02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði, en það er 104. mál Sþ. á þskj. 125, flutt af sjö þm. Alþb.

Það er óhætt að fullyrða að enginn einn þáttur veldur jafnmikilli mismunun í kjörum fólks hérlendis og ójafn húshitunarkostnaður. Á sama tíma og tæp 60% landsmanna eða 135 þús. manns búa við ódýrar hitaveitur þurfa 25% þjóðarinnar, 57 þús. manns, að greiða margfaldan kostnað fyrir hitun frá dýrum rafveitum og hitaveitum. Auk þess eru um 6% eða tæp 15 þús. manns sem enn búa við olíuhitun, en flestir þeirra eiga nú þegar völ á að tengjast innlendum en yfirleitt dýrum veitum.

Í grófum dráttum lítur dæmið þannig út að um þriðjungur landsmanna býr við mjög háan hitunar kostnað þrátt fyrir niðurgreiðslur á raforku og olíu til húshitunar. Miðað við gjaldskrá og vel einangrað húsnæði þarf þessi hluti þjóðarinnar að greiða um og yfir þrefalt meira fyrir hitun híbýla sinna en þau 60% sem njóta ódýrra hitaveitna. Fyrrnefndi hópurinn þarf að verja í húshitun að meðaltali sem svarar 10–12 vikna launum lágtekjufólks miðað við tekjutryggingu í dagvinnu, en síðartaldi hópurinn ver í þessu skyni sem svarar fjögurra vikna launum eins og gjaldskrám hefur verið háttað.

Í mörgum tilvikum — og á það legg ég áherslu — er munurinn þó langtum meiri og kostnaðurinn við húshitun hrikalegri, eins og raunar er rakið í grg. með till., m.a. með skýrum dæmum frá þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum.

Til margháttaðra aðgerða hefur verið gripið af stjórnvöldum á liðnum árum til að hamla gegn hækkun húshitunarkostnaðar og vaxandi mismunun eftir veitusvæðum. Þar má nefna niðurgreiðslu á olíu til húshitunar og margföldun á olíustyrkjum að raungildi eftir olíuverðstökkið veturinn 1978–1979, orkusparnaðaraðgerðir á mörgum sviðum undir forustu orkusparnaðarnefndar, sem skipuð var á árinu 1979, lög um lækkun og jöfnun hitunarkostnaðar sem sett voru vorið 1980, lán til orkusparandi breytinga á íbúðarhúsnæði á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins frá árinu 1981 að telja, niðurgreiðslu á raforku til húshitunar í áföngum frá 1. okt. 1982 að telja, framlag til varmaveitna sem átt hafa í mestu fjárhagserfiðleikum, breytingu á orkulögum til að draga úr kostnaði og áhættu við borun eftir heitu vatni, jöfnun heildsöluverðs á raforku til allra landshluta skv. samningum um Landsvirkjun og nýjum lögum um fyrirtæki, baráttu fyrir leiðréttingu á orkusölusamningum við stóriðjufyrirtæki sem ásamt hækkandi fjármagnskostnaði valda mestu um erfiða fjárhagsstöðu Landsvirkjunar á undanförnum árum.

Með þáltill. er lagt til að skipulegt framhald verði á aðgerðum til að lækka og jafna húshitunarkostnað og að Alþingi feli ríkisstj. að gera tilteknar ráðstafanir í því skyni.

Tvennt er það sem veldur mestu um ójöfnuð í húshitunarkostnaði, mismunur á gjaldskrám veitufyrirtækja og ófullnægjandi frágangur húsnæðis. Aðgerðir til að lækka og jafna orkureikning heimilanna í landinu vegna húshitunar eiga því að beinast að hvoru tveggja, lækkun á hæstu gjaldskránum og skipulegum orkusparnaði, m.a. með endurbótum á húsnæði: Þáltill. tekur á báðum þessum þáttum eins og hér greinir.

