01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2515 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það rættist úr í sambandi við Framsfl. Það birtust hér tveir talsmenn hans í ræðustól eftir að ég hafði mælt nokkur orð til þeirra. Og það var nokkuð lærdómsríkt að hlýða á málflutninginn. Þar fór fyrir hæstv. forsrh., formaður flokksins, og var allur í hægri beygjunni. Hér áður fyrr var venjan að það væri vinstri — hægri og skipt nokkuð þétt, en nú er þar allt á sveig til hægri og inn í þá sveigju renndi sér hv. 6. þm. Norðurl. e. þegar hann fylgdi á eftir formanni sínum.

Helsta réttlæting hans fyrir því að ljá þessu máli lið er sú að fela herstöðvarhreiðrið á Suðurnesjum, að þessi flugstöð eigi að koma í veg fyrir að þeir sem til landsins koma og út úr landinu fara um Keflavíkurflugvöll verði ekki varir við herstöðina í þeim mæli sem nú er. Það er misskilningur hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að við Alþb.-menn leggjum eitthvert meginkapp á að aðgreina milli umsvifa hersins og þjóðlífs. Okkar stefna er að þessi her fari úr landinu og það sem fyrst og það verði þurrkaður burt sá blettur á íslensku þjóðlífi sem er herstöðin á Miðnesheiði. Við erum því ekki sammála þeim framsóknarmönnum og þeirri röksemdafærslu sem nægir hv. 6. þm. Norðurl. e. til að vera fylgjandi þessu dæmalausa máli.

En það eru ekki allir, hygg ég, þm. Framsfl., jafnvel ekki allir þeir sem lengi hafa verið þar á skipi með hæstv. núv. forsrh., alveg sama sinnis og hann og þeir ungu lærisveinar sem renna sér í hægri beygjuna á eftir honum. Ég held ég muni það rétt að við afgreiðslu fjárlaga bar það við að greidd voru atkvæði sem tengdust þessu máli, lántöku vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Ég held að það hafi komið fram við nafnakall að þeir sem nokkru eldri eru og raunar samþingmenn hv. 6. þm. Norðurl. e. þar í kjördæmi, hv. þm. Stefán Valgeirsson og hv. þm. Ingvar Gíslason, hafi þó séð sóma sinn í að sitja hjá. Þeir eru greinilega ekki orðnir eins þjálfaðir eða láta ekki eins vel að stjórn og þeir sem yngri eru og feta í fótspor núverandi formanns Framsfl. í þessu máli.

Rökstuðningur hæstv. forsrh. var alveg sérstakur og verður fróðlegt að fara í gegnum orðalagið þegar það kemur prentað í þingtíðindum. Honum hafði virst að það væri ansi stór bygging sem þarna ætti að reisa, en við nánari athugun komst hann að þeirri merkilegu niðurstöðu að þó hún yrði smækkuð, og það var ekkert tekið af um það hversu langt yrði farið niður, þá væri niðurstaðan alltaf sú að hún yrði dýrari en sú bygging sem þarna er ákveðið að ráðast í. Þetta er það veganesti sem hann réttir til þingmanna sinna í Framsfl., sem að meirihluta hafa væntanlega skrifað undir þessa röksemdafærslu. Þó hafa einstaka þm. Framsfl. eitthvað í blóðinu sem veldur því að þeir láta ekki jafnvel að þessari nýju hægri línu Framsfl. sem formaðurinn hefur nú lagt og flokkurinn fylgir.

Aðeins þetta, herra forseti, að lokum: Það kom fram í hv. utanrmn. og var upplýst við umræðu í Ed., að þegar mál þetta var þar til umræðu í sumar, rétt áður en hæstv. utanrrh. undirritaði skuldbindandi samkomulag við Bandaríkjastjórn um þessa byggingu, var óskað eftir sundurliðaðri áætlun varðandi þetta mannvirki þar sem hlutur Íslendinga er áætlaður röskar 600 millj. kr. Hæstv. utanrrh. sagðist ekki geta lagt neinar slíkar tölu fram og sagði að ég hygg, að þær lægju ekki fyrir, væru a.m.k. ekki handbærar. Þannig er staðið að undirbúningi máls sem ekki kostar minna en það sem hér um ræðir, að sá sem undirritar fyrir hönd Íslands hefur ekki handbæra sundurliðun á einstökum kostnaðarþáttum. Það er ekki von að vel fari þegar þannig er staðið að verki og menn eru ekki sómakærari en þetta þegar verið er að fjalla um skuldbindingar af því tagi sem hér um ræðir.