06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2596 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Því miður þá heyrði ég ekki nema hluta af þessari umr., en varðandi þau orð sem hv. 5. þm. Reykv. lét hér falla vil ég að eftirfarandi komi fram:

Það mun hafa verið í nóv. að stjórnarskrárnefndin var kvödd saman til fundar, og verkefni nefndarinnar var að kjósa nýjan formann í stað Gunnars heitins Thoroddsens. Sá hv. þm. sem ég nefndi lagði til að formannskjörinu yrði frestað. Að lokum voru fulltrúar þeirra flokka sem ekki eiga aðild að ríkisstj. sammála um að leggja ekki stein í götu þess að nýr formaður yrði kjörinn. Þar með var þetta mál afgreitt.

Eftir að ég hafði verið kjörinn formaður í nefndinni ræddum við stöðu málsins. Varð að samkomulagi í nefndinni að mér var falið sem formanni að skrifa öllum þingflokkum, bæði þeim fjórum þingflokkum sem eiga aðild að nefndinni og sömuleiðis þeim tveimur þingflokkum sem hafa bæst við síðan og senda skýrslur stjórnarskrárnefndar með ósk um að hver þingflokkur fyrir sig færi yfir þessar skýrslur og gerði sínar aths. Jafnframt var óskað eftir því í því bréfi sem ég skrifaði til þingflokkanna allra að þessi vinna yrði innt af hendi sem fyrst.

Það hefur ekki komið svar frá einum einasta þingflokki. Þeir eru því allir á sama róli hvað þetta snertir og þar verður ekki á neinn hallað. Eftir sem áður stendur að þess er óskað að yfir þetta verði farið þannig að stjórnarskrárnefndin geti farið yfir aths. þingflokkanna og reynt að ná samkomulagi eða ræða allar þær aths. sem þar koma fram.

Á fundi stjórnarskrárnefndar var jafnhliða rætt um önnur störf nefndarinnar, m.a. að vinna að undirbúningi tillagna um persónukjör. Það kom einnig fram í nefndinni ósk um að fyrrv. starfsmaður nefndarinnar ynni að þessum tillögum, en við það að hann var kjörinn í nefndina féll niður hans umboð sem starfsmanns. Hann tók sér umhugsunarfrest í þeim efnum. Ég talaði við hann einum tvisvar sinnum í desembermánuði og það er tiltölulega stutt síðan hann lýsti yfir því að vegna anna og vegna annarrar vinnu, sem hann hefur tekið að sér, gæti hann ekki bætt þessu á sig. Ég hef því verið að reyna að útvega mann í þá vinnu. — En það var tekið fram á þessum eina fundi nefndarinnar að nefndin yrði ekki kölluð saman fyrr en lægju fyrir svör frá þingflokkunum, a.m.k. einhverjum þeirra, og það hefur engin ósk komið fram um að nefndin væri kölluð saman. Í raun og veru kemur fram í orðum hv. 5. þm. Reykv. allt að því ásökun vegna þess að nefndin sé ekki að vinna, hún hafi ekki verið kölluð saman til fundar. Þetta kemur mér algerlega á óvart.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða hér efnislega um þetta mál. Um það hefur verið rætt. Ég tel mikla nauðsyn bera til að þingflokkarnir fjalli um málið. Formenn þingflokkanna reyna að bræða saman sjónarmið hver innan síns flokks. Við vitum að hér er um mikið ágreiningsmál að ræða á milti þéttbýlis og strjálbýlis. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vil vera í þeim hópi sem telur að nauðsynlegt sé að ná sáttum í þessu máli, nauðsynlegt sé að viðurkenna þær miklu breytingar sem hafa orðið á búsetu í hinum einstöku kjördæmum og taka mið af þeim jafnframt því að standa vörð um rétt strjálbýlis. Það er rétt, sem fram hefur komið í ræðum nokkurra manna, að það er fleira sem þarf að ræða um í þessu sambandi en vægi atkvæða. Og það hefur verið gert í stjórnarskrárnefndinni allt fram til þessa dags. Ég sé ekki að slíkar umræður sem þessar umfram dagskrárumræðu þjóni því að við finnum nokkra lausn á þessu máli. Ég held að hitt sé miklu skynsamlegri leið, að þingflokkar allir gefi sér tíma til að ræða skýrslu stjórnarskrárnefndarinnar og frv. sem lagt var fram og samþykkt á síðasta þingi og við reynum svo að ná samstöðu í málinu.

Ég legg á það mikla áherslu að samstaða náist. Það er viss ágreiningur, eins og t.d. um eignarréttarákvæði, einkum á milli Sjálfstfl. og Framsfl. annars vegar og Alþb. og Alþfl. hins vegar. Náist ekki samkomulag um þessi ákvæði gæti svo farið að menn næðu samkomulagi um sérstaka bókun, sérstakan skilning og álit á ákveðnum greinum, þannig að leiðir okkar gætu legið saman um flutning frv. á Alþingi og afgreiðstu þess þrátt fyrir að um einhvern ágreining sé að ræða. Á þetta legg ég áherslu. Þegar þetta hefur verið reynt til þrautar er auðvitað komið að því að sá meiri hluti sem skapast verður að taka afstöðu og flytja málið ef minni hluti vill ekki eiga samleið í flutningi málsins á þingi.