31.01.1984
Sameinað þing: 41. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

162. mál, vegáætlun 1983--1986

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Stefán Valgeirsson, þakka hæstv. samgrh. fyrir þá mjög ítarlegu og löngu skýrslu sem hann flutti þingheimi um vegamál. Satt að segja er skaði að það skuli ekki fleiri hv. þm. hafa gefið sér tíma og tækifæri til að vera hér í salnum og hlýða á ræðu hans.

Það er vissulega ánægjulegt að ekki skuli verða samdráttur í nýframkvæmdum og auka skuli eiga nokkuð lagningu bundins slitlags. Ég hygg þó að ef vilji væri fyrir hendi á hinum æðstu stöðum hefði mátt gera þarna nokkuð betur, því óumdeilt er að þetta er einhver arðbærasta fjárfesting sem við getum lagt í og gerir í rauninni miklu meira í að tengja saman byggðirnar og breyta lífi fólksins í landinu en reikningslegar tölur segja til um. Ég mun koma svolítið nánar að þessu hér á eftir.

Hæstv. ráðh. nefndi ýmis verkefni sem fram undan eru á næstu árum og talaði um möguleikann á að taka erlend lán til slíkra framkvæmda. Þó að ég og minn flokkur höfum ekki verið talsmenn þess að auka erlendar skuldir er eitt víst, að fáar framkvæmdir gefa okkur meiri arð en skynsamlegar framkvæmdir í vegamálum. Við þau verkefni sem hæstv. ráðh. nefndi sérstaklega vildi ég bæta einum eða tveimur.

Ég held að meðal þess sem ætti að athuga væri ekki aðeins brúargerð yfir Gilsfjörð, heldur yfir Álftafjörð líka. Þar eru áreiðanlega mjög góðar aðstæður til brúargerðar og styttir veg mjög mikið.

Ég held að þetta ætti að kanna, að ekki sé nú minnst á uppbyggingu vegarins vestur Mýrar, sem að vísu er á langtímaáætlun, en er verkefni sem getur varla beðið miklu lengur.

Í þriðja lagi vildi ég svo nefna athugun á brúargerð yfir Hvalfjörð. Það er nokkuð langt síðan fram hefur farið athugun á henni. Ég hygg að allar forsendur og breytingar í byggingartækni geri það að verkum að slík brúargerð kunni að reynast mjög fjárhagslega hagkvæm og ég hvet til þess að það mál verði kannað að nýju: Ég held að það sé fyllilega tímabært. Það mundi gerbreyta öllum viðhorfum í þessum landshluta ef það yrði t.d. ekki nema um 40 mínútna akstur milli Reykjavíkur og Akraness og kannske rétt rúmur klukkutími í Borgarnes eða varla það. Það mundi gerbreyta öllum sjónarmiðum á þessu landshorni. Nóg um það.

En ástæðan til þess að ég sagði áðan að e.t.v. mætti gera betur í nýframkvæmdum er sú, að þar sem talað er um fjáröflun til vegamála 1983–86, — þar er gert ráð fyrir tveimur breytingum að því er mörkuðu tekjustofnana varðar, gildandi tekjustofna, frá og með árinu 1984, — segir með leyfi forseta:

„Sú fyrri er, að ríkisstj. hefur ákveðið að 50% af heildartekjum ríkissjóðs af bensínsölu skuli að lágmarki renna til vegamála. Til viðbótar bensíngjaldinu koma því aðrar tekjur af bensíni uns 50% markinu er náð. Hin breytingin er sú, að gúmmígjald er fellt niður.“ Gúmmígjaldið átti auðvitað að vera búið að fella niður fyrir langalöngu. Það var tekjustofn sem skipti engu máli fyrir þessar framkvæmdir.

En þá kem ég að hinu. 50% af tekjum af bensíni skulu fara til vegagerðar. Nú veit ég að margir hv. þm. muna eftir umr. sem urðu hér á Alþingi þegar var verið að ræða fjáröflun til vegagerðar og átti að leggja á sérstakt gjald, svokallað krónugjald, sem aldrei varð úr en Alþfl. var raunar tilbúinn til að styðja.

Ég hygg að margir hv. þm. muni þá eftir hinni hörðu gagnrýni sjálfstæðismanna. Ég minnist ræðna, án þess að ég fari hér að vitna í þær, sem hv. þm. Lárus Jónsson og hæstv. núv. ráðh. Matthías Á. Mathiesen fluttu um að allt of mikið af skattheimtu ríkisins af bensíni færi beint í eyðsluhít ríkissjóðs en ekki til vegamála. Hefði nú hæstv. samgrh. hegðað sér í samræmi við stefnu síns flokks hefði hann auðvitað beitt sér fyrir því að enn þá hærra hlutfall af bensíngjaldinu rynni til vegamála en ekki í eyðsluhít ríkissjóðs. Sú breyting sem hér er gerð er að vísu í rétta átt, en gengur alltof skammt. Hér hefði sannarlega mátt taka meira af tekjum ríkisins af bensíni til framkvæmda í vegamátum, arðbærustu framkvæmda sem völ er á.

