02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

104. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var aðeins örstutt vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið. Sú tilsögn sem ég leitaðist við að veita hv. þm. Ólafi Þórðarsyni virðist nú ekki hafa borið þann árangur enn sem ég vænti. Ekki var það að marka af hans málflutningi varðandi orkuverðshækkanirnar. Og að fara að blanda einhverju neitunarvaldi inn í þau efni held ég að sé nú nokkuð langsótt.

En það væri kannske ástæða til að spyrja í þessu sambandi: Hvað hefur breyst í afstöðu hv. þm. til þessara mála ef hann taldi hækkanir Landsvirkjunar í tíð fyrrv. ríkisstj. svo forkastanlegar en hefur engin orð uppi um þær hækkanir sem gengu fram í upphafi starfsferils núv. ríkisstj., 19% hækkun 3. júní, 31% að auki 1. ágúst? Um það hafa engin stór orð hér fallið. Hann vildi skýra afstöðu Framsfl. til einhliða leiðréttingar á raforkuverði til ÍSALs með þeim hætti að ekki hafi legið fyrir hvað bar á milli. Það var atveg ljóst hvað bar á milli. Auðhringurinn tók það skýrt fram í sínum skeytum að hann var ekki reiðubúinn til að leiðrétta orkuverðið nema hafa það þá á hreinu að fá ekki minna á móti í kröfum sér í hag. Inn á það var ekki gengið í minni tíð sem ráðh.

Og hv. þm. spurði: Hvers vegna fékk álviðræðunefndin ekki að tala við Alusuisse? Mig undrar satt að segja talsvert að slíkar spurningar skuli koma fram þegar það á að hafa verið öllum ljóst og fór ekki leynt að fulltrúar Alusuisse neituðu að fyrra bragði að halda áfram viðræðum við álviðræðunefndina og skelltu á hana hurðum og aflýstu við hana viðræðum. Aflýstu einhliða fundi sem ákveðinn hafði verið 3. mars 1982. Þetta ætti hv. þm. að rifja upp.

Hv. þm. Eiður Guðnason leggur mér hér orð í munn sem ég mælti ekki. (Gripið fram í.) Hann taldi að ég væri hér að gera mönnum upp sakir í sambandi við afstöðu til Alusuisse. Ég þarf ekki að búa neitt til í þeim efnum. Ég er ekki að fullyrða neitt um það hvað menn hafi gert af ásetningi og hvað valdi afstöðu manna af öðrum ástæðum án þess að menn geri sér grein fyrir því. Ég bendi hv. þm. að lokum aðeins á það að líta í eigið flokksmálgagn og lesa þar greinabálk sem birtist í öndverðum desember 1980 undir fyrirsögninni: Álverið er leiðarljós.