06.02.1984
Efri deild: 47. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2586 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

150. mál, fæðingarorlof

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna eindregið þessu frv. og vonast til að það fái stuðning á þessu þingi og að ekki verði dregið úr hófi fram að afgreiða það því að þetta er mjög brýnt hagsmunamál kvenna og barna. En þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem um það mun fjalla ætla ég ekki að hafa þetta mál mjög langt.

Síðasti hv. ræðumaður færði hér nokkur rök fyrir því að heimavinnandi foreldri verði ekki fyrir tekjutapi vegna fæðingar. Við eigum eflaust eftir að heyra það að heimavinnandi húsmæður verði ekki fyrir tekjutapi við að eignast börn vegna þess að þær séu ekki vinnandi. Þetta er mjög dæmigert fyrir mat á störfum heimavinnandi húsmæðra. En þær eru að vinna að bústörfum og ber að meta það vinnu. Og á meðan þær eru að fæða barn hljóta þær að verða fyrir verulegri vinnuskerðingu við sín heimilisstörf og þurfa aðstoð. Ekki halda menn að þær sitji allan daginn með hendur í skauti sér. Þess vegna finnst mér það líka mjög brýnt að þær verði þessara réttinda aðnjótandi og konum verði ekki mismunað eftir því hvort þær eru útivinnandi eða heimavinnandi.

Eins og við vitum mæta vel taka sveitakonur þátt í bústörfum. Það vill nú svo til að ég var einmitt búkona í sveit þegar ég átti mitt síðasta barn. Ég veit mæta vel að þær sem unnu úti höfðu þennan rétt og fengu borgað frá ríkinu. En af því að ég vann við bústörf átti ég engan rétt. Þetta eru málefni sem ég held að konur skynji mun betur en karlmenn. En nú sé ég að þeim er farið að fjölga hér inni. Ég taldi þm. hér áðan og af 20 þm. í þessum sal voru fjórir og stundum fimm karlmenn hér inni, en þær þrjár konur sem eiga hér sæti sátu allan tímann. Þetta er dæmigert. Þetta á sér oft stað þegar verið er að tala um kvennamál. En þetta er, ekki bara mál okkar kvenna. Karlmenn eiga þátt í því að við ölum okkar börn og þeir eiga að bera ábyrgð á því líka. Ég vonast til þess að heyra álit fleiri karlmanna hér en því miður er tíminn farinn að þrengjast því að þessi fundur hættir kl. 4. En látið þið til ykkar heyra og takið afstöðu til þessa máts, ekki að drepa því á dreif með því að fresta því þangað til á næsta þingi.

Það kom fram hjá hv. flm. að millistigið yrði að fæðingarorlofið yrði lengt í fjóra mánuði. Það er aðeins um einn mánuð að ræða í viðbót við núverandi lög ásamt því að þarna yrði til viðbótar tekið tillit til allra kvenna, það yrði ekki skilið á milti heimavinnandi og útivinnandi húsmæðra í þessu sambandi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri.