02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2545 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að víkja hér að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í umr. og óska eftir að þeir hv. þm. sem hér hafa talað og vikið að mér í máli sínu verði viðstaddir vegna þess að ég ætla aðeins að koma að því. Má vera að þeir séu allir í þingsal sem talað hafa nema hv. þm. Ólafur Þórðarson, sem ég sé ekki viðstaddan, en hann vék með nokkuð sérstökum hætti að mér í sambandi við þennan tillöguflutning svoleiðis að það mundi gleðja mig að sjá framan í hann hér með öðrum þm. í salnum. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til þess að hv. þm. verði hér viðstaddur. Ég veit að hann er á fundi úti í Þórshamri sem stendur.)

Það er, herra forseti, af nokkru fleira að taka en því sem ég ætlaði að víkja að varðandi málflutning hv. þm. Ólafs Þórðarsonar. Almennt vil ég lýsa ánægju minni með undirtektir hv. þm. við þessa þáttill. Það hafa verið jákvæðar undirtektir við efni hennar hjá eiginlega öllum sem hér hafa talað og menn hafa lýst fylgi sínu við þá stefnumörkun sem þar kemur fram í öllum meginatriðum. Þetta er auðvitað það sem máli skiptir, hvort menn greinir á um það sem til framtíðar horfir. Til þess er till. flutt að tekið verði á málum varðandi lækkun húshitunarkostnaðar og orkusparnaður verði einn liður til að ná fram slíkri lækkun, hvort menn eru sammála þar um markmiðin eða ekki. Hitt hefur svo farið í talsvert mál hjá hv. þm., sem ekki er óvenjulegt, að ræða um fortíðina og deila þar m.a. á mig sem fyrrv. ráðh. iðnaðarmála og orkumála á liðinni tíð. Ég er því nokkuð vanur að heyra ýmsa gagnrýni á mín störf þar og kemur það ekkert á óvart og þoli alveg að líta á þau mál og reyni að gera það hlutlægt, að meta hvað rétt er í þeim ásökunum sem þar eru fram bornar.

Varðandi fsp. mína til hæstv. ráðh. og talsmanna ríkisstj. um hvers sé að vænta um tillöguflutning af hennar hálfu í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. iðnrh. 19. des. s.l. kom fram að umrætt frv. væri í burðarliðnum. Við skulum vænta þess að þá liði ekki margir dagar þangað til að það sést hér inni á hv. Alþingi.

Hv. 11. landsk. þm. taldi að svo kynni að vera að ferðalag hæstv. iðnrh. til útlanda — hann mun hafa farið af landi brott í gærmorgun — kunni að vera ástæðan fyrir því að frv. er ekki fram komið. Hæstv. samgrh. tjáði mér að ráðh. væri væntanlegur á morgun. Þess er þá að vænta að við sjáum þessar till., sem að líkindum byggja að verulegu leyti á starfi þeirrar nefndar sem hv. 11. landsk. þm. hefur starfað í frá því í sumar varðandi þennan málaflokk sérstaklega.

Hv. þm. Egill Jónsson greindi frá því í máli sínu áðan að hann teldi að sú stefnumörkun sem hann hefði stungið upp á við iðnrn. í nál. ásamt fleirum væri að verulegu leyti í þá átt eða mjög nálægt þeirri stefnumörkun sem hér væri uppi varðandi lækkun húshitunarkostnaðarins. Ég lýsi auðvitað ánægju minni yfir því, ef það gengur eftir sem fram kom í hans máli, því þá væri vissulega verulegum áfanga náð.

Margt getur orkað tvímælis þegar menn eru að fjalla um þessi mál í almennum orðum. Tölur, einkum beinar kostnaðartölur og sambærilegar tölur, geta kannske leitt menn nokkuð nærri hinu rétta í þessum efnum þó að vissulega megi oft segja ósatt eða hagræða ýmsu með tölum — ég tala nú ekki um með prósentureikningi einum saman. Það skulum við líka hafa í huga. En vegna þess að það er deilt á störf fyrrv. ríkisstj. og mín störf sem iðnrh. að þessum málum sérstaklega vil ég í upphafi máls míns nú bera fram tölur sem komnar eru frá iðnrn. eftir að ég hætti þar starfi sem ráðh. og varða áætlaðan húshitunarkostnað miðað við gjaldskrár á hverjum tíma fyrir meðalóúð 400 rúmmetra að stærð og þær niðurgreiðslur sem í gildi eru. Ég vil láta hv. þm. heyra þessar tölur. Hvað segja þær okkur?

