06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

153. mál, höfundalög

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég kem í stólinn fyrst og fremst til að fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. var að gefa hér um endurskoðun tolla- og skattalaga, að hún væri langt á veg komið og yrði unnt að leggja frv. fyrir Alþingi á næstunni. Hæstv. ráðh. hefur margsinnis lýst því yfir, m.a. úr þessum ræðustól, að hann hygðist láta endurskoða allan þann frumskóg tolla- og neysluskatta sem er með þeim ósköpum að sumar brýnustu lífsnauðsynjar eru kannske tollaðar og skattaðar um yfir 200%. Vara kostar á hafnarbakkanum 100 kr. en þegar búið er að leggja á hana toll og vörugjald og síðan álagningu kaupmannsins og svo söluskattinn ofan á allt saman fer vöruverðið kannske yfir 400 kr. Varan kostar komin til landsins 100 kr., kaupmaðurinn hirðir eitthvað í kringum 100, kaupmaður og heildsali ca. 50%. Þetta leggst ofan á öll þau gjöld sem þeir verða að reiða af hendi og síðan kemur söluskatturinn. Neytandinn borgar 400 kr., ríkið fær 200 kr. en kaupverðið er 100. Það er þetta mál sem hæstv. fjmrh. hefur verið að láta kanna að undanförnu og ég hef svo sannarlega reynt að stuðla að því og við í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar höfum unnið mikið að því með rn., Þjóðhagsstofnun og öðrum opinberum aðilum að reyna að komast til botns í þessu máli.

Það sem hér er verið að ræða um er auðvitað ákveðið vandamál á sviði menningarmála og auðvitað verðum við að finna einhverja lausn á því, eins og hæstv. ráðh. hér sagði. Hvort það verður kallaður sérstakur skattur eða eitthvað slíkt og hvort við hækkum eða lækkum í verði segulbandsspólur og þessi tæki, að er einmitt eitt af því sem verið er að athuga núna. Ég vildi helst ekki þurfa að taka þátt í því að rífast um það eða gera það að stórmáli á þessari stundu. Þetta hangir allt saman. Það er verið að vinna að þessu öllu og því fagna ég og vona að sem flestir eða kannske allir hv. þdm. geti tekið undir það.