31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

146. mál, umhverfismál

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Um það mál sem spurt er um hef ég leitað leiðbeininga hjá forsvarsmönnum heyrnleysingja sjálfra. Ég vil leyfa mér að vísa til orða sem Guðlaug Snorradóttir skólastjóri Heyrnleysingjaskólans hefur tekið saman og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heyrnleysingjar fagna því hversu mikill sá áhugi er nú fyrir málefnum þeirra og vænta þess að allar umræður um þeirra mál verði til góðs þeim til handa. Heyrnleysingjar telja sig þó ekki vera í stakk búna til þess að takast á við það mikla mál að hefja kennslu á táknmáli í grunnskólum og vilja leggja fram skýringar máli sínu til stuðnings.

Táknmáli eða móðurmáli heyrnleysingjans eins og það er kallað í dag hefur tiltölulega lítill gaumur verið gefinn hingað til. Heyrnleysingjarnir hafa notað þetta tjáningarform um aldir til þess að geta talað saman. Þetta merka kerfi hefur þróast sem mál á meðal þeirra og okkur sem heyrum hefur verið þetta framandi með því að við höfum meira litið á þetta sem ófullkomnar bendingar þeirra í milli fremur en kerfisbundið mál sem hefur ákveðna merkingu og boðskipti milli fólks.

Nú síðari ár hafa rannsóknir verið gerðar á Norðurlöndum og í Ameríku á táknmáli heyrnleysingja. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós, svo og opnað augu þeirra sem mest hafa um þessi mál fjallað, að hér er um tungumál að ræða sem hefur sína málfræði og sína uppbyggingu málfræðilega séð hreint eins og annað mál, en að sjálfsögðu er ekki hægt að túlka það beint frekar en annað tungumál. Það verður að taka tillit til þeirrar tungu sem málið er túlkað á eða af hverju sinni.

Ósk heyrnleysingjanna er því nú númer eitt að íslenska táknmálið fái meiri tíma til þess að þróast þeim til handa og vaxa á meðal þeirra áður en hægt verði að hefja markvissa kennslu á því fyrir almenning. Í dag hefur íslenska táknmálið um það bil 3000 orð ef allt er upp talið og er það að sjálfsögðu ekki nema lítið brot af íslensku máli. Heyrnleysingjar telja brýna þörf á að gera verði nákvæma athugun og greiningu á máli þeirra, jafnframt gerðar bækur á táknmáli, en ekki fyrr telja þeir að verði hægt að hefja markvissa kennslu á þeirra máli. Enn fremur álíta þeir einnig vafamál að það nái tilætluðum árangri að táknmál verði tekið til kennslu í grunnskólum landsins.

Fyrir það fyrsta eru ekki til nægilega margir þjálfaðir kennarar til að kenna en þeir verða að vera heyrnarlausir eða heyrnarskertir til þess að málið komi til skila.

Í öðru lagi telja þeir að réttara sé að kynna hvernig beri að umgangast heyrnarlausa og hvernig best sé að haga sér til þess að þeir skilji hinn heyrandi betur og svo hvernig hinum heyrandi beri að reyna að Skilja hinn heyrnarlausa og gera sig skiljanlegan við hann. Hér er um málefni að ræða sem fyrst þyrfti að kynna og hlúa að. Síðan má e.t.v. athuga þær leiðir sem bestar verða til þess að kynna og kenna táknmálið, e.t.v. sem valgrein í skólum, e.t.v. með föstum þætti í sjónvarpi, þá eiga allir sem vilja kost á slíkri kennslu eða jafnvel og ekki síður í ákveðnum hópum þar sem hver og einn ræður því hvað tekið er fyrir, t.d. í námsflokkum hér svo að eitthvað sé nefnt.“

Þetta voru orð skólastjóra Heyrnleysingjaskólans og ég get tekið undir þau. Hér er um fólk að ræða sem gerst má um þennan vanda vita og ég hygg að skynsamlegt sé að haga sér eftir þeim ábendingum sem fram koma í því bréfi sem ég hef lesið, herra forseti.