06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

153. mál, höfundalög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt í eðli sínu ekki ósanngjarnt að gjald sé lagt á hljóðbönd og myndbönd, sem renni síðan til listamanna og eigenda flutningsréttar. Hins vegar hefur nú nýverið gengið hæstaréttardómur í Bandaríkjunum, sem mikla athygli hefur vakið, þar sem segir beinlínis að mönnum sé heimilt að taka upp efni úr sjónvarpi og annars staðar til einkanota og þá væntanlega án þess að nokkurt sérstakt gjald komi þar fyrir. Þessu una þeir illa sem hagsmuni hafa af framleiðslu kvikmynda vestur í Hollywood og hafa ekki farið neitt dult með það og munu ætla að beita áhrifum sínum á bandaríska þingmenn til að fá löggjöf breytt, svo sem tíðkast þar vestan hafs.

Hér er auðvitað um að ræða nýjan skatt á almenning. Þetta gjald hefur í för með sér að hljóðbönd og myndbönd hækka í verði. Hversu mikið veit enginn. Eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. áðan verður gjaldið ákveðið í reglugerð, þannig að ekkert er um það vitað hversu mikil skattheimta verður hér á ferðinni. Ekki væri nú ófróðlegt að fá að heyra viðbrögð hæstv. fjmrh. við þessu nýja gjaldi. Hann er ekki staddur hér í deild núna. Hæstv. fjmrh. hefur margsinnis lýst því yfir að hann mundi segja af sér embætti verði nýir skattar lagðir á.

Hér er auðvitað ekki um annað að ræða en nýjan skatt. Ég endurtek að að vísu veit enginn enn hversu hár hann verður. Ég held að þessari gjaldtöku ætti að haga með þeim hætti að lækka samsvarandi aðflutningsgjöld á myndbönd, þannig að þau hækki ekki í verði frá því sem nú er. Þannig mun ég styðja að frv. nái fram að ganga þannig að aðflutningsgjöldin verði lækkuð sem nemur þessu gjaldi, sem renna á til listamanna og flytjenda, þannig að ekki verði um hækkun til almennings að ræða.

Nú er það alkunna að verðlag á hljóðböndum og myndböndum er allt að því tvöfalt hér á landi miðað við. það sem er í löndunum í kringum okkur. Á tímabili var það svo að fá mátti þrjár myndbandspólur í Danmörku fyrir það sem ein kostaði hér. Það hefur aðeins breyst eftir að vörugjald var fellt niður, en engu að síður er gífurlegur verðmunur á þessu hér og erlendis. Þess vegna held ég að ekki sé á það bætandi að gera þessa hluti enn þá dýrari en þeir hafa verið fram til þessa. Og ég vil eindregið mælast til þess, og sjái sú nefnd sem frv. fær til meðferðar sér ekki fært að taka þá till. upp mun ég flytja hana sérstaklega, að þessi gjaldtaka verði ekki til að hækka verðið á þessum hlutum til almennings. Raunar væri nú fróðlegt, virðulegi forseti, ef hægt væri að fá hæstv. fjmrh. hér stundarkorn inn í Ed. til að beina til hans einni spurningu sem ég vakti máls á áðan. (Forseti: Ég hef þegar látið athuga það.) Já takk.

Önnur atriði þessa máls, sem hér er fjallað um, get ég og við í Alþfl. út af fyrir sig lýst stuðningi við. Þarna eru gerðar eðlilegar breytingar. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. áðan, að falsanir á þessu sviði eru stóriðja glæpamanna sem gefa þeim mjög mikið í aðra hönd. Ég held að það sé nú ekki ástæða til að ætla að mikið sé um slíka starfsemi hér, en erlendis er þetta stóriðja á vegum skipulagðra glæpasamtaka, þar sem velt er milljónum og aftur milljónum dollara, og því miður hefur tæknimönnum ekki tekist að finna neinar leiðir til að koma í veg fyrir þetta. Þetta er auðvitað ekkert annað en venjulegur þjófnaður.

Það kann að vera svo, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. sé ekki í húsinu. (HS: Hann situr að tafli.) Já, það væri þá kannske rétt að óska eftir að hann gegndi þingskyldu sinni um stund. (Gripið fram í: Hann kemur í kvöld.) Já, ekki dreg ég það í efa.

En ég held að það sé alveg meginatriði þessa máls og raunar kjarni að hér er um nýjan skatt að ræða. — Já, það var, hæstv. fjmrh., vegna frv. til l. um breyt. á höfundalögum að ég vildi spyrja um afstöðu hæstv. fjmrh. til þessa gjalds. Nú er ljóst að þetta gjald, sem reiknað er með að lagt verði á myndbönd og hljóðbönd, er ekkert annað en nýr skattur á almenning. Og þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh.: Ætlar hann að greiða atkv: með því að nú verði lagður nýr skattur á fólkið í landinu, þá sem nota myndbönd og hljóðbönd, sem er verulegur hluti fólks, einkanlega kannske ungt fólk? Ætlar hæstv. fjmrh. að styðja þetta nýja gjald? Ég minnist þess, og það gera sjálfsagt fleiri, að hafa heyrt hann segja að hann mundi fremur segja af sér en stuðla að því að á væru lagðir nýir skattar. Ég minnist þess líka að hafa heyrt hæstv. fjmrh. segja í sjónvarp s.l. mánudag við fréttamann: Hefur þú nokkurn tíma vitað að ég stæði ekki við orð mín? Og nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Ætlar hann að greiða atkv. með þessu nýja gjaldi, sem lagt verður á almenning samkv. frv.?