Hinn 10. maí, þegar gjaldskrár veitufyrirtækja voru síðast ákveðnar á meðan ég gegndi starfi iðnrh., og hér tek ég aðeins Rafmagnsveitur ríkisins sem viðmiðun því það væri of langt mál að rekja það varðandi mörg veitufyrirtæki, var áætlað af ráðuneytinu að árskostnaður fyrir upphitun meðalíbúðar á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins væri 24 592 kr. og mun hærri ef ekki hefðu komið til niðurgreiðslur í októbermánuði, en þá höfðu gengið fram stórfelldar hækkanir á raforku fyrir tilstuðlan núv. ríkisstj. og aðeins að hluta verið mætt með auknum niðurgreiðslum, bera útreikningar iðnrn. vott um að húshitunarkostnaður sömu íbúðar hafi hækkað rétt um 4 100 kr. á ári eða í 28 898 kr. þrátt fyrir niðurgreiðslur. Þetta gerist á sama tíma og ríkisstj. stendur að þeim stórfelldu kjaraskerðingum sem allir þekkja. Greiðslubyrðin vegna húshitunarinnar hefur því hækkað til stórra muna umfram það sem þessar tölur bera vott um. Sá tími sem menn þurftu til að vinna fyrir húshituninni ... (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.)

Það er gott að hv. 11. landsk. komi og rökstyðji sitt mál hér á eftir. Það nægir ekki með einföldu framíkalli. Launin hækkuðu ekki sem þessum hækkunum nam. (Gripið fram í.) Engan veginn. Nú greindi hæstv. félmrh., sem hér kom, frá því að ríkisstj. hefði ákveðið að auka niðurgreiðslurnar væntanlega frá 1. febrúar. Ég fékk reyndar um það upplýsingar í morgun að standa mundi til, þó að ekki væri búið að ganga frá því í gjaldskrárútreikningi, að auka niðurgreiðslur um sem svaraði 6%, bæta þar við 6%. Að mati rn. er þá árskostnaður við upphitun sömu íbúðar eftir þá hækkun á niðurgreiðslum 1. febrúar 27 258 kr. á ári, en 2666 kr. hærri en var 10. maí s.l. Þetta eru tölur frá iðnrn. komnar og eru á sambærilegum grundvelli og segja sína sögu um hvað hefur verið að gerast í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

Mér kom það dálítið spánskt fyrir sjónir að hv. 3. þm. Vestf., sem hefur vikið af fundi vegna annarra starfa, skyldi fara að bera í bætifláka fyrir núv. ríkisstj. í sambandi við húshitunarkostnaðinn og deila í rauninni sérstaklega á fyrrv. ríkisstj. vegna meðferðar mála í sambandi við þessi efni, en taldi að núv. ríkisstj. hefði verið heldur skárri ef eitthvað væri. Ja, það er hægt að komast að niðurstöðum með ýmsum hætti. Ég hef rakið hér tölur frá hæstv. núv. iðnrh. sem sýna hvað hefur gerst varðandi húshitunarkostnaðinn. Hann hefur hækkað að raungildi á þessum tíma og aukning á niðurgreiðslum hefur ekki haft við að hamla gegn hækkunum, vegna þess að hleypt hefur verið fram með samþykki ríkisstj. og með samþykki ráðh. Framsfl. í ríkisstj. stórfelldum gjaldskrárhækkunum hjá Landsvirkjun sem hv. þm. Ólafur Þórðarson var hér að býsnast yfir að ég hefði hleypt fram á mínum tíma sem iðnrh. Það var nefnilega fyrsta kveðjan til orkunotenda í landinu frá núv. ríkisstj. að veita Landsvirkjun alveg sérstaka 19% hækkun hinn 3. júní s.l. og bæta síðan um betur með því að heimila Landsvirkjun hækkun um 31% á heildsöluverði raforku hinn 1. ágúst s.l. Það er von að menn séu hér með ádeilur uppi, sem standa að slíku. Það finnst mér nokkur hreysti eftir slíkar aðgerðir þeirrar ríkisstj. sem staðið hefur fyrir stórfelldustu kjaraskerðingum í landinu sem sögur fara af í sögu lýðveldisins á þeim tíma sem hér um ræðir og ríkisstj. hefur setið við völd.

