25.10.1983
Sameinað þing: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

4. mál, framkvæmd byggðastefnu

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Meginatriði þessarar till. til þál. um gerð frv. um framkvæmd byggðastefnu eru þessi:

Í fyrsta lagi að byggðaáætlanadeild núv. Framkvæmdastofnunar ríkisins verði sérstök stofnun undir umsjón félmrn. Þessi till. kom fyrst fram í frv. til l. um mörkun byggðastefnu og gerð byggðaþróunaráætlana sem flutt var af þingflokki Alþfl. á þingi árið 1981.

Annað meginatriðið er að starfssvið áætlanadeildar verði skýrt afmarkað sem og gerð byggðaáætlana, þ.e. þar verði kveðið á um forgangsröðun verkefna. Þetta atriði kom mjög skilmerkilega fram í lagafrv. Alþfl. um byggðastefnu sem ég vitnaði til áðan.

Þriðja meginatriðið er að lánadeild og stjórn Framkvæmdastofnunar hætti störfum og Byggðasjóður verði lagður niður. Það var ekki gert ráð fyrir þessu upphaflega í frv. Alþfl. Þar var gert ráð fyrir því að Byggðasjóður héldi áfram og lánadeild starfaði einnig áfram. Hins vegar er því við að bæta að í stjórnarmyndunarviðræðum á s.l. vori lagði Alþfl. fram mjög ítarlegar tillögur um fjárfestingarmál. Þar voru meginatriðin m.a. að Framkvæmdastofnun sem slík í núverandi mynd, og þar með Byggðasjóður og lánadeild, yrði lögð niður, byggðaáætlanir færðust inn í félmrn., sem líka er hér gert ráð fyrir, en fjárveitingar til byggðamála samkv. áætlunum til langs tíma yrðu lagðar fyrir Alþingi þannig að ákvarðanir um það yrðu teknar hér fyrir opnum tjöldum í samræmi við fyrir fram gerðar áætlanir, sem reyndar var einnig ráð fyrir gert í frv. Alþfl. frá árinu 1981. Þar var gert ráð fyrir að Byggðastofnunin starfaði undir yfirstjórn félmrn., þar væri unnið að sjálfri áætlanagerðinni. Fjármuna yrði síðan leitað með því að leggja það fyrir Alþingi við afgreiðslu fjárlaga á ári hverju með svipuðum hætti og vegáætlun er afgreidd. Það er þess vegna alveg ljóst af þessu að þessi þáltill. er í öllum meginatriðum samhljóða því frv. til l. um mörkun byggðastefnu sem Alþfl. lagði fram fyrir tveimur árum. Það er ánægjulegt fyrir okkur jafnaðarmenn alla þegar þýðingarmiklu máli eins og þessu bætast nýir liðsmenn. Vonandi verður það smám saman til þess að málið fái aukinn hljómgrunn.

Þótt ekki sé það nú aðalatriði þessa máls þá sakar ekki að geta þess í leiðinni að við erum ekkert óvanir þessu, jafnaðarmenn. Ég nefni aðeins nokkur dæmi. Það tók Alþfl. mörg ár að berjast fyrir því grundvallaratriði í allri efnahagsstjórnun og ekki síst fjárfestingarpólitík að fá meiri hluta á Alþingi til að fattast á verðtryggingu sparifjár; fallast á það markmið að stefnt skyldi að raunávöxtun sparifjár. Þetta er þýðingarmesta breyting sem varð á hagstjórn á s.l. áratug. Sú barátta var harðsótt en að lokum hafðist það og nú er fyrir löngu svo komið að flestir, jafnvel helstu postular lágvaxtastefnunnar og arðráns á sparifjáreigendum, hafa nú fallið frá þessum mátflutningi sínum og séð að sér.

Annað dæmi. Það hefur tekið Alþfl. nokkuð langan tíma að koma til skila því grundvallaratriði í sambandi við auðlindanýtingu okkar í sjávarútvegi, að það verður að vera skynsamlegt hóf á fjárfestingu í sjávarútvegi, að fyrir löngu er svo komið miðað við ástand fiskistofna, að togaraflotinn er of stór, of afkastamikill og hefur það haft hrikalegar afleiðingar í för með sér eins og umr. hér á Alþingi í hv. Ed. staðfesti rækilega fyrir nokkrum dögum..

