02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

Þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég get tekið undir að æskilegt sé og nauðsynlegt að þskj. séu á íslenska tungu. En á hinn bóginn vitum við þm. að ýmsu er dreift hér meðal þm. sem er á erlendum tungumálum. Mér finnst svolítið erfitt að slá þeirri reglu fastri að þm. geti ekki fengið plögg án þess að þýðingarskylda hvíli á rn. Það hefur auðvitað mikinn kostnað í för með sér, svo ég tali nú ekki um tíðindi af Norðurlandaþingum sem er ekkert smáverk að snúa yfir á íslenska tungu. Þess vegna álít ég að þarna verði að hafa hóf á. Ég tek undir með hæstv. forseta að það sé eðlilegt að verða við beiðni varðandi þessa skýrslu, en ég held að ógjörningur sé að slá því föstu að ráðh. megi ekki biðja um að plöggum sé dreift meðal þm. nema þau séu á íslenska tungu. Það mundi einfaldlega valda því að þm. fylgdust ekki jafnvel með og ella nema slíku fylgdi óhæfilegur kostnaður.