Það er ekki bara húshitunarkostnaðurinn sem skiptir máli, heldur hinn almenni orkukostnaður. Hvað ætli hann hafi hækkað í krónum talið fyrir meðalfjölskyldu, sem notar rétt tæpar 4 þús. kwst. af orku á ári? Hinn almenni taxti, sem allir landsmenn bera — ekki bara þeir sem eru með rafhitun hjá sér — hefur að mati iðnrn. hækkað um 5100 kr. á ári. Hækkun orkukostnaðar hjá meðatfjölskyldu, sem notar raforku að auki til upphitunar, hefur því verið um 8–10 þús. kr. eftir því hvort við göngum út frá þeirri hækkun sem nú hefur orðið og þeirri aukningu á niðurgreiðslum sem orðið hefur frá 1. febrúar eða þeim töxtum sem áður giltu og hafa færst inn í reikninga notenda frá 1. ágúst að telja. Þetta er nú frammistaða þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. Ólafur Þórðarson er dyggur stuðningsmaður við í sambandi við orkumál og orkuverð.

Það er von að blessaður þm. komi hér og blási mikinn úr ræðustól yfir gerðum fyrrv. ríkisstjórnar sem hann einnig studdi, að ég best veit, og átti sinn hlut að aðgerðum sem hann var að deila hér á að góðum hluta til. Framsfl. var þar á meðal, þó að hann hlypist undan merkjum í þeim málum sem mestu skiptu til að ná fram leiðréttingu á orkuverði til stórnotenda í landinu, sem fá hér raforkuna á gjafverði, sama við hvað er miðað, heiminn í heild eða nálæg lönd. Þar brást Framsfl., svo ekki sé nú talað um Alþfl. sem var þar í slagtogi þegar á reyndi á s.l. vetri. Ekki fannst mér sérstaklega skynsamlegt hjá hv. 5. landsk. þm., Eiði Guðnasyni, að koma hér til þess að hælast um yfir frammistöðu Alþfl. í þessum efnum. Hann ætti að hafa í minni frammistöðu síns flokks þegar á reyndi að ná fram leiðréttingum á raforkuverði til stóriðjufyrirtækja. Þótt ekki hefði verið farið lengra fram en að ná framleiðslukostnaðarverði fyrir orkuna, sem við seljum til stóriðjufyrirtækjanna, hefði verið unnt að lækka húshitunarkostnað þeirra sem nota raforku um 60% fyrir þær tekjur sem þannig hefðu fengist. Það er óhjákvæmilegt að rifja þessa sögu hér upp enn og aftur við þessa umr. þegar þessir hv. þm. telja sig þess umkomna að gera harðar árásir og láta stór orð falla í minn garð í sambandi við mína málafylgju varðandi orkuverðsmálin í landinu til húshitunar og til annarra þarfa. Það vill nú svo til, hv. þm. sem hér hafði mælt í þessari umr., að þskj. geyma orð manna og afstöðu til mála á undanförnum árum. Þau orð verða ekki aftur tekin né sú afstaða sem þar kom fram og sú afstaða sem þar kom ekki fram.

Hvaða afstaða var það sem þar kom ekki fram? Hún var sú, að fram til hausts 1980, þegar ég bar fram um það till. að krafist yrði endurskoðunar á orkusölusamningi við Íslenska álfélagið hf. svokallaða, orkusölusamningum við Alusuisse, höfðu engir þm. þessara þriggja flokka, sem bundust samtökum hér á s.l. vetri um að flytja till. sem þeir túlkuðu sem vantrauststill. á mig sem ráðh., höfðu engir talsmenn þessara þingflokka, Alþfl., Sjálfstfl. og Framsfl., séð ástæðu til þess að minnast á það einu orði frá því ég kom hingað inn á Alþingi, að raforkuverðið til stóriðjufyrirtækjanna væri of lágt og þar þyrfti einhverju um að þoka. Eftir að borin höfðu verið fram skýr rök fyrir því hvers konar kjarasamningar það voru sem við bjuggum við lögðu þessir hv. þm. og þingflokkar ekki í annað en að lýsa yfir almennu fylgi í orði við að leiðrétting þyrfti að nást fram á þessum samningum, en á borði reyndust þeir svikulir og hallir undir hagsmuni hinna erlendu aðila, eins og sýnt hefur verið fram á með skýrum rökum, með tilvitnunum í þeirra eigin orð og afstöðu þeirra á hv. Alþingi.