Það sakar ekki að nefna þriðja dæmið, sem einnig varðar fjárfestingarpólitík og auðlindanýtingu, sem er barátta Alþfl. fyrir því að hætta rányrkjustefnu í landbúnaði. Í 20 ár hefur verið á það bent með ærnum rökum að það verður að vera eitthvert samræmi milli framleiðslugetu og afkasta í landbúnaði, sem við verðum að miða við þarfir innanlandsmarkaðar. Einnig á því sviði höfum við lent í offjárfestingu með dapurlegum afleiðingum og neikvæðum fyrir skattgreiðendur í þessu landi. Það er því af nógu að taka þegar Alþfl.menn rifja upp sum af lykilbaráttumálum sínum fyrir breyttri hagstjórn á Íslandi. Að sjálfsögðu er fagnaðarefni að í flestum greinum ber öllum skynsömum mönnum saman um það að þetta hafi verið tímabærar tillögur og í öllum meginatriðum réttar og ljóst orðið að þeim vex fylgi. Það vantar hins vegar herslumuninn í sumum tilvikum til þess að koma þeim fram. (EgJ: Kemur það fram í stærð Alþfl.?) Það er oft hlutskipti sumra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka, hv. þm., að það er ekki alltaf vel fallið til vinsælda fyrst í stað að hafa rétt fyrir sér eða benda á óvinsælar en skynsamlegar og nauðsynlegar tillögur. En hverjir verða að lokum til þess að koma þeim fram, það er ekki aðalatriðið heldur hitt að þær komist fram þjóðinni allri til hagsbóta.

Að því er varðar þessa till. um mótun byggðastefnu, þá er kannske rétt að rifja upp að fyrr hafa verið fluttar tillögur hér á hv. Alþingi um mótun byggðastefnu. Árið 1972 var slík ályktun samþykkt og sett á laggirnar sérstök nefnd sem átti að hafa það verkefni að þrengja hugtakið, skilgreina hvað við eigum við með byggðastefnu, hver eru markmið hennar, hverjar eru þær aðferðir sem þjóðfélagið kýs að beita í því efni. Nefndin var sett á laggirnar árið 1972. Það er óþarfi að taka það fram að hún hefur ekki skilað áliti enn í dag árið 1983.

Sömu dapurlegu sögu er að segja um áætlanagerð í byggðamálum. Það er unnt að telja upp mörg dæmi um að lagðar hafi verið fram skýrslur, byggðaþróunaráætlanir fyrir einstök byggðarlög, en hlutverk þeirra hefur síðan orðið það að rykfalla í skúffum stofnunarinnar. Og lítið sem ekkert samræmi hefur verið milli annars vegar tillögugerðar og hins vegar fjárveitinga til þess að fylgja þeim eftir í framkvæmd. Ég held því að það skorti mikið á, með vísan til þessarar dapurlegu sögu um starf mþn. í byggðamálum, að menn séu almennt á eitt sáttir um það hvað byggðastefna er. Hvaða markmiðum þjónar hún? Hvaða aðferðum á að beita til þess að ná þessum markmiðum?

Mér dettur í hug að nefna eitt dæmi. Venjulega skilgreiningin er sú að það sé hlutverk byggðastefnu að koma í veg fyrir röskun búsetu. Ef maður spyr sjálfan sig hvað það er sem helst hefur stuðlað að framförum í íslensku efnahagstífi, íslensku þjóðlífi undanfarna áratugi, þá staðnæmist maður helst við það að það hefur verið stórkostleg röskun á því búsetumynstri sem ríkjandi var skulum við segja í upphafi þessarar aldar. Rauði þráðurinn í þeirri efnahagsþróun sem orðið hefur á undanförnum árum hefur verið t.d. að mannafla í landbúnaði hefur fækkað stórlega, að fólk hefur skipt um búsetu í takt við breytileg atvinnuskilyrði. Fólk hefur flust búferlum, fólk hefur hætt atvinnuþátttöku í einni atvinnugrein og tekið upp starf í annarri. Og ef maður spyr sjálfan sig: Ef okkur hefði nú tekist að koma í veg fyrir alla þessa röskun sem aðrir kalla framfarir, hver væru lífskjör þjóðarinnar þá í dag, hvar værum við stödd? Ef stjórnvöldum þess tíma hefði t.d. tekist að koma í veg fyrir búferlaflutninga fólks frá sveitum til sjávarsíðu, hver væru lífskjör þjóðarinnar ef við byggjum enn í sjálfsþurftarlandbúnaðarsamfélagi? Þannig að það er ekkert augljóst mál að það sé ákaflega mikilvægt þjóðhagslegt, félagslegt markmið að koma í veg fyrir búseturöskun. Það segir sig engan veginn sjálft. Eðlilegasti hlutur í heimi er sá að fólk breyti um búsetu við breytilegar aðstæður, að vaxtargreinar þjóðfélagsins laði til sín fólk, að fólk hætti starfsemi í atvinnugreinum sem náð hafa endimörkum vaxtar. Það er ekkert skynsamlegt við það að binda miklu meiri mannafla við t.d. landbúnaðarstarfsemi heldur en þörf er á. Og það er auðvitað fráleitt að menn geti séð það fyrir hver þróunin verður. Að sjálfsögðu eru þeir sem stunda landbúnað nú miklum mun færri en fyrir nokkrum áratugum síðan og, hægt er að nefna ótal dæmi um að fólki fækkar enn í landbúnaði. Engu að síður hefur framleiðslan aukist og við þurfum ekki meiri mannafla til þess.

