31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

407. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var athyglisvert sem síðast kom fram í máli hæstv. ráðh. Deilurnar við Alusuisse vegna álversins í Straumsvík hafa ekki haft þau áhrif sem hann taldi á afstöðu erlendra aðila til Íslendinga og samskipta við okkur. Þetta er viðhorf sem ég hef túlkað hér á Alþingi í umr. um þessi mál, að virðing okkar og traust hefur einmitt aukist erlendis vegna þess málarekstrar. Á meðan þar var haldið eðlilega á málum var mönnum ljóst að Íslendingar væru viðræðuhæfir í reynd.

En hæstv. ráðh. fór hér með tölur sem ég held að sé alveg nauðsynlegt að leiðréttar séu því að hann sagði að enn vantaði 200 dollara á framleitt tonn til þess að fyrirtækið stæði undir sér. Hvaðan koma hæstv. ráðh. þessar upplýsingar? Verð á kísilmálmi nú í Evrópu er um 1250 dalir eða nærri því, og í Bandaríkjunum eru það 1300–1350 dalir sem innflytjendur fá fyrir kísilmálm um þessar mundir. Ég tel mig hafa upplýsingar um að skv. arðsemisútreikningum þurfi 1337 dollara á tonn til að fyrirtækið fleyti sér og standi undir vöxtum og afskriftum. (Iðnrh.: 1450.) 1337.