Ég ætla ekki hér að fara að rifja það upp í einstökum atriðum. Það er af svo mörgu að taka og spurning hvar ætti að byrja, hvort það ætti að fara að rifja upp blaðagreinar eftir hv. alþm. og leiðarljós þessara flokka eða hvort það ætti að fara að rifja upp afstöðu innan ríkisstj., sem liggur fyrir, eða hvort það ætti að fara að rekja kurteisisviðræðurnar sem fram fóru á bak við mig sem ráðh. við forráðamenn auðhringsins. Það hef ég gert ekki alls fyrir löngu. Það liggur fyrir í þingtíðindum. Þar mætti þó bæta við ýmsu fleira.

Þróun raforkuverðs í landinu og staða aðalorkuframleiðandans í landinu, Landsvirkjunar, frá árinu 1978 og frá því á árum fyrr, en kannske alveg sérstaklega frá þeim tíma, hefur, svo sem sýnt hefur verið fram á í athugunum og skýrslum sem fyrir liggja, þróast þannig, sem raun ber vitni, að fyrirtækið hefur talið sig þurfa stórkostlega hækkun á heildsöluverði til almenningsveitna á þessum tíma, langt umfram hækkun byggingarvísitölu, til þess að jafna metin á því sem tapast í viðskiptum við álverið og Íslenska járnblendifélagið líka og velta því yfir á bök almennings. Það er gegn þeirri þróun sem leitast var við að fylkja liði hér á Alþingi og innan ríkisstj. á liðnum árum, en því miður ekki með þeim árangri sem þurft hefði vegna þess að baklandið var holgrafið. Talsmönnum auðhringsins hafði tekist það ætlunarverk sitt að hafa þau áhrif á áhrifamikla aðila í íslensku þjóðfélagi að þeir reyndust ekki menn til að standa uppréttir svo að ná mætti fram sanngjörnum íslenskum rétti í þessum viðskiptum. Nú glímir önnur ríkisstj. við þetta verkefni, mennirnir sem harðast deildu á mig fyrir málafylgjuna. Þeim sýnist ekki ætla að ganga allt of vel þó að aðstæður þessa auðfélags séu að eigin sögn þess og allra sem sjá vilja aðrar og betri þetta árið en var í þeirri kreppu og öldudal sem ríkti þegar ég var í forsvari, og hafði þó auðhringurinn full efni á að leiðrétta orkuverðið hjá álverinu í Straumsvík miðað við afkomu þess, enda vitað að sú álbræðsla er langsamlega arðgæfasta fyrirtæki í eigu auðhringsins, sem rekur að mig minnir um 12 álver eða eitthvað nærri því.

Þetta er nauðsynlegt að rifja hér upp miðað við þann málflutning sem hv. þm. sjá sóma sinn í að viðhafa hér í árásum á mig og mína málafylgju til að reyna að ná fram íslenskum rétti og tekjum inn í íslenskt samfélag fyrir raforkusölu.

Þá ætla ég að víkja aðeins nánar að hv. þm. Ólafi Þórðarsyni, sem talaði hér áðan. Hann býsnaðist yfir því að ég hefði hleypt fram svo og svo mikilli hækkun hjá Landsvirkjun. Mér skildist á honum að ég hefði bara átt að setja hnefann í borðið, þegar ég kom í ráðherrastól, og segja: Hingað og ekki lengra. Þið fáið enga hækkun, a.m.k. ekki umfram verðlagsþróun. Það er eflaust það sem þm. átti við, geri ég ráð fyrir. Við skulum aðeins líta á það og hlut Framsfl. í þessu máli því að sú saga segir ansi mikið um vinnubrögð framsóknarmanna, hvað þeir telja boðlegt í samstarfi við aðra og hvaða sagnfræði þeir telja boðlegt að reyna að búa til og færa sér til betri vegar þó að annað liggi fyrir. (ÓÞÞ: Undir hvern heyrði þessi málaflokkur?) Þessi málaflokkur, orkumálin almennt, heyrði undir iðnrn. Verðlagning í landinu í aðalatriðum heyrir hins vegar undir, vegna þess að hv. þm. sá ástæðu til þess að spyrja um þetta, viðskrn. þar sem Tómas Árnason var ráðh. á þessum tíma. Nú ætla ég ekkert að fara að skrifa hv. þm. Tómas Árnason sem viðskrh. sérstaklega fyrir verðhækkunum á orkunni. En við skutum hafa það sem rétt er í þessu máli.

Þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var mynduð var viðhafður sami háttur og verið hafði í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar og ég hafði einnig starfað í varðandi ákvarðanir á gjaldskrám veitufyrirtækja og opinberum gjaldskrám. Sett var á laggirnar svokölluð gjaldskrárnefnd skipuð einum fulltrúa frá hverjum stjórnaraðila. Fulltrúi Framsfl. í gjaldskrárnefnd var Georg Ólafsson verðlagsstjóri og jafnframt formaður nefndarinnar. Hann var ekki fulltrúi viðskrn., heldur fulltrúi Framsfl., tilnefndur af honum sem pólitískur fulltrúi, en heyrði sem formaður nefndarinnar undir viðskrh. Það var þessi nefnd, undir forustu Georgs Ólafssonar og Tómasar Árnasonar sem hans yfirmanns, sem bar fram sínar tillögur við ríkisstj. varðandi öll opinber fyrirtæki.

Till. gjaldskrárnefndar stönguðust oft á við till. rn. í ýmsum tilvikum. Þær gátu verið til lækkunar frá till. rn. og þær gátu verið til verulegrar lækkunar frá óskum opinberra fyrirtækja. En mótaðar voru tillögurnar þarna og yfirleitt voru það þær tillögur sem náðu fram að ganga í ríkisstj. í sambandi við verðlagningu opinberra fyrirtækja. (ÓÞÞ: Hvað með neitunarvaldið?) Og svo komum við að neitunarvaldinu. (ÓÞÞ: Voruð þið bara kúskaðir?) Svo komum við að neitunarvaldinu.

Það gerðist um áramótin 1981–1982 að úr gildi féllu ákvæði í lögum um verðlag og viðskiptahætti, minnir mig þau heita, sem höfðu veitt ríkisstjórnum aðstöðu til ákvarðana um verðlagningu hjá Landsvirkjun alveg sérstaklega frá árinu 1970 að telja. Það kom fljótlega, í byrjun árs 1982, upp það viðhorf af hálfu Landsvirkjunar að nú hefði Landsvirkjunarstjórnin sjálfdæmi til að taka þær ákvarðanir og setja á þær hækkanir sem hún teldi nauðsynlegar. Af hálfu lögfræðinga aðila, ríkisstj. og Landsvirkjunar, var þetta ekki vefengt.

Viðbrögð ríkisstj. við þessu urðu þau í fyrstu að leitast við að ná samkomulagi við Landsvirkjun um verðlagningu af sinni hálfu. Það var leitast við, og það var hv. 11. landsk. þm. að vitna í áðan, að í stað þess að Landsvirkjun setti fram mjög mikla hækkun, eins og hún óskaði eftir í aprílmánuði 1982, þá næði sú hækkun ekki þá fram að ganga, heldur yrði leitast við að leiðrétta gjaldskrár fyrirtækisins í átt við óskir stjórnar á lengra tímabili, enda var þess vænst á þeim tíma að takast mætti að ná fram leiðréttingu á orkuverði til stóriðjufyrirtækja sem unnið var að af hálfu ríkisstj. og iðnrn. á þeim tíma. En þegar leið á árið 1982 kom fram að stjórn Landsvirkjunar vildi ekki samningaleiðina við ríkisstj., vildi ekki fara að óskum ríkisstj. um þessi efni, heldur setti á meiri hækkanir en um hafði verið rætt. Það er í þeirri stöðu sem ég óska fyrst eftir því í ríkisstj. að mál gengju þannig eftir að sett yrði sérstök löggjöf sem tryggði ríkisvaldinu, iðnrn., ákvörðunarvald um verðlagningu hjá orkuveitum almennt.

Varðandi hitaveitur og rafveitur sveitarfélaga, þá hafði ríkisvaldið eftir sem áður tangarhald á verðlagningu vegna almennra ákvæða í orkulögum þar að lútandi. En Landsvirkjun lá augljóslega fyrir utan og hitt var raunar deiluefni, þannig að snemma árs 1983 fellst ríkisstj. á till. mína um að flytja frv. sem tryggði stjórnvöldum ákvörðunarvald um verðlagningu orkufyrirtækjanna atmennt að Landsvirkjun meðtalinni. Þetta var samþykkt í ríkisstj. Frv. fer til Ed., kemst í gegnum 1. umr. og er vísað til iðnn. Ed.