Ef við fengjum þessar umr. hugmyndum manna um áætlanagerð fram í tímann sem hlýtur að hafa megináhrif á allt sem við köllum byggðastefnu og áætlanagerð um þjóðfélagið fram í tímann, ef við spyrjum hverjar verði líklegustu breytingarnar í íslensku atvinnulífi, íslensku búsetumynstri fram til aldamótanna 2000, þá kannast menn við svarið: Við gerum ekki ráð fyrir því að hefðbundnar atvinnugreinar skapi í stórum stíl ný atvinnutækifæri. Við gerum ekki ráð fyrir mikilli fjölgun í fiskveiðum jafnvel þótt við gerðum ráð fyrir að aflamagn sem á land er borið aukist mjög verulega, m.ö.o. við gerum ráð fyrir því að framfarir og framleiðniaukning í sjávarútvegi verði með þeim hætti að það þurfi ekki endilega að binda meiri mannafla við sjálfar fiskveiðarnar.

Þannig að það er áreiðanlega gefinn hlutur að ef ekki á að stöðva framfarir í þessu þjóðfélagi þá verður áframhaldandi búseturöskun. Það verða áframhaldandi tilfærslur milli atvinnugreina. Og ef menn með byggðastefnu meina að það eigi að vera hlutverk stjórnvalda að koma í veg fyrir að þessar breytingar verði, að tefja þróun sem er æskileg, þá fer nú kannske að nálgast það að menn geti tekið undir með flm. þessarar till. þegar þeir segja: „Stefnumörkun í byggðamálum er nú í raun og veru engin. Í hugum flestra er byggðastefna í dag nánast samnefnari fyrir aðgerðir sem eru í mótsögn við skynsamlegt þjóðfélagsmarkmið.“

Ég fyrir mína parta lýsi því yfir að ég er alveg sammála því að þetta sé niðurstaðan af þeirri pólitík sem rekin hefur verið á undanförnum árum. Ég held að það sé staðreynd, að það heftir engin byggðastefna verið rekin í þeim skilningi sem flm. leggja í hugtakið og það ætti að renna sterkari stoðum undir þá skoðun að það kunni að verða alvarlegur árekstur milli augljósra æskilegra markmiða í auðlindanýtingu og hins vegar framkvæmdar byggðastefnu sem svo er kölluð í dag.