Nú hefur þessi ríkisstj. gengið afar rösklega fram í því að hækka bensínverð. Sennilega hefur hún gengið rösklegar fram í því en nokkur önnur ríkisstjórn fyrr og seinna. Þegar ríkisstj. tók við kostaði bensínið 16,20 kr. og síðan gengu hækkanirnar hver af annarri upp í tæpar 23 kr. þó að það væri að vísu lítillega lækkað nú fyrir stuttu. En á sama tíma hefur bensínverð víðast verið að lækka erlendis og á sama tíma er spáð frekari lækkun á olíuverði í löndunum í kringum okkur. Þessi ríkisstj. hefur því ekki sparað skattheimtuna gagnvart almenningi á bensíninu og Sjálfstfl. í þessari ríkisstj. hefur ekki verið trúr þeirri stefnu sinni, sem var í fyrra a.m.k., að láta meira af þessu fjármagni renna til framkvæmda í vegamálum.

Mig langar þá að lokum að víkja að fáeinum öðrum þáttum í ræðu hæstv. ráðh. Það er áreiðanlega rétt þróun að bjóða verk út í auknum mæli, sérstaklega stærri verk og raunar getur það einnig átt við um smærri verk líka. Það sýndi sig best við framkvæmdirnar í Ólafsvíkurenni hversu hagkvæmt þar var að bjóða út og vinna með stórvirkustu tækjum sem völ er á. Þetta gildir áreiðanlega um margar fleiri stórar framkvæmdir. En hitt er svo annað mál, að heima í héruðum hafa ýmsir sem komið hafa sér upp tækjum, vörubílum, ámoksturstækjum eða gröfum, nokkrar áhyggjur af þeirri þróun að stóru verktakafyrirtækin kunni í sívaxandi mæli að seilast til áhrifa og undirbjóða hvert verkið á fætur öðru þannig að verkefnin verði engin eftir fyrir heimamenn. Ég skil þessar áhyggjur ákaflega vel og vissulega gæti þetta leitt til þess að slík tæki hyrfu úr dreifbýlinu til stóru verktakafyrirtækjanna eingöngu, sem flest eru staðsett hér á suðvesturhorninu. Ég held þó og vona að þessi ótti manna sé ástæðulaus, því að ég er sammála því, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að yfirleitt geta heimamenn boðið betur þegar um er að ræða smærri verk á þeirra heimaslóð, þar sem þeirra vélakostur kemur að gagni, en auðvitað eru þeir ekki samkeppnisfærir um hin stærri verkin. Ég held því að þessi ótti sé ástæðulaus, en engu að síður er þó brýn ástæða til að huga að þessu sjónarmiði því að ég held að það væri mjög alvarleg þróun ef það yrði þannig að svona vinnutæki og vinnuvélar væru hvergi til nema hjá hinum stærstu verktakafyrirtækjum.

Annað var það svo að lokum sem var athyglisvert, fannst mér, og kom fram í ræðu hæstv. ráðh. Það var það er hann greindi frá því að viðlegukostnaður starfsmanna við vegagerð væri orðinn jafnhár launakostnaðinum, ég held vegna nýrra reglna sem settar hafa verið. Ég held að þarna sé ástæða til að íhuga sinn gang. Nú skal ekki úr því dregið að vel sé búið og sómasamlega að mönnum sem eru við vinnu við slíkar aðstæður sem vegagerð er utan þéttbýlis. Sannarlega skal ekki dregið úr því að þeir hafi góðan aðbúnað í hvívetna og enginn talar um að hverfa aftur til þess tíma sem var fyrir 25 árum, þegar menn sváfu við hálmdýnur úr samanslegnum rúmstæðum úr gömlu mótatimbri í tjöldum með lélegum tréflekum í botni. Það er enginn að tala um slíkt og sá tími kemur aldrei aftur sem betur fer. En hóf skal hafa á hverjum hlut. Hlýtur ekki að vera ástæða til að staldra við þegar starfsmennirnir sjálfir sjá ástæðu til að senda undirskriftalista til yfirmanna sinna hjá Vegagerðinni og óska eftir því og koma þeim skoðunum sínum á framfæri að öll frekari aukning og breyting á þessu sviði væri hrein sóun og ekki eftir þeirra óskum? Ég held að þarna sé ástæða — ég er ekki að segja til að draga úr, ég skal ekki segja það, en a.m.k. til að íhuga hvort þessi mál séu ekki í ágætu horfi eins og er.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.