01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Deilur um hvort reisa skuli þessa flugstöð, hvernig skipa skuli kostnaði og hvenær hafa staðið lengi á þingi. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni þann ágreining, enda er hér verið að leita eftir heimild til lántöku vegna þessara byggingarframkvæmda en ekki verið að leita heimildar fyrir framkvæmdunum sjálfum.

Það liggur fyrir, bæði að því er sjálfan mig varðar og minn flokk, að við höfum verið fylgjandi því markmiði að greina í milli þeirrar starfsemi sem fram fer að öryggismálum á Keflavíkurflugvelli og almennrar flugþjónustu og samgöngumála. Að svo miklu leyti sem bygging nýrrar flugstöðvar er nauðsynleg til þess höfum við verið fylgjandi því og um það er m.a.s. ekki ágreiningur t.d. við Alþb. eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar.

Úr því sem komið er tjóar ekki að setja á langar tölur um stærð þessa mannvirkis. Það er athyglisvert að heyra að ágreiningur er um það innan ríkisstj. hvernig þessi bygging skuli fjármögnuð. Forsrh. lýsir enn þeirri skoðun sinni að hann telji að samningsaðili okkar um varnarmál eigi að kosta þessa byggingu að öllu leyti. En það sjónarmið hefur greinilega orðið undir þrátt fyrir þau rök hans líka að ef Íslendingar byggðu minni flugstöð, en eingöngu á sinn eigin kostnað, telur hann hana mundu verða okkur sem slíkum dýrari framkvæmd en hér er ráð fyrir gert.

En þá vil ég koma að meginatriði þess máls sem ég vildi bera upp. Þetta er nefnilega frv. til l. um heimild til fjmrh. til erlendrar lántöku. Hér er um að ræða dýra og mikla byggingarframkvæmd, mikið mannvirki, sem kostar allt í allt 42 millj. dollara. Og hér er um að ræða heimild til að taka erlent lán að upphæð 616 millj. kr. á einum fjórum, fimm árum. Gert er ráð fyrir að sú upphæð verði á þessu ári um 100 millj. kr. Það er ekkert sjálfgefið við það, þótt menn séu fylgjandi þessu máli, að kostnaðarhlutdeild Íslendinga skuli vera algjörlega fjármögnuð með erlendum lánum. Það er engan veginn sjálfgefið. Nú þekkjum við margendurteknar yfirlýsingar stjórnmálaflokkanna um markmið þeirra í efnahagsmálum, þar sem aðatatriðin hafa verið skilgreind þau að snúa frá þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið að undanförnu, að leysa vandamál eftir hendinni og nærri því takmörkunar- og gagnrýnilaust með erlendum lánum, að stöðva erlendar lántökur, binda þær stranglega við arðvænlegar framkvæmdir og gæta þess vendilega að slíkar lántökur fari ekki yfir tiltekinn hundraðshluta af þjóðarframleiðslu. Miðað við þessar forsendur væri æskilegt að fá miklu nánari upplýsingar frá hæstv. ríkisstj. og fjmrh. um þetta mál. Ég vil þess vegna leyfa mér að beina nokkrum spurningum til hans og vona að þegar mál er jafnvel undirbúið og þetta vefjist ekki fyrir honum að svara.

Fyrsta spurningin væri: Hver er áætluð hin erlenda kostnaðarhlutdeild við byggingu þessa mannvirkis í heild eða hver er skiptingin milli kostnaðarhlutdeildar í ísl. kr. og erlendum gjaldeyri við framkvæmdina? Ég spyr vegna þess að það var áður fyrr beitt þeirri gömlu þumalfingursreglu að taka ekki erlend lán fyrir þeim hluta meiri háttar framkvæmda sem byggist á innlendum kostnaði.

Nú erum við að ræða, eins og ég sagði hér áðan, meiri háttar mannvirki. Helstu kostnaðarliðir þess eru væntanlega byggingarefnin sjálf, mikil og dýr vélanotkun, tækjanotkun og launakostnaður verktaka sem að þessari framkvæmd vinna. Hefur fjmrh. upplýsingar um hvernig þessi kostnaður skiptist? Hvaða skýringu hefur fjmrh. á því að ríkisstj. ákveður, miðað við ríkjandi aðstæður og yfirlýst markmið sín í efnahagsmálum, að fjármagna sinn hluta af þessum framkvæmdum eingöngu með erlendum lánum? Við hvaða rök styðst það?

Það sakar ekki að lokum að spyrja örlítið meira um framhaldið. Hér er um að ræða mannvirki í þjónustu ferða- og samgönguiðnaðar. Við höfum talað um að nauðsynlegt sé að leggja mat á arðsemi slíkra framkvæmda. Hefur eitthvað verið til þess hugsað fram í tímann, þegar kemur að því að taka þetta mannvirki í notkun og reka það, hversu arðvænlegt það kann að verða og hver verður hlutur helstu fyrirtækja í ferðamannaiðnaði og samgönguþjónustu, eins og flugfélaga, ferðaþjónustu, fríhafnar, við að bera uppi í rekstrinum kostnað við það? Er þessum aðilum jafnvel ætlað að taka, þegar fram í sækir, nokkurn þátt í byggingarkostnaðinum sjálfum?