Þar gerist það hins vegar að frv. stöðvast og situr fast. Hv. þm. gæti leitað sér upplýsinga hjá formanni iðnn. Ed. um hvaða ástæður lágu fyrir því. Ég get í stuttu máli greint frá meginástæðunni. Fulltrúar Framsfl. í iðnn. Ed. töldu sér ekki henta að styðja frv., sem ráðh. flokksins í ríkisstj. höfðu veitt heimild til og lýst yfir samþykki sínu við að flutt yrði. Og hvaða ástæður gætu hafa legið fyrir þessari afstöðu Framsfl., sem mér skildist að væri innan þingflokks hans eða a.m.k. hjá áhrifaaðilum í flokknum, hvort sem þingflokkssamþykktir voru fyrir því eða ekki? Jú, ástæðan var sú að framsóknarmönnum þótti þægilegt að geta hagað sínum kosningaáróðri, vegna þess að þeir þóttust sjá fram undan kosningabaráttu fyrr eða seinna á árinu, með þeim hætti að kenna mér sem iðnrh. um þær hækkanir sem Landsvirkjun þóknaðist að taka sér á raforku og hindra að ég fengi stöðvunarvald í því skyni. Þetta var nú heiðarleikinn í vinnubrögðum Framsfl. í sambandi við það mál sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sá sérstaka ástæðu til að fara að gera að árásarefni á mig. Þetta voru vinnubrögðin. (StG: Um hvaða nefnd var hv. ræðumaður að tala?) Ég er að tala um afstöðu fulltrúa Framsfl. í iðnn. Ed. þar sem þeir höfðu forustuna og formennskuna. Formaður n. var Davíð Aðalsteinsson. Við hann einan ræddi ég um þetta mái. (StG: Þú talaðir í fleirtölu áðan.) Já, hv. þm., ég hef ekki í minni núna hver hinn fulltrúi Framsfl. var í iðnn., nema það væri Stefán Guðmundsson sem þarna situr, en vitneskja mín um þetta efni er frá hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni. Og það var ekkert farið í launkofa með hvaða fyrirstaða væri þarna á ferðinni. (Gripið fram í.) Hv. þm. Stefán Guðmundsson. Það væri ástæða til að taka sér tíma til að rekja fleira í afstöðu og vinnubrögðum Framsfl. og málflutning hans um þessi efni frá þessum mánuðum. Ég hef reyndar gert það að hluta til áður í umr. á þinginu.

Síðan kemur að því eftir að á er leitað og eftir gengið í ríkisstj. að það tekst þó í öndverðum apríl að fá samþykki ríkisstj. fyrir setningu brbl. efnislega á þeim nótum sem frv. hafði verið flutt um sem ekki náði fram að ganga í Ed. um þetta efni. Síðan koma kosningar og þær ganga hjá. Ríkisstj. situr í nokkrar vikur að kosningum loknum. Landsvirkjun óskar eftir hækkun á sínum taxta um 31%. Málið fer til rn. fyrst, brbl. hafa verið sett, valdið er í höndum stjórnvalda, en í ríkisstj. varð það að niðurstöðu að gjaldskrárnefnd fjallaði um málið eins og verið hafði áður og gerði sínar till. Iðnrn. gerði till. til gjaldskrárnefndar að kosningum loknum um að engin hækkun yrði heimiluð hjá Landsvirkjun að þessu sinni. Það væri ekki forsvaranlegt að auka álögur á atmenning og meðgjöf til álversins í Straumsvík eftir þeirri leið.

Þá kemur álit gjaldskrárnefndar, en ekki samhljóða. Minni hlutinn, Ragnar Árnason, í gjaldskrárnefnd studdi till. iðnn., meiri hluti nefndarinnar, formaðurinn org Ólafsson, íulltrúi Framsfl., og Þórður Friðjónsson, fulltrúi sjálfstæðismanna í nefndinni, lögðu til 20% hækkun á gjaldskránni sem heimiluð yrði Landsvirkjun. Málinu var vísað til þriggja ráðh., landbrh., viðskrh. og mín, til að reyna að leysa þennan ágreining. Þar var sæst á 10% gjaldskrárhækkun til Landsvirkjunar, sem tók gildi 10. maí.

Þessi saga gæti verið holl til umhugsunar fyrir hv. þm. Framsfl., ekki síst fyrir hv. þm. Ólaf Þórðarson í sambandi við þau ádeiluefni sem hann hafði hér uppi á mig. (EgJ: En bréfið frá 1982?) Ég hef þegar, hv. þm. Egill Jónsson, um það rætt.