Í till. er gert ráð fyrir að sett verði þak á húshitunarkostnað meðalíbúðar, 400 rúmmetra að stærð. Gjaldskrár verði við það miðaðar að ekki þurfi meira en svarar til sex vikna launa á ári skv. tekjutryggingartaxta fyrir dagvinnu til að greiða áætlaðan húshitunarkostnað slíkrar íbúðar. Við ákvörðun á þessu hámarki var höfð hliðsjón af hitunarkostnaði meðalíbúðar, 377 rúmmetra, eins og hún er metin í nýja vísitölugrundvellinum svonefnda, en þar er um eins konar vegið landsmeðaltal að ræða. Árskostnaður skv. þessum grunni væri á núverandi verðlagi 18 760 kr. Laun skv. dagvinnutekjutryggingu hjá Dagsbrún munu nú vera 2 530 kr. á viku eða 15 180 á sex vikum. Þar sem laun eru nú óeðlilega lág er í útreikningi gert ráð fyrir hækkun þeirra eða sem svarar 17 200 kr. fyrir sex vikur sem væri það hámark sem gjaldskrár tækju mið af varðandi húshitunarkostnað á ári frá ársbyrjun 1985 að telja. Hins vegar er gert ráð fyrir áfanga að þessu marki frá byrjun árs 1984 og þá miðað við að húshitunarkostnaður skv. gjaldskrá svari að hámarki til átta vikna launa eða sem nemur 22 900 kr. á ári.

Verkfræðistofan Fjarhitun, sem mikið hefur unnið að athugunum á húshitunarkostnaði fyrir opinbera aðila, hefur áætlað heildarkostnað af niðurgreiðslum skv. þessu sem hér greinir, en það kemur raunar fram nánar útfært í fskj. 11 með þáltill.:

Miðað við endanlegt markmið, sex vinnuvikur sem viðmiðun, þá þyrfti í niðurgreiðslur vegna íbúðarhúsnæðis 604 millj. á ári og vegna atvinnuhúsnæðis og fétagslegs húsnæðis 206 millj. kr. til viðbótar eða 810 millj. samtals á ársgrundvelli. Miðað við áfangann frá upphafi þessa árs, sem þáltill. gerir ráð fyrir, væru þessar upphæðir vegna íbúðarhúsnæðis 421 millj. kr. og vegna atvinnuhúsnæðis og félagslegs húsnæðis 136 millj. eða samtals 557 millj. kr. Innifalinn í þessum tölum er kostnaður vegna niðurgreiðslu á rafhitun, dýrum hitaveitum og olíuhitun. Varðandi olíuhitun er gert ráð fyrir meðalorkuverði sem er rúmlega 10% hærra en við rafhitun.

Skv. þessu þyrfti, eins og ég gat um, um 420 millj. kr. til lækkunar á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis á árinu 1984 og að auki 136 millj. vegna atvinnuhúsnæðis og fétagslegs húsnæðis, en talsvert hærri upphæðir á komandi ári miðað við sex vinnuvikna viðmiðunina.

Miðað við núverandi niðurgreiddan rafhitunarkostnað skv. gjaldskrá hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða, sem er áætlaður um 29 þús. kr. á ári, væri hér um að ræða 40% lækkun, og hjá Hitaveitu Akureyrar, þar sem árskostnaður skv. gjaldskrá er áætlaður eins og gjaldskráin var 1. nóv.–1. febr. 34 800 kr. á ári, yrði um að ræða nálægt 50% lækkun. Kostnaðurinn hjá Hitaveitu Akureyrar, reiknaður á ársgrundvelli, er sem sagt nokkru hærri en niðurgreidd raforka til húshitunar hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða.

Varðandi markmið þáttill. um jöfnuð á húshitunarkostnaði kemur fram í útreikningum á fskj. 11 í viðauka I, að séu uppfyllt skilyrðin um lækkun á húshitunarkostnaði skv. lið 1 í till. er einnig náð þeim markmiðum um jöfnun hitunarkostnaðar sem þar er kveðið á um. Það sést raunar af töflu sem fylgir í grg., að eftir lækkun með aukinni niðurgreiðslu yrði munurinn á dýrum og ódýrum veitum 2.3-faldur miðað við átta vikna laun og 1.8-faldur miðað við dæmi 1, þ.e. sex vikna laun. Þessi munur hefur minnkað enn frekar eftir þá hækkun sem orðið hefur hjá Hitaveitu Reykjavíkur og væntanlega einnig hjá þeim veitum sem lægsta taxta hafa haft, en ég hygg að 25% hækkun hafi tekið gildi hjá Hitaveitu Reykjavíkur í gær eða 1. febr.

