26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma upp og skal lofa að verða stuttorður. Þetta verður frekar stutt fsp.

Þessi umr., sem nú á sér stað, fer fram í skugga þeirrar staðreyndar að vanda sjávarútvegsins hefur síst verið lýst með of dökkum litum. Nú er þegar komið að þeim kaflaskilum í íslenskri efnahagssögu sem hæstv. ríkisstj. lofaði í sumar. Spurningin er núna: Er þessi ríkisstj. nógu sterk til að standast þann þrýsting sem nú er að myndast? Í því tilefni vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, spyrja hæstv. fjmrh. eftirfarandi spurningar:

Víðs vegar um landið eiga fyrirtæki í sjávarútvegi í miklum erfiðleikum núna. Nægir þar að nefna Patreksfjörð, Eyrarbakka og Stokkseyri. Erfiðleikar þessir eru auk skulda alger rekstrarfjárþurrð. Hyggst hæstv. fjmrh. beita sér fyrir aðstoð við þessi fyrirtæki í formi fjárveitinga eða annarra ívilnandi aðgerða á vegum ríkissjóðs?