En það er fleira úr málflutningi hv. þm. Ólafs Þórðarsonar. Ég ætla ekki að elta ólar við öll þau rangindi sem hann gerði mér í sínu máli, en ég vil aðeins nefna þar eitt atriði til viðbótar til að sýna fram á inntakið og hugarfarið að baki í sambandi við mátflutninginn.

Hann er að saka mig um það í sínu máli sérstaklega að bera ábyrgð á sameignarsamningnum við Landsvirkjun. Iðnrn. vann að því máli í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála og raunar ákvæði sem komið var inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar á sínum tíma um stofnun eins raforkuöflunarfyrirtækis. Þetta var stefnumál Framsfl., frá flokksþingum búið að vera, og í þessu efni voru Alþb. og Framsfl. samstíga þó að ekki hafi allir þm. þessara flokka endilega skrifað sérstaklega upp á þau efni. Mér er kunnugt um að í þessu efni hafði hv. þm. Ólafur Þórðarson sérstöðu í sínum þingflokki. Ég ætla ekkert að taka hana af honum. En Framsfl. hafði þetta sem stefnumið. Hv. þm. var að álasa mér fyrir að hafa gert þennan samning í stað þess að fara nú að virkja Blöndu á vegum einhverra annarra en Landsvirkjunar, en afhenda ekki Landsvirkjun virkjunarrétt á Blöndu. Hvaða afstöðu hafði formaður þingflokks Framsfl. í þeim efnum þegar til umr. var hér á Alþingi frv. til l. um raforkuver? Ég held að hv. þm. Ólafur Þórðarson ætti að fara í aukatíma til hv. þm. Páls Péturssonar eða rifja upp hans málflutning í sambandi við það efni. Jú, að mati hv. þm. Páls Péturssonar var það alveg meginkrafa að hið fyrsta yrði gengið frá því að mál þetta yrði tekið úr höndum Rafmagnsveitna ríkisins og afhent Landsvirkjun sem virkjunaraðila. Það var mjög hörð krafa, og hafði hann ýmsar kröfur uppi í sambandi við Blöndumál.

Málflutningur á þessum nótum, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson hefur hér uppi, er með slíkum ólíkindum að ég átti ekki von á því að hann teldi sér hæfa að viðhafa slíkan ræðustíl hér og slíkan málflutning. Ég hef ekki orðið var við ósanngirni af hans hálfu í málflutningi með þeim hætti sem mér fannst koma fram hér og ég vænti þess að það sé fremur af vankunnáttu hjá hv. þm. en illvilja að hann fer hér með svo staðlausa stafi í mikilsverðum atriðum eins og fram komu í hans máli. Og læt ég við það sitja þó að að mörgu fleira sem fram kom hjá honum hefði þurft að víkja.

Hv. 11. landsk. þm. lýsti því yfir í lokin að við kosningaloforð Sjálfstfl. í húshitunarmátum yrði staðið. Það stendur í þingtíðindum og við skutum vona að eftir gangi. Hv. þm. sagði í þessari umr. og hafði gert það áður, og ég heyrði raunar að formaður flokks hans, nýlega kjörinn, hefði hent sömu lummu á lofti og komið á framfæri á kappræðufundi í Hafnarfirði nýlega, að húshitunarkostnaður hefði þrefaldast að raungildi þau ár sem ég hafi gegnt ráðherrastarfi iðnrh. Hv. þm. Egill Jónsson fer með margar tölur, en hann undirbyggir þær ekki alltaf með skýrum hætti. Ég ætla ekki að fara að hafa uppi ákveðnar staðhæfingar um þetta efni, vegna þess að ég er varfærinn í sambandi við tölur og tel að þær þurfi að skoða vel, en ég teldi æskilegt að hv. þm. sýndi þennan útreikning, hvernig hann er fenginn, og kæmi því á framfæri við þénanlegan hentugleika.