Afkoma þessarar þjóðar byggir auðvitað fyrst og fremst á því að við nýtum takmarkaðar auðlindir skynsamlega. Við höfum, sérstaklega á árunum eftir 1975–1976, verið að læra okkar lexíu í sjávarútveginum. Með útfærslu landhelginnar sköpuðust breytt skilyrði við nýtingu á þessari meginauðlind okkar. Hafi það verið meginviðfangsefni byggðastefnu á árunum 1971 til dagsins í dag að fjárfesta í sívaxandi mæli í togaraútgerð og jafnframt í fiskvinnslu þá þjónaði það augljóslega þjóðhagslegum markmiðum framan af. Auðvitað deilir enginn um það, að það þurfti að endurnýja togaraflotann á sínum tíma. En það er hins vegar ekkert sjálfvirkt við það alla tíð. Fyrir mörgum árum var svo komið að sérfróðir menn um sjávarútveg, sérfræðingar okkar í fiskirannsóknum og hafrannsóknum tóku að vara við því að við værum komnir yfir skynsamleg mörk í þessari fjárfestingu. Nú greinir yfirleitt fæsta á um það að það voru hrikaleg mistök að halda áfram stöðugt að fjölga og stækka skipastólinn, auka afkastagetu skipastólsins langt umfram afkastagetu fiskistofnanna. Ef þessi offjárfesting sem því miður varð í sjávarútvegi var fyrst og fremst rétttætt með vísan til byggðastefnu, að það hafi verið nauðsynlegar aðgerðir í nafni byggðastefnu að fjölga togurum umfram það sem skynsamlegt var með þeim afleiðingum að nú er talað um það í alvöru að þessi offjárfesting hvíli á sjávarútveginum eins og mara. Með þeim afleiðingum að sjávarútvegurinn og fyrirtæki í sjávaraútvegi hafa hlaðið upp skuldum sem þau fá ekki undir risið, með þeim afleiðingum að framleiðslukostnaður okkar í sjávarútvegi hefur aukist langt umfram skynsamleg mörk, með þeim afleiðingum að sjávarútvegurinn sem slíkur hefur verið gerður síður samkeppnisfær en ella með þeim afleiðingum að við höfum verið að auka útgerðarkostnað, auka framleiðslukostnað, auka fjármagns- og vaxtakostnað langt umfram öll skynsamleg mörk. Þá er spurningin þessi: Var þetta raunverulega í þágu byggðastefnu, var þetta skynsamleg byggðastefna? Ætli margir menn séu ekki farnir að spyrja sig að því víða úti um landið? Mér dettur í hug t.d. að nefna stað eins og Patreksfjörð, hvort þar hafi verið skynsamlega að málum staðið. Ég vil m.ö.o. nota hér tækifærið til að benda á það að vel getur komið upp augljós og alvarlegur árekstur milli skynsamlegra markmiða í auðlindanýtingu, sem er grundvallaratriði í allri efnahagsstjórnun á Ístandi, og hins vegar pólitískra skammtímahagsmuna og stundarhagsmuna sem hafa verið ákaflega virkir í því stjórnkerfi fjárfestingar sem oftast nær er rétttætt, að mínu mati ranglega, með vísan til byggðastefnu. Gagnrýnin á núverandi stjórnkerfi, tengt nafni Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem fram hefur verið sett á undanförnum árum, hún er margvísleg. Í fyrsta lagi er á það að benda að kommissarakerfið sjálft hefur verið harðlega gagnrýnt, þ.e. að stjórnmálamönnum, alþm. hefur verið fengið það hlutverk í kommissarakerfinu að vera helstu ábyrgðarmenn útdeilingar á fjármagni. Þetta eitt út af fyrir sig er gagnrýnisvert og óskynsamlegt.

Það hefur verið gagnrýnt t.d. að Sjálfstfl. hefur hvað eftir annað lýst sig andvígan þessu kerfi. Það gerði hann svo sannarlega í stjórnarandstöðu á tímabilinu 1971–1974. En efndirnar voru heldur betur í skötulíki því að hann var ekki fyrr tekinn við stjórn landsins 1974 en hann hélt kerfinu áfram. Og í stað réttmætrar gagnrýni á kommissarakerfið gerði hann helmingaskipti við Framsókn um það að skipa tvo hv. aíþm. úr einu og sama kjördæminu sem yfirkommissara þessa kerfis. Þetta er þeim mun óeðlilegra sem Framkvæmdastofnun þróaðist í þá átt að vera ekki aðeins stofnun með takmarkað verkefni sem var gerð raunverulegra byggðaáætlana og þá veiting niðurgreiddra lána eða styrkja eða framlaga til þess að fylgja eftir slíkum fyrirframgerðum áætlunum. Í raun og veru hefur þessi stofnun breyst í það að vera viðbótarlánasjóður stofnlánasjóða atvinnuveganna. Og í þeim lánveitingum hefur ekkert tillit verið tekið til neinnar langtímaáætlanagerðar í byggðamálum. Hér hefur einfaldlega það gerst að þessi sjóður hefur verið notaður, það hefur verið pólitískt hagkvæmt, til viðbótarlána til fyrirtækja út um land. Og ef maður spyr sjálfan sig: Er það eftir einhverri sérstakri byggðaáætlun? — þá fæ ég ekki séð að svo sé. Almenn lánastarfsemi til fyrirtækja í sjávarútvegi á ekki að heyra undir neina sérstaka stofnun í byggðamálum. Ef um er að ræða góð og skynsamleg fjárfestingartækifæri í sjávarútvegi þá er ekkert eðlilegra en að þeir lánasjóðir sem hafa það hlutverk að lána til fyrirtækja, væntanlega venjuleg lán á viðskiptagrundvelli, lán sem eigi að endurgreiða að fullu, lán sem eiga að skila arði þótt geti verið áhættusöm, þá þarf engar sérstakar félagslegar ráðstafanir til þess að stýra því fjármagni þangað. Þegar vel gengur í sjávarútvegi þá eru þar uppgrip. Þá getur verið skynsamlegt að fjárfesta í sjávarútvegi úf frá heildarsjónarmiðum og þá þarf engan sérstakan niðurgreiðslusjóð eða pólitískt kommissaríat til að stunda það. Það er hlutverk annarra aðila í þjóðfélaginu.