Niðurgreiðsla á innlendri orku er að mati flm. óhjákvæmilegt úrræði við núverandi aðstæður til að létta á þeim sem þyngstar byrðar bera. Hins vegar verður jafnhliða að tryggja stórátak í orkusparnaði, ekki síst með endurbótum á einangrun og öðrum frágangi húsnæðis, bæði íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis. Það er hin þjóðhagslega æskilega leið. Með henni á að vera unnt að bæta aðstæður þeirra til frambúðar sem nú greiða hæstu orkureikningana, enda njóti þeir forgangs við úthlutun styrkja og hagstæðra lána til úrbóta á húsnæði. Í þessum efnum má leita að fyrirmynd hjá hinum Norðurlöndunum, ekki síst í Danmörku þar sem stórvirki hefur verið unnið í orkusparnaði, m.a. með einangrun húsnæðis frá 1975 að telja.

Reynslan af orkusparnaðarlánum Húsnæðisstofnunar ríkisins hérlendis undanfarin ár sýnir ótvírætt að annað og meira þarf að koma til svo að hér náist viðunandi árangur. Örva þarf húseigendur, sveitarfélög og atvinnurekendur til aðgerða með því að bjóða fram styrki, m.a. í formi ráðgjafar á þessu sviði, svo og töng og hagstæð lán. Til að leiða í ljós með skjótum hætti hvaða árangri er unnt að ná í orkusparnaði með bættri einangrun húsnæðis er lagt til að sérstakt átak verði gert á völdum stöðum á landinu í endurbótum á húsnæði og einnig með fræðslu um orkusparnað. Niðurstöður af slíkum aðgerðum þurfa að vera mælanlegar og því er eðlilegt að leita samvinnu við þá fjóra þéttbýliskjarna, þ.e. Bolungarvík, Raufarhöfn, Neskaupstað og Hvolsvöll, þar sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Orkustofnun hafa staðið að víðtækum athugunum á húsnæði eins og fram kemur í fskj. 5 með þessari þáltill.

Miklu skiptir að gefa iðnaðarmönnum kost á þjálfun í endurbótum á eldra húsnæði og nauðsyn gæti verið á að hafa einhvern hóp manna í förum til byggðarlaga þar sem heimamenn geta ekki sinnt þessum verkefnum til fulls. Líkur benda til að eins og verkefnastaða er í byggingariðnaði nú um þessar mundir gæti átak í viðhaldi húsnæðis fallið vel að vinnumarkaði og komið í veg fyrir atvinnuleysi iðnaðarmanna og annarra er í byggingariðnaði starfa.

Þá er í þáltill. lagt til að komið verði upp ráðgjafarþjónustu í orkusparnaði undir eftirliti fjögurra aðila, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, Orkustofnunar, orkusparnaðarnefndar iðnrn. og Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þessir aðilar myndi eins konar ráðgefandi stjórn fyrir slíka þjónustu, sem hafi í senn ráðgjafar- og samræmingarhlutverk með höndum. Samvinna við ýmsa aðila kemur þar til álita, m.a. við byggingarþjónustuna, sveitarfélög og samtök þeirra. Eðlilegt verður að teljast að þessi þjónusta verði færð með skipulegum hætti út í landshlutana og tengist þar m.a. starfi byggingarfulltrúa. Sérstakir orkuráðgjafar þyrftu að koma til, menn sem sérhæfðu sig í ráðgjöf á þessu sviði og ferðuðust um landið. Svonefndir „energikonsutenter“ í Danmörku gætu verið viss fyrirmynd að slíkri starfsemi. Ráðgjafarþjónustan gæti gefið mikilsverðar leiðbeiningar til þeirra aðila sem ráðstafa fjármagni til orkusparnaðaraðgerða því að miklu skiptir að það nýtist sem best og unnt sé að svara umsóknum um lán og styrkveitingar skjótt og greiðlega.

Eins og fram hefur komið kosta þær aðgerðir sem þáttill. gerir ráð fyrir verulegar fjárhæðir umfram það sem ráð er fyrir gert í áætlunum stjórnvalda vegna ársins 1984. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 230 millj. kr. í niðurgreiðslur vegna rafhitunar og í olíustyrki 61.5 millj. kr. eða samtals 291.5 millj. kr. Skv. þeim hugmyndum um áfangalausn á árinu 1984 sem fram koma í þáltill. þyrfti samtals 557 millj. kr. í heild vegna niðurgreiðslna, þar af 421 millj. kr. vegna íbúðarhúsnæðis.

