06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. af því hér hefur borið á góma aðild eða öllu heldur aðildarleysi hinna nýju þingflokka að stjskrn.

Þau samtök sem ég er fulltrúi fyrir hér á þingi hafa ekki sett á oddinn þau mál sem hér hafa verið til umr., en ég vil lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst sjálfsagt að stjskrn. verði endurskipulögð með tilliti til hinna nýju þingflokka og kannske ekki síst með tilliti til ummæla sem ég minnist að voru viðhöfð þegar drög að þeim stjórnarskrárbreytingum sem hér hafa verið nefndar voru lögð fram, þar sem einhver viðhafði þau orð — ég þori nú ekki alveg að fullyrða hver gerði það — að þessi drög væru gerð í anda landsins bestu sona. Dæturnar komu þar hvergi nærri.