Byggðastefnan ætti að snúast um allt aðra hluti. Má ég nefna dæmi. Á sínum tíma var gerð áætlun, ein fyrsta áætlunin í byggðamálum, svokölluð Vestfjarðaáætlun, á sjöunda áratugnum, m.a. framkvæmd með tilstyrk norskra sérfræðinga. Menn hafa hér vísað til reynslu Norðmanna af gerð byggðaáætlana fyrir Norður-Noreg. Niðurstaðan af þeirri úttekt var ekki sú að brottflutningur f6lks frá Vestfjörðum hefði t.d. stafað af atvinnuleysi. Og niðurstaða þeirra var ekki sú að brottflutningur fólks af Vestfjörðum stafaði af áberandi lægri tekjum en í öðrum landsfjórðungum. Þvert á móti komust menn að þeirri niðurstöðu að það væri tvennt sem ylli brottflutningi fólks á löngum tíma frá þessu svæði: Það var annars vegar fábreytni í atvinnulífi, þ.e. einhæfni sjávarútvegsins, og hins vegar vöntun á félagslegri þjónustu, fétagslegri menningarlegri þjónustu sem önnur byggðarlög gátu betur fullnægt. (Gripið fram í: Hvaða skýrsla er þetta sem hv. þm. vitnar í?) Ég er að vitna til skýrslu sem var í framhaldi af gerð Vestfjarðaáætlunar og er eftir norska höfunda, sem voru aðstoðarmenn trúlega Efnahagsstofnunar, ég íullyrði það nú ekki — þegar Vestfjarðaáætlun var gerð. Og ef ég man rétt þá er hún útgefin á árinu 1966. (Gripið fram í: Og hefur hv. þm. aðgang að þessari skýrslu?) Það hafði ég. Og til þess að svara fsp. þm. þá hygg ég að ég hafi fengið þessa skýrslu úr fórum Framkvæmdabanka Íslands. (Gripið fram í: Upplaginu var að mestu brennt.) Var það svo? (Gripið fram í: Já.)

En kjarni málsins er þessi: Það hefur orðið mikil búseturöskun t.d. að því er Vestfirði varðar og það hafa verið á löngu tímabili miklir fólksflutningar frá Vestfjörðum. Ef það er rétt að leiðin til þess að snúa þessari þr6un við, ef það er æskilegt, hafi fyrst og fremst verið sú að skapa aukna fjölbreytni í atvinnulífi á Vestfjörðum, í sjávarútvegsplássunum á Vestfjörðum, hvert er þá framlag byggðastefnunnar til þess? Ef við vildum fara þá leið þá kallar það væntanlega á markvissa uppbyggingu byggðakjarna, forgangsröð opinberra framkvæmda, grunngerðar, eins og það er hér orðað, í þeim byggðarlögum sem gætu boðið íbúum sínum upp á betri möguleika, meiri félagslega þjónustu á öllum sviðum, Læknisþjónustu, skólagöngu, menningarlífs o.s.frv. Eða að jafna aðstöðumun byggðarlaga, sem eru auðvitað mjög misjafnlega fjárhagslega sterk, til þess að skapa forsendur fyrir slíkri þjónustu. Fjárfesting í sjávarútvegi sem slík virðist samkvæmt reynslunni ekki duga til þess að stöðva þennan flótta.

