02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

109. mál, ilmenitmagn í Húnavatnssýslum

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. á þskj. 136 um framhaldsrannsóknir á ilmenitmagni í Húnavatnssýslum, eiginleikum þess og vinnsluhæfni. Till. þessi var flutt á síðasta þingi, en náði ekki afgreiðslu þá. Till. hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram frekari rannsóknir á þeim ilmenitsvæðum, sem þekkt eru í Húnavatnssýslum, og leita nýrra svæða þar sem titanríkt basískt berg kynni að vera í verulegum mæli.

Skal rannsóknin beinast að magni titans og annarra verðmætra efna í berginu og vinnsluhæfni þeirra. Niðurstöðum rannsóknarinnar skal fylgja frumáætlun um arðsemi, vinnslu, mannaflaþörf, fjárfestingarkostnað, markaðshorfur svo og önnur atriði sem rannsóknaraðilar telja máti skipta.“

Till. um sama efni var flutt á síðasta þingi, en fékk ekki þá umfjöllun sem tilskilið er. Það ilmenit sem hér hefur fundist inniheldur titan, sem er verðmætur léttur málmur sem m.a. er mikið notaður sem íblöndun við aðra málma. Langstærsti hlutinn fer þó til framleiðslu á málningarvörum þar sem við þekkjum það vel. Einnig er titan notað sem einangrun á suðuþráð og karbitþráð svo og við pappírsvinnslu, plastvinnslu o.fl.

Með flutningi þessarar þáltill. vilja flm. vekja athygli á hugsanlegum möguleikum til vinnslu þessa efnis. Þáltill. fjallar fyrst og fremst um rannsóknir á magni titans og annarra málma sem samhliða vinnslu þess væri hagkvæmt að nýta.

Vitað er um nokkra staði í Húnavatnssýslu þar sem ilmenit er að finna, en ilmenit er titansteind sem er helsta titanhráefnið í heiminum sem unnið er úr. Ilmenit er unnið bæði úr bergi og sandi og er það aðallega í basísku djúpbergi.

Þeir staðir sem nú eru þekktir í Húnavatnssýslum þar sem ilmenit er að finna eru Steinsvað í Víðidalsá, Urðarfell upp af Melrakkadal í Víðidal, Hólar og Skessusæti austan og norðan Víðidalsfjalls, Deildarhjalli í Vatnsdalsfjalli og fleiri staðir. Þær takmörkuðu rannsóknir sem fram hafa farið á þessum stöðum benda til þess að þar geti verið um mikið magn af basísku bergi að ræða, og hafa frumrannsóknir sýnt athyglisvert magn af titani, auk málmsteinda, í berginu.

Árið 1976 fól Framkvæmdastofnun ríkisins Baldri Líndal efnaverkfræðingi að kanna tilvist málmríkra steinefna í Víðidal. Í því sambandi voru gerðar efnagreiningar og málmskiljutilraunir á sýnum.

Árið 1978 var gefin út könnunarskýrsla Iðnþróunarstofnunar Íslands og Orkustofnunar um íslenskt ilmenit. Fram kemur í skýrslunni að þótt hlutfall titans og annarra verðmætra efna í íslensku ilmeniti sé e. t. v. lágt miðað við það sem best gerist erlendis, þá sé nú tekið til vinnslu berg sem sífellt minna innihald hefur verðmætra efna með hverju árinu sem liður, þar sem auðugustu námurnar eru nýttar fyrst og verið er að taka til vinnslu námur sem ekki þóttu vinnsluhæfar áður.

Í grg. er greint frá dæmum þar um.

Þá virðast rannsóknir sýna að á Íslandi sé titanauðugt berg í allmiklum mæli, einnig virðist kornastærð, aukaefni, harka bergsins o.fl., sem máli skiptir varðandi vinnsluhæfni, hagstætt íslensku ilmeniti.

Í skýrslu Orkustofnunar og Iðnþróunarstofnunar um íslenskt ilmenit frá 1978, sem áður er vitnað til, segir m.a.:

„Steinsvað. Gabbró sést á smábletti undir bní á Víðidalsá hjá Lækjamóti. Berg þetta er grófkornótt og inniheldur yfir 3% titanoxíðs. Sýni úr þessu bergi hefur verið rannsakað nánar af Baldri Líndal ... Titaninnihald reyndist þá samsvara 4.4%, sem tókst að auka við þyngdarskiljun ákveðinnar kornastærðar í um 25% titanoxíðs, en talið var að þar mætti hæglega gera betur. Þarna við Steinsvað nær gabbróið rétt upp fyrir vatnsborð Víðidalsár. Útbreiðsla þess nærlendis er óþekkt, þar eð berg er allt hulið þykkum lausum jarðlögum. Hins vegar eru góðar líkur á að kanna mætti tilvist eða útbreiðslu gabbrósins þarna með jarðeðlisfræðilegum aðferðum.“

Með tilkomu þeirrar miklu orkuvinnslu sem nú er unnið að í Húnavatnssýslu og nálægra tveggja þéttbýlisstaða, þ.e. Hvammstanga og Blönduóss, og þéttbýlla sveita virðast ýmis skilyrði vera fyrir hendi til framkvæmda og framleiðslu ef þær rannsóknir, sem þáltill. þessi gerir ráð fyrir að fram fari, leiða í ljós að hagkvæmt sé að hefja vinnslu titans og annarra verðmætra efna á þeim stöðum sem þáttill. fjallar um.

Það má koma hér fram að ég geri mér ekki ljósa grein fyrir því hversu álitlegan kost hér er um að ræða. Þó tel ég víst að hann sé það álitlegur að óskynsamlegt sé annað en að rannsaka sem gaumgæfilegast þá staði sem hér um ræðir í þessari þáltill.

Það að lagt er til að rannsóknir fari fram á nefndum jarðefnum í því kjördæmi er við flm. till. erum fulltrúar fyrir er ekki óeðlilegt. En við minnum einnig á aðra mögulega staði, svo sem á nokkra staði á Austurlandi, sem sjálfsagt og eðlilegt er einnig að verði athugaðir þannig að myndin öll verði sem skýrust að rannsókn lokinni.

Það er að sjálfsögðu ástæðulaust að benda sérstaklega á mismun þess að vinna dýrmæt hráefni til iðnaðarframleiðslu úr íslenskri jörð eða flytja hráefnið óravegu hingað til vinnslu, eins og nú er gert. Okkur Íslendingum er það mjög nauðsynlegt að rannsaka og skoða þá kosti sem landið hefur að geyma. Íslendingar verða því aðeins efnahagslega sjálfstæð þjóð að takast megi að afla auðs úr því sem okkar eigið land og landhelgi hefur að geyma, án þess þó að ganga um of á stofninn sjálfan. Við verðum fyrst og fremst að læra að lifa af vöxtum þess sem landið hefur að gefa. Þannig búum við best í haginn fyrir afkomendur okkar.

Þótt nokkur vitneskja sé þegar fyrir hendi um verðmæt efni í jörðu hér á landi ber okkur að leitast við að bæta við þá vitneskju með frekari rannsóknum. Við þurfum að vinna að aukinni verðmætasköpun í landinu, sem byggist á því sem það hefur að gefa. Það er með þessi grundvallaratriði í huga sem flm. flytja þessa þáltill. og vonast til að hún njóti skilnings og fyrirgreiðslu hér á Alþingi.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til atvmn.