01.02.1984
Neðri deild: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hér hljóðs er nokkur kafli í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. En áður en að því kemur vil ég fara örfáum orðum um það sem hér hefur fram komið.

Ég sé ekki betur en almennt sé þingheimur sammála um það að byggja skuli flugstöð. Menn greinir á um stærð hennar og menn greinir á um kostnaðarþátttökuhlutfall í byggingunni. Ef við byrjum á kostnaðarskiptingunni þá virðast vera uppi þrenns konar sjónarmið varðandi þann þátt.

Í fyrsta lagi er það sem hér liggur fyrir í frv. um þau kostnaðarhlutföll sem þar er gert ráð fyrir. Í öðru lagi að sjónarmið þeirra Alþb.-manna sumra hverra að Íslendingar skuli standa að því einir og kosta það að öllu leyti. Að vísu virka þeir ekki allir mjög sannfærandi, þeir Alþb.-þingmenn sem hafa talað í þeim dúr hér. Í þriðja lagi er svo það sjónarmið sem kom fram hjá hæstv. forsrh. hér áðan. Hann taldi að Bandaríkjamenn ættu að kosta þetta einir. Því sjónarmiði er ég mjög hlynntur. Ég er mjög hlynntur því að Bandaríkjamenn kosti þessa byggingu einir. Og raunar meira. Ég er hlynntur því að þeir taki meiri þátt í kostnaði við uppbyggingu, því ég er þeirrar skoðunar að hið bandaríska herlið sé ekki hér fyrst og fremst okkar vegna. Það er ekki hér fyrst og fremst í okkar þágu. Það er fyrst og fremst í þágu Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins. Og ef að menn eru á þeirri skoðun, þá á auðvitað að láta þá borga fyrir það sem þeir fá hér. Af hverju á að skattleggja íslenska borgara, íslenska skattþegna til þess að standa undir verulegum kostnaði vegna hers sem hér dvelst, hvort sem það er bandarískur her eða NATO-her? Ég held að það sé nóg skattaíþynging á herðum almennings þó ekki sé verið að leggja á hann aukaskatt vegna þessa, sem er meira og minna fyrir aðra en okkur. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þeir ættu að byggja þetta einir og standa undir því einir.

Ég tek að sjálfsögðu undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og fleirum, að auðvitað vantar peninga. Það vantar aukið fjármagn í framkvæmdir flugvalla og flugstöðvarbygginga víðs vegar um landið og það vantar stóraukið fjármagn í öryggisþjónustu alla á flugvöllum. Það eru því næg verkefni til að nýta þá peninga sem þarna er um að ræða að Íslendingar taki að láni til þessarar flugstöðvarbyggingar. Það eru næg verkefni til að nýta þá til annarra hluta, sumir segja nauðsynlegri, aðrir jafnnauðsynlegra. Ég sé þess vegna ekkert því til fyrirstöðu. Það er verst að hæstv. forsrh. er ekki hér inni. Ég vildi gjarnan beina því til hans, og trúi ekki öðru en hann geti haft þau ítök sannfæringu sinni samkvæmt, að beita sér fyrir því að þarna yrði breyting á og að Bandaríkjamenn borguðu þessa flugstöðvarbyggingu einir án þess að við stæðum þarna undir kostnaði að einu eða neinu leyti.

Um stærðarhlutföll í þessari byggingu ætla ég ekki að ræða. Ég skal ekkert um það segja hvort hún kann að reynast of stór. Tvo tíma notuð á sólarhring, sagði einhver hv. þm. hér áðan. Líklega yrði minni flugstöð notuð einhvern álíka tíma, kannske aðeins meiri, það má endalaust deila um hæfilega stærð á svona framkvæmd.

Að síðustu vil ég nefna, út af því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér, að líklega er það rétt að í þessu tilfetli, eins og að ég hygg mörgum fleirum og líklega hjá fyrrv. ríkisstjórn líka, hefur ekki verið farið að lögum í sambandi við að kostnaðaráætlanir fylgi frv., sem er þó lagaskylda. Og það er síður en svo að það sé neitt betra eða réttlætanlegra í þessu tilfelli með hæstv. núv. fjmrh. við stjórnvölinn en í hinum tilfellunum hjá hæstv. fyrrv. félmrh. eða fyrrv. fjmrh. Slík dæmi hygg ég að hægt sé að finna í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar, að ekki hafi verið farið að þessum lögum. Eftir sem áður er það ekkert réttlætanlegra í þessu tilfelli að hæstv. fjmrh. eða hvaða ráðh. sem er fari ekki að lögum í þessu efni sem öðrum. Til þess verður auðvitað að ætlast.

Það ætlar að verða vonlaus bið eftir hæstv. forsrh. til þess að hann heyri að hann á dyggan stuðningsmann hér í þessu sjónarmiði sem hann hér lýsti. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. komi því þá til hans. Ég efast ekki um að hæstv. fjmrh. mundi þiggja það með þökkum að losna við að taka þessar milljónir að láni fyrir Íslendinga og láta Bandaríkjamenn borga þetta sjálfa. Hitt er svo annað mál, að almennt held ég að þm. sé orðið ljóst, og kannske fyrir þó nokkru síðan, að erlendar lántökur, erlend skuldabyrði þjóðarinnar er orðin geigvænleg. Hún er komin yfir 60% af þjóðarframleiðslunni. Og þá kemur upp þessi spurning: Ef menn á annað borð ætla sér að taka lán til framkvæmda, hvaða framkvæmdir eru það sem eru þá arðbærastar? Er það þessi framkvæmd eða er það eitthvað annað? Ég heyri ekki betur en að þm. sem tóku til máls hér í gær í sambandi við vegáætlun, þeir voru að vísu fáir viðstaddir og mætti ætla að þeir sem ekki voru hér þá teldu þann þátt framkvæmda í þjóðlífinu lítils virði, en almennt voru þó þeir menn sem þar tóku þátt í umræðum sammála um það, að vegaframkvæmdir væru hinar arðbærustu framkvæmdir sem hægt væri að fara í á þessum tíma. Og menn voru sammála um það að réttlætanlegt væri að taka erlent lán til vegaframkvæmda vegna þess að það væru arðbærustu framkvæmdirnar sem við gætum farið í á þessum tíma. Í ljósi þess er nær að nota þá möguleika sem Íslendingar hafa til erlendrar lántöku í þær framkvæmdir sem eru arðbærastar og láta Bandaríkjamenn borga þessa flugstöð eina og sér.