31.01.1984
Sameinað þing: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hæstv. samgrh. fyrir þessa ræðu sem hann var að flytja, ekki síst fyrir það hvað mikil bjartsýni kom fram hjá honum og áhugi fyrir að koma vegum okkar í betra horf þó að syrti nú í álinn í sambandi við okkar möguleika um allar framkvæmdir.

Það er aðeins tvennt sem ég ætla aðeins að minnast á. Ég skildi hann þannig að þrátt fyrir að stefna hins opinbera sé sú að bjóða yfirleitt út framkvæmdir væri hann með þá skoðun sem margir okkar eru með að þarna þurfi líka að líta til þess að lítil atvinna er víða fyrir þá sem eiga vélar og bifreiðar á hinum ýmsu stöðum í landinu. Þess vegna eigi þetta ekki að vera stefnan eingöngu a.m.k. í sambandi við þessar framkvæmdir. Ég er mjög ánægður ef ég hef skilið ráðh. rétt að hann sé með þessa skoðun, að þetta þurfi að skoða mjög vel ekki síst þegar atvinnuástandið er eins og það er víða nú.

Í öðru lagi talaði hann undir lok ræðu sinnar um ýmsar framkvæmdir sem vissulega þarf að huga að sem fyrst og framkvæma þegar möguleikar eru á. En ég vil þó undirstrika það að Ó-vegirnir sitji fyrir. Það má ekki koma fyrir að við slökum þar nokkuð á vegna þess að um alla þessa vegi er stórhætta á ferðum. Við höfum séð það t.d. í sambandi við alla þessa vegi að það er bara lán að ekki hafa orðið meiri slys á þessum vegum en orðið hefur. Meira að segja fór það nú þannig í Ólafsfjarðarmúla að þar var mikið grjóthrun í besta mánuði ársins sem venjulega er, þ.e. í júlímánuði s.l. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðh. að samkomulag var um röðun þessara framkvæmda og ekki dettur mér í hug að hrófla við því. Hins vegar get ég ekki annað en undirstrikað það sérstaklega að hættulegustu vegirnir sitji fyrir og þrátt fyrir það að þeir séu á langtímaáætlun verði hugað að því að flýta þeim eins og hægt er og láta þá sitja fyrir öllu öðru í framkvæmdum á næstu árum.