31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

407. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Kynningarritið er ekkert leyndarmálsplagg. Það verður séð svo um að hv. alþm. fái það sent. Við þurfum væntanlega ekki að eyða löngum tíma nú, við hv. 5. þm. Austurl. og ég, að þrætast á um þann mun sem er á stefnu flokka okkar til að mynda í stóriðjumálum og eignaraðild útlendinga að slíkum fyrirtækjum. Það er öllum mönnum fullkunnugt. Og það eflir ekkert sérstaklega stöðu hans í því máli þó að hann vitni hér í sérstakan kommissar sinn, sem hann hafði fyrir stjórnarformann í Kísilvinnslunni, um það hvaða álit hann hefur á aðild útlendinga að stóriðju, því að það var líka kunnugt fyrir fram.

Ég vil, vegna þess að arðsemi bar á góma hjá honum, upplýsa að enn vantar nokkuð á að endar nái saman. Það er talið að á vanti um 200 dollara fyrir hvert framleitt tonn til að arðsemi sé nægjanleg, þannig að það stæði vel undir framkvæmdum og rekstrarkostnaði. Og auðvitað er það alvarlegt mál. Það verður reynt til hins ýtrasta að finna aðila sem vill taka að sér áhættuna af rekstri þessa fyrirtækis.

Ég ætla ekki heldur að fara að rifja upp þá reynslu sem við höfum haft af meirihlutaeign okkar í járnblendiverksmiðjunni við Grundartanga. Það ætti hv. fyrirrennara mínum að vera fullkunnugt um. Kannske tekst að ráða fram úr því mikla vandamáli sem að því fyrirtæki hefur steðjað. Að því er unnið nú þessa dagana og hefur verið gert. En það er ýmislegt sem er jákvæðara í þeim sökum en maður fyrir fram gat átt von á um áhuga erlendra aðila að eign og rekstri verksmiðju sem þessarar á Reyðarfirði. Og vissulega hefur það komið manni þægilega á óvart, því að satt best að segja var högum okkar þann veg háttað í þessum sökum, að engin sérstök ástæða var til þess að vera mjög bjartsýnn um viðtökur á erlendri grund, þegar Íslendingar sæktu þar um samvinnu um byggingu og rekstur slíkra fyrirtækja, af ástæðum sem ég hirði ekki að rekja frekar hér og nú. Um þetta höfum við deilt og um þetta höfum við þrætt langa hríð á haustþinginu og er ástæðulaust nú í þröngum fsp.-tíma að ýja frekar að því.