02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2557 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er greinilegt af ræðum samstarfsmanna úr fyrrv. hæstv. ríkisstj. að einkennilegt hefur andrúmsloftið verið innan veggja þeirrar ríkisstj., þeirra samstarfsaðila sem þar áttu hlut að máli. Menn hafá heyrt hér, ekki bara í dag heldur margoft, hvernig þeir brigsla hver öðrum að þetta eða hitt sé hinum að kenna en ekki mér.

Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að hæstv. fyrrv. iðnrh. átti að hafa forgöngu í því að leiðrétta þetta sem hann ekki gerði. En hvorki Ólafur Þórðarson né aðrir framsóknarmenn geta þvegið af sér þann blett að hafa ekki fylgt því eftir að þetta næði fram að ganga. Allir þm. úr fyrrv. hæstv. ríkisstj. eru samábyrgir í þessu máli. Eða geta menn þvegið það af sér hér í umr. eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson og hver sem er raunar úr fyrrv. hæstv. ríkisstj. og þingliði hennar að hafa fellt hér margoft tillögur við afgreiðslu fjárlaga sem innifólu það að skila til baka þeim skatti sem á var lagður til þess að jafna þennan mun? Þetta gerðu þessir hv. þm. (ÓÞÞ: Hverjir bera ábyrgð á álsamningunum?) Á álsamningunum? Ég var nú ekki kominn að því. Ég skal tala um það við þig á eftir. En hvernig geta þessir menn fríað sig ábyrgð í þessum efnum sem margítrekað fella hér brtt. á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga um það að skila þessu fjármagni til réttra aðila? Ekki einn einasti af þingliði fyrrv. ríkisstj. getur fríað sig af þessu.

Á árinu 1983 átti að verja til jöfnunar í þessum þætti og lækkunar húshitunarkostnaðar 315 millj. kr. en það urðu aðeins 34 eða 35 skv. ákvörðun fyrrv. ríkisstj. Svo koma þessir ágætu hv. þm. hér upp og bera hvor annan sökum um að hinn sé eitthvað sekari en gagnaðilinn. Þeir eru báðir jafnsekir í þessu og það verður ekki af þeim þvegið. Og hvað sem hækkuninni á orkuverði til ÍSALs líður geta þessir menn ekki þvegið þann smánarblett af sér að hafa tekið þá peninga sem búið var að skattleggja fólk fyrir til þess að jafna húshitunarkostnað. Þessir baggar sem fólk verður nú að bera væru ekki eins þungir hefðu þessir hv. þm. skilað þeim peningum sem þeir áttu að gera til réttra aðila til þess að lækka þennan kostnað.

Ég hef hins vegar ekki á móti því að til viðbótar því sem búið er að skattleggja fyrir til lækkunar á orkuverði og húshitunarkostnaði komi líka hækkun orkuverðs til ÍSALs og það verði nýtt til hins sama. En fjármagnið var fyrir hendi, þessir hv. þm. bera ábyrgð á því að það var ekki notað til réttra hluta.

Um leið og hv. 5. þm. Austurl. er farinn úr ráðherrastólnum eftir að hafa margfellt brtt. frá þáv. stjórnarandstöðu um að skila þessum peningum til baka er það helber sýndarmennska að rjúka upp nú við afgreiðslu fjárlaga í des. og bera fram sams konar till. og við gerðum í stjórnarandstöðu af því hann er sjálfur kominn í stjórnarandstöðu, sams konar till. og hann margfelldi sem ráðh. Þarna hafa menn skoðanaskipti eins og að hafa buxnaskipti. Slíkir þm. verða ekki teknir alvarlega af almenningi. Svo augljós er sýndarmennskan sem fram kemur í slíkum málflutningi og slíkum verknaði að almenningur sér svo í gegnum hana að enginn getur í raun og veru tekið hann alvarlega. — Nema því aðeins — og það vona ég að sé því ekki er nú öllum alls varnað — að nú hafi menn loksins séð réttlætið og ætti að fylgja því. Sé svo er það auðvitað vel þótt seint sé.

Ég ætla ekkert að óska þess að hv. 5. þm. Austurl. komist aftur í ráðherrastól til að geta látið á það reyna hvort hann hefur breyst. Ég er ekkert sannfærður um það. En ég vona svo sannarlega að núv. hæstv. iðnrh. standi betur í stykkinu en forveri hans úr sama kjördæmi. (EJ: Er það eitthvað vafamál?) Ja, enn höfum við ekkert séð um það. Það er best að bíða með allar yfirlýsingar þangað til að menn sjá hvort hann verður eitthvað betri. (EJ: Er ekki búið að hækka raforkuverðið hjá ÍSAL?) Það er út af fyrir sig rétt, búið er að hækka það. En ég er síður en svo ánægður með það. Það er ekki nægilegt eitt og sér. Núv. hæstv. iðnrh. og hv. þm. Egill Jónsson stóðu að því að taka ófrjálsri hendi peninga sem búið var að leggja á fólk til þess að jafna þennan mun. Þannig að hv. þm. Egill Jónsson er enn í sömu sökinni og hinir, bæði hæstv. iðnrh. núv. og hæstv. iðnrh. fyrrv., allir úr sama kjördæminu, þrenningin öll. Allir eiga þeir þetta sammerkt. (HBl: Ekki Egill.) Það er rangt, hv. þm. Þú fylgist ekki með, enda ekki eðlilegt, maður sem sjaldan sést hér innan dyra. Það er ekkert við því að búast að þér sé kunnugt um allt það sem hér er að gerast. Og hv. þm. verður virt það til vorkunnar. (Gripið fram í.) Það er rétt. Það er ýmislegt að gera á þeim bæ nú. Mikið stendur til.

En svona líta þessi mál út fyrir almenningssjónum að hér eru menn að leika tveim skjöldum. Ég vil treysta því og trúa þangað til að ég sé annað að hæstv. núv. iðnrh. auðnist að stíga það gæfuspor að gæta hér meira réttlætis en forverar hans hafa gert og hann og hv. þm. Egill Jónsson gerðu við afgreiðslu fjárlaga í des. s.l.