Núv. hæstv. iðnrh. gaf fljótlega út þá textaskýringu að hér væri um að ræða erlenda aðila og helst kysi hann að þeir ættu verksmiðjuna að fullu, a.m.k. að meiri hluta. Ekki hefur komið fram mér vitanlega hvort samstarfsflokkur sjálfstæðismanna, Framsfl., hafi skrifað upp á þá stefnu iðnrh. varðandi kísilmálmverksmiðjuna og væri æskilegt að fá það upplýst. Margir urðu hins vegar áhyggjufullir út af þessari stefnubreytingu og áhrifum hennar á framgang verksmiðjumálsins.

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem haldinn var 21.–26. ágúst s.l. var m.a. samþykkt áskorun um að viðræður um eignaraðild útlendinga að verksmiðjunni yrðu ekki látnar tefja fyrir ákvörðun um framkvæmdir. Einstaka sveitarstjórnir eystra hafa einnig ályktað í svipaða veru. Afstaða mín og míns flokks, Alþb., til erlendrar stóriðju er fullkunn. Ég tel að með núverandi stefnu í stóriðjumálum sé á ný lagt út á háskalega braut undir forystu Sjálfstfl. hliðstætt því sem gerðist á viðreisnarárunum.

Vert er að minna á að í lögunum um kísilmálmverksmiðjuna er kveðið skýrt á um að ekki skuli minna en 51% af hlutafé vera í eigu ríkisins og stjórn fyrirtækisins skipuð fulltrúum ríkisins að meiri hluta.

Lítið hefur heyrst um málefni verksmiðjunnar eftir stjórnarskiptin og ekkert bólar enn á tillögum hér á hv. Alþingi til að afla heimildar um framkvæmdir á grundvelli gildandi laga. Þó sagði hæstv. forsrh. í stefnuræðu sinni 18. okt. s.l., „Framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði geta hafist á miðju ári 1984 ef Alþingi samþykkir.“ En tillögurnar vantar og þögnin í þessu stórmáli er að verða býsna löng af hálfu núv. ríkisstj. Því ber ég hér fram fsp. í þremur liðum til hæstv. iðnrh. um þetta mál svohljóðandi:

„1. Hvenær hyggst ríkisstj. leita eftir heimild Alþingis til að hefja framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði skv. lögum nr. 70/1982?

2. Hvenær er áformað að hefja framkvæmdir við verksmiðjuna og byrja rekstur hennar?

3. Hvað hefur gerst í viðræðum við erlenda aðila vegna hugsanlegrar eignaraðildar að Kísilmálmvinnslunni hf. og út frá hvaða forsendum er gengið í þeim viðræðum, m.a. varðandi orkuverð?“