Í því sambandi vil ég minna á að til að ná því markmiði sem hér er fram sett varðandi íbúðarhúsnæði flutti ég brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 1984 þar sem gert var ráð fyrir að framlag til lækkunar húshitunarkostnaðar yrði 420 millj. kr. í stað 230 millj. kr. og tekna til þessa yrði aflað á þessu ári með hækkun orkuverðs til stóriðju og/eða með orkuskatti í samræmi við tillögur nefndar sem skilaði áliti 28. jan. 1983 um fjáröflun til lækkunar húshitunarkostnaðar, en í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar allra þáverandi þingflokka. Þessar brtt. mínar voru felldar við 2. og 3. umr. fjárlaga.

Iðnrh. hæstv. gaf hins vegar svofellda yfirlýsingu við 3. umr. fjárlaga hér í Sþ. þann 19. des. s.l., með leyfi forseta:

Ríkisstj. hefur ákveðið að lagt verði fram á fyrstu dögum þings eftir áramót frv. til l. um jöfnun húshitunarkostnaðar til að létta verulega kostnað þeirra sem þyngstar byrðar bera vegna hitunar híbýla sinna með niðurgreiðslu orkugjafa og ráðstöfun til orkusparnaðar.“

Þetta mælti hæstv. ráðh. Sverrir Hermannsson þann 19. des. s.l., en nú er kominn 2. febr. og þing hefur starfað í tvær vikur eftir áramót. Fyrstu dagar þings eru því liðnir og ekkert bólar á frv. sem ríkisstj . boðaði fyrir jól að kæmi fram hér á fyrstu þingdögum eftir jólaleyfi. Skv. yfirlýsingu ráðh. á það frv. að fela í sér ákvæði um, eins og það var orðað, „að létta verulega kostnað þeirra sem þyngstar byrðar bera vegna hitunar híbýla sinna.“ Að fenginni þessari yfirlýsingu voru hér greidd atkvæði varðandi framlög á fjárlögum ársins 1984.

Nú er hæstv. iðnrh. fjarverandi, en ég hlýt að inna hér eftir því staðgengil hans eða hæstv. forsrh., sem ég vænti að sé hér í húsinu, og eftir nærveru hans er óskað, herra forseti, þannig að hægt verði að inna hann eftir hvað líði þessari frv.-gerð. (Forseti: Ég mun verða við þeirri ósk að kanna hvort hæstv. forsrh. er í húsinu og geti svarað þessari fsp.)

Herra forseti. Ég mun doka við á meðan það sést hvort hæstv. forsrh. kemur í þingsal. (KP: Er ekki forsrh. á landinu?) Það er eftir að sjá. (Forseti: Mér er tjáð að hæstv. forsrh. sé farinn úr húsinu og hér er nú fátt um ráðh. Að vísu er hæstv. félmrh. hér staddur. Aðra ráðh. sé ég ekki í augnablikinu.) Herra forseti. Það væri kannske eðlilegt að óska eftir nærveru einhvers ráðh. Sjálfstfl., ef þeir gætu leyst úr fsp. um þetta. Ég innti eftir því hvort einhver gegndi störfum hæstv. iðnrh. í fjarveru hans erlendis, en fékk þær upplýsingar að svo mundi ekki vera og hann hefði fært út það svið sem hann starfar á. (Forseti: Já, ég sá hér hæstv. ráðh. sjálfstfl. áðan og reikna með því að einhver þeirra kunni að vera í húsinu enn þá og skal láta kanna hvort einhver þeirra... Ég sé að hæstv. fjmrh. er genginn í salinn og vænti þess að hv. 5. þm. Austurl. beini þá til hans fsp. sinni.)

