06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2575 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

153. mál, höfundalög

Kari Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég lýsi samþykki mínu við þetta frv. Það er stigið mikið framfaraskref ef það verður samþykkt. Hins vegar tek ég undir þær efasemdir sem upp hafa komið hér varðandi skattlagninguna. Það var fyrir nokkru að rætt var um mál skyld þessu. Það var rekstur kvikmyndahúsa. Það er ljóst að þau hafa einkum goldið fyrir þá sjóræningjastarfsemi sem á sér stað í fjölföldun myndbanda. Er það mjög bagalegt og hvernig þeim málum hefur verið háttað. Þar að auki er starfsemi þeirra skattlögð svo hrikalega að engu tali tekur. Aðgöngu-, miðar í kvikmyndahús eru skattlagðir um 35.5%, sem er mesta skattlagning í veröldinni. Fyrir nokkru munu Samtök kvikmyndahúsaeigenda hafa sent fjmrh. erindi um það þar sem óskað var eftir að söluskattur yrði felldur niður. Mig langaði af þessu tilefni að spyrja að því hvort það erindi hafi verið athugað sérstaklega, en vissulega er þetta mál tengt dagskrármálinu.

Ég vona að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu til þess að hægt sé að koma sem fyrst í veg fyrir þá sjóræningjastarfsemi sem átt hefur sér stað. Og ég vænti þess að frv. verði afgreitt á þann hátt að atmenningur þurfi ekki að þola meiri skattbyrðar en verið hefur og tek undir það með hv. 5. þm. Vesturl. að vel er athugandi að samþykkja þessa skattlagningu svo framarlega sem tryggt er að ríkið lækki sína skatta að sama skapi. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. svari þessu.