02.02.1984
Sameinað þing: 42. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

118. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil taka mjög undir efni þessarar till., en langar aðeins til að spyrja hv. 1. flm. nokkurra spurninga um leið og ég vek athygli á þeim málum en það eru tollalækkanir á efni fyrir myndlistarmenn.

Í grg. fyrir till. segir á bls. 2, með leyfi forseta: „Ísland er eitt af fáum ríkjum í flokki svokallaðra þróaðra ríkja sem ekki hefur gerst aðili að sáttmála þessum. Ísland hefur þó í reynd framfylgt öllum ákvæðum Flórens-sáttmálans frá 1950 að undanteknu ákvæðinu um aðflutningsgjöld af vísindatækjum.“

Nú hef ég reynt að fara í gegnum það sem ég hef getað aflað mér úr sáttmálanum sjálfum og ég skal viðurkenna að það er dálítið óljóst hvort vörur sem t.d. myndlistarmenn nota koma beinlínis undir ákvæði sáttmálans. Þó þykir mér það trúlegt vegna þess að hér er t.d. talað um að í viðaukabókun sem gerð var í nóv. 1976 nær tollalækkun yfir hljóðfæri og annan búnað til tónlistariðkana. Þá væri óeðlilegt að jafnsjálfsagðir hlutir eins og efni myndlistarmanna væri ekki þar með. Nú hef ég spurst fyrir um hvernig þessu sé háttað hjá tollstjóraembættinu. Þar hafa komið upplýsingar í þá veru að t.d. er 35% tollur á litum listmálara og 30% vörugjald. Á römmum er 17% almennur tollur og á teiknipappír 15%, vörugjald að vísu ekkert þar. Málaratrönur með 20% almennum tolli og málarapenslar 17%. Eins og mönnum er kunnugt reiknast þessi tollur af vöruverði, flutningsgjaldi, vátryggingu og öðrum kostnaði sem fer í að koma þessum vörum til landsins.

Það hefur um langt skeið verið baráttumál myndlistarmanna að fá þessar tollalækkanir í gegn. Það kann að vera að sáttmálinn snúist meira um flutning listaverka milli landa en mér þætti þá vænt um að 1. flm., hv. þm. Gunnar G. Schram, léti aðeins í ljós álit sitt á þessu efni því að ég er langt frá því að vera alveg viss hvort hægt er að benda á ákvæði í sáttmálanum sem fjallar beinlínis um þetta efni. En þess má geta að í niðurstöðum nefndar sem skilaði álitsgerð um starfsgrundvöll listamanna í nóv. 1982 skv. þáltill. sem samþykkt var á hinu háa Alþingi er ein till. nefndarinnar einmitt í þá veru að fara fram á niðurfellingu á gjöldum af efnisvörum myndlistarmanna og er þetta atriði eitt af þremur meginbaráttumálum þeirra sem þá nefnd skipuðu.

Ég vil að öðru leyti eins og ég sagði áðan lýsa stuðningi við þessa till. þó að mér þyki reyndar dálítið undarlegt að meira hefur borið á því nú en oft áður í þinginu að stjórnarþm. komi með tillögur um mál sem viðkomandi ráðh. og ríkisstj. væri í lófa lagið að gera hér og nú. En það er sama hvaðan gott kemur og auðvitað alveg sjálfsagt að staðfesta þennan sáttmála. Ég mun því veita því máli fylgi mitt en vildi sem sagt benda á þessi réttindamál myndlistarmanna.