Já, herra forseti, það mun ég gera, og ber vissulega vel í veiði því að hér er um fjárhagsmál að ræða og hæstv. iðnrh. mun vafalaust þurfa fulltingi hæstv. fjmrh. til þess að ná fram þeim fyrirætlunum sem hann boðaði hér og gaf yfirlýsingu um þann 19. des. í Sþ., yfirlýsingu sem ég vitnaði til hér áðan og vil leyfa mér að endurtaka, þar sem ég óska eftir að hæstv. fjmrh. leitist við að svara því hér á eftir ef hann vildi gera svo vel og getur veitt upplýsingar. Yfirlýsing hæstv. iðnrh. í Sþ. þann 19. des. varðandi húshitunarmál var svofelld:

Ríkisstj. hefur ákveðið að lagt verði fram á fyrstu dögum þings eftir áramót frv. til l. um jöfnun húshitunarkostnaðar til að létta verulega kostnað þeirra sem þyngstar byrðar bera vegna hitunar híbýla sinna með niðurgreiðslu orkugjafa og ráðstöfun til orkusparnaðar.“

Í framhaldi af þessu minnti ég á að nú eru liðnar um tvær vikur af starfstíma Alþingis eftir jólaleyfi og því vildi ég inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann geti upplýst hvað valdi töfum á framlagningu umrædds frv. og hvenær þess sé að vænta að það verði lagt hér fram á Alþingi. Það eru margir sem bíða spenntir eftir að sjá efndir á orðum og yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. um lækkun hitunarkostnaðar, því að á starfstíma hennar hefur hitunarkostnaður ekki lækkað, heldur hækkað stórlega, þvert ofan í gefin loforð við stjórnarmyndunina s.l. vor. Hin stórfellda kaupskerðing sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir veldur því jafnframt að hitunarkostnaðurinn er þeim mun þungbærari, og þeir munu margir sem liggja nú með ógreidda reikninga frá veitufyrirtækjum og sjá enga leið til að standa í skilum með greiðslur.

Varðandi fjáröflun er í þáltill. vísað til nál. um fjáröflun til að jafna húshitunarkostnað, nál. frá 28. jan. 1983 sem prentað er sem fskj. 8 með þáltill. Ljóst er að þær tölur sem nefndin gekk út frá að afla þyrfti í þessu skyni eru úreltar, eins og ég raunar hef þegar að vikið, en þær fjáröflunarleiðir sem nefndin benti á eru í fullu gildi að mati flm. Mikilsvert er að um þær var samstaða í nefndinni þar sem sæti áttu fulltrúar frá þingflokkum sem studdu þáv. ríkisstj. og einnig frá stjórnarandstöðu.

Ástæða er til að gefa því sérstakan gaum að með átaki í orkusparnaði, eins og hér er lagt til, lækkar fljótlega sú upphæð sem verja þarf til niðurgreiðslna. Er eðlilegt að verja því fjármagni sem þannig verður til ráðstöfunar í aðgerðir í orkusparnaði, þ.e. til styrkja og til þess að greiða niður fjármagnskostnað vegna lána sem veitt yrðu á hagstæðum kjörum til að ýta undir orkusparandi endurbætur á húsnæði.

Eðlilegt verður að teljast að stefnt sé að breytingum á verðlagningu á innlendri orku til húshitunar sem geri kleift að ná viðunandi jöfnuði án þess að niðurgreiðslur þurfi að koma til í framtíðinni. Slíkar breytingar taka hins vegar óhjákvæmilega nokkurn tíma. Sama máli gegnir um tilhögun á niðurgreiðslum. Þar getur vissulega komið til álita einhver annar háttur en nú er viðhafður ef menn telja það skynsamlegra og ná betur settum markmiðum. Meginmáli skiptir hins vegar að húshitunarkostnaður verði lækkaður skjótlega frá því sem nú er hjá þeim sem þyngstar byrðar bera og samhliða verði hraðað varanlegum aðgerðum til úrbóta með orkusparnaði.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir meginatriðum þessarar þáltill. en vísa að öðru leyti til grg. með henni, svo og til 11 fskj. sem varpa ljósi á marga þætti húshitunarmálanna. Ég legg svo til að eftir að umr. um þessa till. hefur verið frestað verði henni vísað til hv. atvmn., sem einnig mun hafa fengið til meðferðar þáltill. um orkusparnað, sem hv. þm. Guðmundur Einarsson mælti fyrir hér í síðustu viku og fjallar að nokkru leyti um skyld atriði þessari till.