01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Ég vil nota það fyrsta tækifæri sem mér gefst í þessari hv. þingdeild til að taka fram að ég er alfarið andvígur byggingu flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli á þeim forsendum og með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Á þskj. 195 í Sþ. er í till. til þál. gerð tillaga um aðra og skynsamlegri málsmeðferð að mínum dómi, þ.e. að hanna minni og hagkvæmari byggingu sem hægt sé að reisa í áföngum og taka í notkun eftir því sem þörf krefur smátt og smátt og jafnframt að fella slíka byggingu inn í eðlilega forgangsröð framkvæmda í íslenskum flugmálum.

Ég tek undir álit minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. og vil bæta því við sem ég hef hér gert. Það er út af fyrir sig ástæða til að ræða nokkuð sérstaklega um þátt annars stjórnarflokksins í þessu merkilega máli, þ.e. Framsfl. Hann er ákaflega athyglisverður. Í fyrsta lagi er athyglisverð sú byggðastefna þess flokks sem birtist mönnum í þessari forgangsröð í flugmálum Íslendinga þar sem 88 eða 80 millj. kr. lántökur á þessu ári ganga til þessarar fyrirhuguðu flugstöðvarbyggingar á sama tíma og allar fjárveitingar til framkvæmda í flugmálum innanlands eru um 50 millj. kr.

Skv. því frv. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að 616 millj. kr. renni til þessara framkvæmda á næstu árum. Ef það verður í líkum hlutföllum og er í ár mun þetta eina mannvirki taka mikinn meiri hluta af öllu framkvæmdafé til flugmála á Íslandi á næstu árum. Ég tel það í engu samhengi við þær aðstæður sem við er að búa víða úti á landi og hér í Reykjavík reyndar líka í flugmálunum, það ástand sem ríkir í öryggisaðstæðum á flugvöllum og þann skort á tækjakosti sem við er að búa víðast hvar á landinu í þessum efnum.

Sú landsölustefna sem birtist í þessu frv., þessu samkrulli Bandaríkjamanna og Íslendinga í þessu íslenska samgöngumannvirki sem svo ætti að vera, er allmerkileg. Hún er sérstaklega merkileg þegar hún er borin fram og borin á brjósti framsóknarmanna sem lengst af hafa viljað standa í báða fætur sitt hvoru megin víglínunnar a.m.k. í þessum efnum. Það verður mjög fróðlegt að vita hvort allir hv. þm. þess flokks eru sáttir við þá málsmeðferð sem hér er gerð tillaga um. Það þættu mér nokkur tíðindi og þó kannske ekki í ljósi ummæla ýmissa framámanna þess flokks á hv. Alþingi undanfarið. Ég minni á ummæli formanns Framsfl. og núv. hæstv. forsrh. þegar rætt var um uppsetningu ratsjárstöðva fyrr á þessu þingi. Þá taldi hann það mál vel koma til greina ef við gætum eitthvað grætt á því athæfi.

Svipuð voru ummæli varaformanns flokksins og hæstv. núv. sjútvrh. þegar hann vildi fara út í einhvern samrekstur með Bandaríkjamönnum á björgunarþyrlum. Það er mín skoðun að við höfum efni á því að byggja okkar samgöngumannvirki sjálfir og við eigum að gera það ef við ættum á annað borð að teljast sjálfstæð þjóð.

Sé hins vegar haldið inn á þessa braut sem hér er gerð tillaga um í ríkara mæli má spyrja sem svo: Hvar á þá að draga mörkin? Og ef við höfum ekki efni á að byggja okkar eigin flugstöðvar höfum við þá efni á að byggja flugvellina? Ef við höfum ekki efni á því að reka okkar eigin björgunarþyrlur höfum við þá efni á að byggja sjúkrahúsin til að taka við því fólki sem þyrlurnar flytja að? o.s.frv.

Því er eðlilegt að spurt sé þegar þetta mál er hér til umr.: Hvar vill hæstv. núv. ríkisstj. draga mörkin í þessum efnum? Er þetta fyrirboði annars meira af svipuðu tagi? Ástæða væri til að spyrja framsóknarmenn sérstaklega sem hluta af þessari ríkisstj. hvar þeir vilja draga mörkin. Er það einhvers staðar annars staðar? Eða er það kannske svo að þeir séu nú sokknir í landsölustefnuna alveg upp í háls eða er kannske farið að renna inn í eyrun?