31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

407. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég verð að segja að upplýsingar hæstv. iðnrh. koma mér nokkuð á óvart. Hafði ég þó ekki búist við því að hann gæfi hér ákvarðandi yfirlýsingar um þetta efni, þar sem þær hefðu vafalítið verið komnar fram með öðrum hætti. En samkvæmt því sem fram kom í hans máli er ljóst að allt er í fullkominni óvissu um framhald varðandi þetta fyrirtæki og hvenær ráðist verði í framkvæmdir við það. Það er ljóst, að vegna stefnubreytingar þeirrar sem hæstv. ráðh. hefur staðið fyrir og núv. ríkisstj. skrifað upp á tefjast framkvæmdir, bæði undirbúningur og framkvæmdir við þessa verksmiðju stórlega frá því sem áformað hafði verið. Eins og ráðh. greindi hér frá þá liggja ekki fyrir nein endanleg áform um framkvæmdir, eins og hann orðaði það að mér heyrðist.

Hér erum við að sjá uppskeruna af þeirri stefnu sem ríkisstj. og hæstv. ráðh. beitir sér fyrir í stóriðjumálum, að ætla útlendingum að ráða þar ferðinni. Það er horfið frá því að Íslendingar séu þarna frumkvæðisaðilar og forustuaðilar í þessum málum og geti tekið sínar ákvarðanir út frá íslenskum forsendum. (Iðnrh.: Og grætt á öllu saman.) Já, og fleytt rjómann af sölu orkuverðs og sköttum, eins og Morgunblaðið orðar það í ritstjórnargreinum sínum, sem á að vera uppskeran af stóriðjustefnu flokksins.

Þetta er þeim mun hörmulegra, þessar horfur og þessi stefnubreyting, sem allar aðstæður varðandi þetta fyrirtæki hafa reynst vera góðar og batnandi nú hina síðustu mánuði, fyllilega í samræmi við þær vonir og spár sem stjórn verksmiðjunnar lagði fyrir í sinni skýrslu. Þannig liggur það fyrir, að unnt er að fá hagstæð tilboð í framkvæmdaþætti vegna efnahagsástands í heiminum, m.a. úti í Evrópu og einnig hér innanlands. Í öðru lagi liggur það fyrir að kostnaðaráætlun varðandi verksmiðjuna er nú áætluð um 10% lægri en var mat stjórnarinnar í ársbyrjun 1983, sem hefur veruleg áhrif á arðgjöf fyrirtækisins, eða um 2%, þannig að miðað við þær forsendur sem þá lágu fyrir ætti arðgjöfin að metast um 15%. Í þriðja lagi er þess að geta, að verðlag á afurðum þessarar verksmiðju, kísilmálmi, hefur farið verulega hækkandi á undanförnum misserum, úr þeim öldudal sem ríkti 1981 og sérstaklega 1982, eða um 30–40%. Er það í samræmi við spár sem fyrir lágu um verðþróun á þessari afurð.

Ég tel að það sé hörmulegt hvernig til hefur tekist fram að þessu í þessu stóra máli fyrir íslenskan þjóðarbúskap, og þá ekki síst fyrir Austurland, þar sem þetta fyrirtæki á að rísa lögum samkvæmt og þar sem það kemur til með að hafa gífurlega þýðingu fyrir atvinnustarfsemi í fjórðungnum og orkunýtingu í framtíðinni.

Ég tel að það sé tilgangslaust að vera að tala um orkufrekan iðnað sem jákvæðan þátt í íslenskum þjóðarbúskap nema við Íslendingar sjálfir höfum þar forustu og forræði. Ég tel að þróunin í sambandi við þetta mál tali þar mjög skýrt og ótvírætt. Ég bendi á það, að stjórnarmenn í Kísilmálmvinnslunni, sem hafa ekki fengið að fjalla um þetta málefni nema óverulega að undanförnu, hafa sumir sama mat og ég í sambandi við eignaraðildarmátin. T.d. svarar Halldór Árnason, sem var stjórnarformaður þar til á aðalfundi í nóv. s.l., í viðtali í Þjóðviljanum 14. sept. s.l. spurningunni um eignaraðild útlendinga. Hann er spurður: „Telur þú erlenda eignaraðild nauðsynlega eða æskilega?“ Hann svarar: „Þær athuganir sem gerðar hafa verið á vegum stjórnar félagsins sýna að erlend eignaraðild er alls ekki nauðsynleg. Sýnt hefur verið fram á að nauðsynlegrar tækni og rekstrarþekkingar er auðvelt að afla bæði hér innanlands og erlendis. Mikilvægasta þekkingin og þjálfun starfsmanna verksmiðjunnar fylgir raunar með í kaupum á vélum og búnaði. Erlend eignaraðild er að mínu mati ekki heldur æskileg. Raunar tel ég að fyrir þeim sem prédika um erlenda eignaraðild sé líkt komið og þeim sem í byrjun aldarinnar vildu láta erlenda aðila byggja upp og eiga sjávarútveg á Íslandi. Nýting orkulindanna nú er hlutfallslega minna átak fyrir Íslendinga en uppbygging sjávarútvegs var þá.“

Hæstv. ráðh. nefndi hér kynningarrit sem sent hefði verið 20–30 aðilum erlendis. Ég óska eftir því að hæstv. ráðh. sjái til þess að alþm. fái þetta kynningarrit en ekki aðeins erlendir viðmælendur hans.