06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna vinnu í þingflokkum.

Það er rétt að þingfokki BJ barst þykkur bréfabunki í jólabaksturstíðinni fyrir jól og með óskum um að við gerðum grein fyrir aths. okkar í stjórnarskrármálinu fyrir 1. febr. Nú er það svo að BJ hefur afskaplega margt að segja í stjórnarskrármálinu og við höfðum raunar ákveðið að bíða þess að stjskrn., sem ákveðið hefur verið að kjósa í báðum deildum, og n., sem sömuleiðis hefur verið ákveðið að kjósa um þingsköp, hæfu störf og á þeim vettvangi m.a. ætluðum við að gera grein fyrir skoðunum okkar. Við töldum það betri leið en að setjast niður og skrifa. Það er betra að hafa um það umr. Ef ekki er önnur leið að koma þessu til skila en að skrifa um það grg. mun það væntanlega verða gert.

Ég vona að þetta mál komist í eðlilega umr. Það hefur haft undarlegan feril. Því var ýtt úr vör hérna um miðnæturskeið rétt fyrir jólin og skýtur núna upp kollinum. Það eru greinilega í þessu þungir undirstraumar. En þessi mál eiga skilið að vera til umr. á dagskrá og í dagsljósi því það er þarna af mjög mörgu að taka, m.a. því hvort það sé fólk eða fermetrar sem hafa kosningarrétt.