Ég spyr sjálfan mig spurninga eins og þessara: Hvernig vinnur þetta þjóðfélag? Annars vegar byggjum við upp skólakerfi, sem beinir fólki í sívaxandi mæli, gegnum þetta skólakerfi, í einhver störf utan þessara frumframleiðslugreina okkar. Það virðist vera eitt af lögmálum skólakerfisins að það er einhvers konar heitaveita frá frumframleiðsluatvinnugreinunum til ýmissa annarra greina, þjónustugreina o.s.frv. Þetta er byggt upp og þetta er kostað af ríkisvaldinu. Hver er afleiðingin? Afleiðingin er sú að fólk, sem notið hefur þessarar skólagöngu, flyst í sívaxandi mæli frá þeim byggðarlögum, þaðan sem það er skólað, og kemur ekki aftur til þessara byggðarlaga. Hitt atriðið er, ef við viljum setja okkur það markmið að draga úr brottflutningum fólks frá þessum stöðum, þá kattar það fyrst og fremst á fjárfestingu í grunngerð, aðstoð við sveitarfélög, sem eru illa stödd, og félagslega fjárfestingu í almennri þjónustu, sem er náttúrlega eitt af verkefnum ríkisvaldsins. Það er augljóst mál, ef við ræðum byggðastefnu út frá þessum forsendum, þá fæ ég ekki séð að útlánastarfsemi kommissaríatsins í Framkvæmdastofnun Íslands hafi á undanförnum árum starfað samkvæmt neinni fyrirframgerðri viti borinni áætlun um það hvað þeir væru að gera og hvaða markmiðum þeir væru að þjóna. Hitt er og gagnrýnisvert hvernig þessu fé hefur oft verið varið, hvernig pólitískir stundarhagsmunir hafa ráðið því að lagt hefur verið í fjárfestingu, sem ekki skilaði arði, með svo hrikalegum afleiðingum að nú situr hér fjmrh. hæstv. ríkisstj. og segir: „Eina leiðin til þess að losna út úr því öngþveiti sem þessi pólitík hefur leitt yfir okkur er að strika þessar skuldir út.“ Strika þær bara út, afskrifa þær. Og hér er ekki um að ræða nokkra tugi milljóna, ekki bara hundruð milljóna, ekki bara billjarða eins og hæstv. ráðh. komst að orði. Það er um að ræða mörg hundruð, mörg þúsund milljónir, marga milljarða króna samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið hér á þingi, hvað eftir annað.

Herra forseti. Ég viðurkenni það að ég er ekkert allt of bjartsýnn á það að þessi ágæta þáltill., svo langt sem hún nær, fái mikinn framgang hér á þingi. Ég hef vakið athygli á því að það hafa fyrr verið lagðar fram ekki aðeins till. til þál. heldur ítarleg lagafrv. sem ganga mjög í sömu átt. En ég vil að lokum aðeins árétta stuðning minn við till., ekki síst þau atriði sem ég tel meginatriði hennar, sem eru: Að kommissaríatið verði lagt af; að áætlanagerð á sviði byggðamála, sem ég tel að sé ekki hvað síst á vettvangi sveitarstjórnarmála, hún færist með eðlilegum hætti inn í félmrn.; að fjármagn til slíkrar byggðastefnu, ef hún hefur hlotið samþykki hér á Alþingi, verði veitt við fjárlagaafgreiðslu eins og þegar Alþingi ákvarðar sínar áætlanir um vegagerð. Þetta tel ég vera meginatriðin. Og annað meginatriði þessu til viðbótar, tel ég vera fyrst og fremst uppstokkun og breytingu á öllu stjórnkerfi fjárfestingar. Því að reynslan af því er vægast sagt slík að íslenska þjóðfélagið hefur ekki efni á því að halda áfram óbreyttu slíku stjórnkerfi. Þar verða að koma til gersamlega ný vinnubrögð: Sameining helstu fjárfestingarlánasjóða og stjórnun þeirra, ekki út frá pólitískum stundarhagsmunum kommissara, heldur út frá venjulegu mati áhættu, viðskipta og arðsemi.