31.01.1984
Sameinað þing: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

415. mál, símamál í Sandgerði

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef borið fram eftirfarandi fsp.:

„Hvaða úrbætur eru fyrirhugaðar í símamálum Sandgerðinga?“

Tilefni þessarar fsp. er það að á undanförnum árum hafa verið bornar fram við símayfirvöld kvartanir um ástand í símamálum í Sandgerði án þess að nokkrar úrbætur hafi fengist. Og þar sem um þverbak hefur keyrt að undanförnu tók hreppsnefndin upp það mál og ályktaði eftirfarandi:

„Hreppsnefnd Miðneshrepps mótmælir harðlega því ástandi sem er í símamálum hér í Sandgerði og vekur sérstaka athygli á því öryggisleysi sem er samfara því að ekki næst samband út úr byggðarlaginu svo að klukkustundum skiptir. Þá er bent á að ekki næst samband innan byggðarlagsins og skiptir álagstími þar ekki máli.“

Til frekari skýringar er rétt að benda á að sjúkrabíll, læknir og lögregla eru staðsett í Keflavík og þegar ekki næst símasamband þangað þarf ekki að orðlengja hver alvara er á ferðum. Hvað varðar slökkviliðið, þá er það staðsett í Sandgerði, en útkallskerfi þess er stjórnað frá lögreglustöðinni í Keflavík og þar sem það er jafnalgengt að ekki náist símasamband úr Keflavík til Sandgerðis liggur í augum uppi að mál þetta er alvarlegt. Þá má benda á það sérstaklega að þegar óveður gekk yfir 4. jan. s.l. og stórtjón varð í höfninni í Sandgerði, þá var síminn óvirkur og gerist það alltaf þegar helst þarf á honum að halda sem öryggistæki. Þá kemur þráfaldlega fyrir að um helgar verði símar í Sandgerði óvirkir, þannig að ef hringt er t.d. úr Reykjavík í númer í sandgerði, þá eru þessir símar á tali langtímum saman þó svo að þeir séu ekki í notkun.

Vegna þessa lélega símakerfis er enginn vafi á því að símanotendur í Sandgerði greiði mikinn aukakostnað þar sem það kemur mjög oft fyrir að samband slitnar í samtali og hringja verður aftur. Kveður svo rammt að þessu að með ólíkindum er.

Þá er rétt að geta þess að mjög oft fá símanotendur skakkt númer og veldur það að sjálfsögðu ómældum aukakostnaði. Þetta ástand hefur valdið mikilli ólgu meðal símnotenda í Sandgerði og hafa þeir sent póst- og símamálastjóra umkvartanir nokkrum sinnum. Nú hafa 186 símanotendur undirskrifað mótmæli og óskir um úrbætur, en þrátt fyrir það að þetta erindi hafi verið sent 9. jan. hefur þeim enn í dag ekki borist svar við því hvað fyrirhugað er að gera.

Ég vænti þess að hæstv. samgrh. svari því hvort fyrirhugað er að úrbætur eigi sér stað nú á næstunni.