31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2478 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

148. mál, áhrif nýrrar tækni á íslenska atvinnuvegi

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. vil ég lýsa því yfir að mér finnst engin ástæða til annars en að þær áfangaskýrslur sem nefndin hefur gert ráð fyrir að senda frá sér verði afhentar alþm. og mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því. Í sambandi við skipan nefndarinnar vil ég vekja athygli á því, að það var ekki algerlega á valdi ráðh. í þessu tilviki að hafa áhrif á það að kona yrði skipuð í þennan starfshóp, þar sem aðilar vinnumarkaðarins sáu um að skipa fjóra fulltrúa í hópinn en rn. lagði síðan til formanninn.

Ég mun að sjálfsögðu ræða þetta við starfshópinn og ekki hef ég á móti því að konur komi að þessu verkefni. Þetta er þýðingarmikið mál ekki síður fyrir konur en aðra þegna þjóðfélagsins og ég mun láta skoða það sérstaklega.