01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti hér um margt athyglisverða ræðu. Hann undirstrikaði það að samstarf við aðra væri ávallt á þann veg að þá skorti á um sjálfstæði þess sem stæði að samstarfinu. Þetta minnti mig þó nokkuð á það að einu sinni voru fóstbræður tveir á Vestfjörðum, Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld. Þau tíðindi gerðust að þeir voru að hvannatöku og voru þar framan í björgum. Þeir höfðu verið við þó nokkuð af deginum og Þormóður hafði lagt sig. Þegar hann vaknaði aftur undraði hann að Þorgeir fóstbróðir hans skyldi ekki vera þar til staðar og fór að kalla til að ná sambandi við hann. Þorgeir svaraði heldur seint og illa. Hinn spurði hvort hann væri ekki búinn að taka nóg af hvönn og þá kom þetta fræga svar þess sjálfstæðasta manns í anda hv. 4. þm. Norðurl. e. sem um getur. Hann kvað þá ætla að nóg væri upp tekið ef sú væri laus er hann héldi í núna. Þá hékk hann á einni hvannarótinni og gat ekki komist úr bjarginu og þótti sér slík minnkun að leita til Þormóðar að hann vildi heldur láta þar lífið en að biðjast aðstoðar.

Nú sýnist mér sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sé ekki líklegur til þess að lenda í sjávarháska eða neinu slíku en hann gæti átt það til að flækjast upp á fjöll á eftir rjúpu. Væri því fróðlegt að vita hvort honum þætti sér slík minnkun af ef Bandaríkjamenn kæmu nú á þyrlu og björguðu honum að hann vildi heldur láta þar líf sitt en að þiggja slíka aðstoð. Ég tel að það gæti firrt kostnaði ef þetta lægi fyrir. Fleira hef ég ekki um þetta mál að segja að sinni.