31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

146. mál, umhverfismál

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 7. landsk. þm. fyrir að taka þetta mál hér upp og þakka einnig hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið og skýrt hafa málið af hans hálfu.

En það er ekki að furða þó að spurt sé um þetta mál þegar það liggur fyrir í fyrsta lagi að ríkisstj. hefur þetta mál á málalista sínum fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Síðan gerist það að einn af þm. ríkisstjórnarliðsins, Gunnar G. Schram, ásamt fimm öðrum hv. þm. Sjálfstfl. leggur hér fram frv. um sama mál, sem er að miklu leyti byggt á frv. sem fyrrv. félmrh. hafa látið vinna, annars vegar Gunnar Thoroddsen, sem hann mælti fyrir á árinu 1978, og hins vegar ég, sem var unnið í nefnd sem hv. þm. Gunnar G. Schram átti sæti í ásamt Árna Reynissyni og Eysteini Jónssyni.

Ekki tjáir þó að fara í smáatriðum út í þá sögu, þó fróðlegt væri hér, heldur ber að leggja áherslu á að það verði haldið á þessum málum þannig að við náum hér að eignast löggjöf um umhverfismál. Þá vil ég minna á að það sem olli mestum vandkvæðum við að ná samkomulagi um þá tegund frv., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Gunnari G. Schram og fleirum, var að inni í því var þess ekki gætt sem skyldi að hafa — að talið var samráð við heilbrigðisþáttinn og hollustuverndina í okkar landi. Það var greinilegt að eftir að lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit voru sett var ekki unnt að koma fram sams konar frv. um umhverfismál og áður hafði verið gert ráð fyrir. Það varð sem sagt að eyða nokkrum tíma í að samræma sjónarmið manna í stjórnkerfinu, annars vegar í heilbrigðismálum og hins vegar í öðrum umhverfismálum. Þess vegna var það sem tveir embættismenn, annars vegar Stefán Thors og hins vegar Ingimar Sigurðsson, voru fengnir til að reyna að samræma sjónarmið skipulagsyfirvalda og heitbrigðisyfirvalda. Þeir sendu svo frá sér frv. sem ég fékk í hendur og lagði fram í þáv. ríkisstj. en hún náði ekki að afgreiða.

Í því frv. voru ýmis mjög athyglisverð ákvæði að mínu mati, sem eru ekki í því frv. sem hv. þm. Gunnar G. Schram o.fl. hafa sýnt hér í þinginu. M.a. var í því frv. gert ráð fyrir sérstöku átaki til að bæta úr holræsamálum þéttbýlisstaða. Það var beinlínis gert ráð fyrir fjármögnun á því átaki. Ég tel að það sé í rauninni einhver versti bletturinn á þéttbýlissvæðinu hvernig með holræsamál er hér farið. Það er satt að segja ekki sæmandi menningarsamfélagi hvernig á þeim málum er tekið hér á suðvesturhorninu. Þess vegna tel ég mjög mikilsvert að þau mál verði tekin með þegar umhverfislagafrv. verður lagt hér fyrir af ríkisstj. síðar. (Forseti hringir. )

Ég vildi leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. félmrh. að um leið og hann leggur fram frv. ríkisstj. um umhverfismál í marsmánuði n.k. láti hann fylgja sem fskj. það frv. sem þeir Ingimar Sigurðsson og Stefán Thors unnu fyrir mig á árinu 1982 til þess að menn megi átta sig á því hvað það er sem þar var verið að leggja til.