Svo vill til að ég innti einn embættismann í iðnrn. eftir því hvaða raunverðshækkun mundi hafa orðið á raforkutöxtum til húshitunar á þessu tímabili, frá 1978 raunar til þessa dags. Ég fékk upplýsingar um það núna rétt fyrir umr., þó með öðrum hætti væru en ég hafði gert ráð fyrir því að ég hef litið svo til að raunverðshækkunin hafi orðið veruleg á þessum tíma, sbr. þá miklu hækkun umfram byggingarvísitölu sem Landsvirkjun fékk og sumpart tók sér á undanförnum árum. En bráðabirgðatölur sem ég fékk um þetta bera því alls ekki vitni að hv. þm. Egill Jónsson fari með rétt mál, heldur skeiki þar verulega miklu, svo ekki sé meira sagt. Raunar sé raunverð raforkunnar, miðað við byggingarvísitölu og lánskjaravísitölu og niðurgreiðsluna sem nú er, ekki öllu hærra en var 1978. En þetta tek ég með fyrirvara á meðan ég hef ekki farið nánar ofan í það. (Gripið fram í.) Já, ég skora á hv. þm. Egil Jónsson að fara yfir þessi mál og koma þeim útreikningum á framfæri þannig að það liggi þá fyrir.

Hann vék að því í sínu máli að viðmiðunartalan 2.5 falt vegið meðaltal, sem kemur fyrir í þessari þáltill., mundi valda því, ef ætti að nota hana, að ekki yrði um verulega lækkun á húshitunarkostnaði að ræða. (EgJ: Ég sagði að ef það yrði hækkun. ) Ég vil upplýsa hv. þm. um það, sem raunar kom fram í minni framsögu, að það er hitt markið, viðmiðunin við vinnuvikur, sem verður ráðandi í því dæmi sem hér er um að ræða. Ég tók það sérstaklega fram að ef það gengi eftir sem lagt er til í þáltill., þá yrði munurinn, og þá miðað við taxta Hitaveitu Reykjavíkur eins og hann var fyrir 1. febr., u. þ. b. 1.8-faldur. Það er því það sem ræður, verði þær till. sem hér er mælt fyrir að veruleika, og munar þá ekki miklu í þeim hugmyndum sem við höfum uppi, hv. 11. landsk. og ég, í þessu efni. (EgJ: Sbr. 1. lið till.) Sbr. 1. lið till.

Herra forseti. Það væri ástæða til að víkja hér að ýmsum fleiri atriðum. Meginádeiluefni þeirra hv. þm. sem hér töluðu í minn garð var að ónóg hefði verið að gert í sambandi við húshitunarmálin þau ár sem ég gegndi ráðherrastarfi. Ég get vel undir það tekið að æskilegt hefði verið að ná fram öðru og meira en varð í tíð þeirrar ríkisstj. Meginatriðið var að bæta stöðu raforkuiðnaðarins með því að skapa honum eðlilegar tekjur af orkusölu til stóriðju. Um það stóðu átökin í sambandi einnig við húshitunarkostnaðinn, sbr. einnig álit þeirrar nefndar sem vitnað er til í þáttill. og skilaði samróma áliti 28. jan. 1983 og gerði það að tillögu sinni að tekjuöflun til að ná settum markmiðum ríkisstj. í sambandi við húshitunarkostnað yrði náð fram með leiðréttingu á raforku til stóriðju. Aðrar leiðir voru þar einnig nefndar til vara á meðan ekki tækist að ná þeirri leiðréttingu fram. En þátt þingflokks Framsfl. í framhaldinu rifjaði ég upp hérna um daginn. Ég ætla ekki að fara að hrella þá hv. framsóknarmenn með því að rekja það frekar hérna því að ég sé að þeir eru svolítið ókyrrir, a.m.k. hv. þm. Stefán Guðmundsson. Hann ætti að líta í þingflokkssamþykkt Framsfl. varðandi tekjuöflun til húshitunar, sem rakin er í grg. með þessari þáltill. Hún ber vott um þann hráskinnaleik og þau vinnubrögð sem þingflokkur Framsfl. taldi sér samboðin á þeim mánuðum sem þarna um ræðir. Það er leikur sem ég vildi ekki hafa verið þátttakandi í, það segi ég satt.

En um alla þá þætti sem vikið er að efnislega í þessari till. var fjallað í tíð fyrrv. ríkisstj. Í tíð fyrrv. ríkisstj. voru stigin ákveðin skref og staðið að aðgerðum. Því er það rétt, sem ég mælti í minni framsögu, að þessi till. byggir á þeim grunni sem þá var lagður, en hvetur til og markar stefnu um nauðsynlegar áframhaldandi aðgerðir. Því hef ég ekki neitt til þess að fyrirverða mig fyrir úr fortíðinni í þessum efnum eða í tengslum við þann tillöguflutning sem ég stend hér að ásamt sjö þm. Alþb. — tillögur sem fengið hafa góðar undirtektir, sem ég þakka, frá hv. þm. sem hér hafa rætt og tjáð sig um málið.