06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. S.l. mánudag var hv. 3. þm. Reykv. bent á það þegar hann óskaði eftir að taka til máls um þetta efni utan dagskrár að málið mundi snúa að iðnrh. Hann hafnaði þeirri aðferð að víkja fyrirspurnum sínum og máli til hans og óskaði eftir að forsrh. sæti fyrir svörum. Og það var eftir honum látið auðvitað.

En síðan er það undir kvöldmat að iðnrh. þurfti að sinna nauðsynlegum erindum og gat ekki verið viðstaddur lengur en fimmtán mínútur fyrir sjö að þá stendur sami málshefjandi upp og krefst þess að iðnrh. sé kallaður á vettvang til umr. Þessi fundarstjórn þarf auðvitað endurskoðunar við, að hv. þm. geti sjálfir skammtað sér fundartíma og umræðutíma með þessum hætti. Að sjálfsögðu mundi ég hafa setið undir allri umr. ef orðræðan hefði að mér beinst eins og boðið var upp á.

En hvað skeður síðan s.l. fimmtudag? Auðvitað þarf að ræða þetta mál undir liðnum Þingsköp í Sþ. á morgun. Þar var málefni sem beinlínis snýr að mér og mínu embætti, lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar, tekið til umr. þrátt fyrir það að ég hafði áður lagt inn eindregna beiðni um að svo yrði ekki að mér fjarstöddum. Ég spurðist fyrir um það á þriðjudaginn var hvort það kæmi fyrir þá en því var neitað og var enda vitanlegt enda hafði ég opinbert fjarvistarleyfi úr þingi, að ég yrði ekki viðstaddur umr. á fimmtudag þegar steinninn er klappaður í fimm tíma, að því mér skilst og farið þar með upplýsingar sem að öðru jöfnu ég hefði talið nauðsynlegt að ég væri a.m.k. áheyrsla, að ég ekki segi að ég gæti setið fyrir svörum.

Þessa vil ég láta getið nú enda þótt hæstv. forseti sem nú stjórnar fundi beri enga ábyrgð á þessum tveimur atriðum þar sem hann var fjarri í fyrra skiptið og í síðara skiptið var fundur í Sþ. þar sem hv. 2. þm. Austurl. stjórnaði og tók fyrir mál sem hv. 5. þm. Austurl. hafði borið hér fram og flutti, maðurinn sem hefur gengið það langt að hann hefur krafist þess að einstakir þm. kæmu hér og hlýddu á mál hans. Þá þurfti ekkert á því að halda að hafa viðstaddan höfuðmálsvarann og höfuðaðilann að þessu máli. Þannig að eitt rekur sig nú á annars horn í þessu sambandi. En að þessu munum við auðvitað víkja síðar.

Það er undarlegt að heyra málflutning á borð við þann sem hann tíðkar, hv. 3. þm. Reykv., og með ólíkindum að aðeins skuli vera 8 mánuðir síðan hann var ráðh. í ríkisstj. sem stjórnaði vitlausara en nokkur önnur ríkisstj. hefur nokkru sinni gert í nokkru lýðræðislandi sem nokkur maður þekkir til. Og er síst of djúpt tekið í þessari ár. (Gripið fram í.) Þar sem allt endaði með þeim ódæmum að við höfum ekki dæmi um slíkt nema, ég skal ekki segja, ég er ekki kunnugur því hvort það fyrirfinnist eitthvað í Suður-Ameríku álíka. En ekki með þeim ódæmum samt að ég held.

Síðan kemur hann og setur á tölur að segja mönnum fyrir um hvernig eigi að stjórna landinu. Honum er það ekkert í mun að tekist hafi að ná þvílíkum árangri sem raun ber vitni um í verðbólgumálunum enda þótt hann lýsti því yfir ásamt öllum öðrum foringjum í stjórnmálaflokkum á Íslandi í síðustu kosningahríð að það væri mál málanna að vinna bug á þeirri miklu ófreskju. Nú er það ekki lengur neitt keppikefli, nú er keppikeflið allt annað, að hrinda af stalli stefnu núv. ríkisstj. sem þó hefur náð þessum ótrúlega árangri.

Öll umr. hér snýst nú auðheyrilega um ótta þessara hv. Alþb.-foringja, gáfumannadeildarinnar a.m.k. í þeirri fylkingu, við að samningar takist skaplegir á vinnumarkaðnum. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum til viðbótar um herleiðingu þeirra til Straumsvíkur. En ég var áreiðanlega búinn að óska þeim til lukku með það að hafa beitt afli sínu og ætla sér að reyna að beita afli sínu í Straumsvík til þess að brjóta ísinn. Til þess að brjóta ísinn — og allir vissu við hvað var átt og þarf ekki að fara í felur með tilganginn.

Ég var líka búinn að óska þeim til lukku með það að þeir beittu sér fyrir forræði Alusuisse á íslenskum vinnumarkaði og héldu snarplega á því máli. Svo þegar þeir koma úr þessum hernaði slyppir verða einhverjir aðrir en ég að votta þeim samúðina. Er nú verst að fjarstaddur er hv. 7. þm. Reykv., Guðmundur J. Guðmundsson, sem flutti hér að vísu messur yfir mér fjarstöddum á dögunum, en þá gæti hann auðvitað jarmað undir í samúðarfalsettu vegna þess að hann er ekki fylgismaður og stuðningsmaður þessarar aðferðar sem Alþb. fann upp, að beina átakspunkti í vinnudeilum nú til Straumsvíkur. Og þegar ég talaði um hátekjumenn í Straumsvík þá var ég að tala um hann Guðmund J. Guðmundsson, hv. 7. þm. Reykv., um hans fólk til samanburðar sem hefur lágmarkslaun sem ekki ná 1/3 af því sem þeir hafa til jafnaðar verkamenn í Straumsvík.

Það er athyglisvert að þessir fulltrúar og forustumenn Alþb. skuli setja hér á endalausar tölur um hag og afkomu þessa fólks en eyða engu orði á fótkið hans Guðmundar J. Guðmundssonar hv. 7. þm. Reykv. í Dagsbrún eða Aðatheiðar Bjarnfreðsdóttur í Sókn eða verkakvennafélagsins Framsóknar eða Bjarna í Iðju. En þeim er alveg nóg boðið þegar verið er að setja fót fyrir pólitíska spekúlasjón þeirra suður í Straumsvík. Þá má ekki tala um það opnum munni, þá er það kallaður hroki þegar maður vill segja skoðun sína á því fyrirbrigði af fullkominni einurð.

Ég þarf ekki að bæta neinu við í sambandi við skoðun mína og afstöðu til aðildar ríkisfyrirtækja að vinnuveitendasamtökum. Ég ítreka það sem ég áður hef sagt að það er ekki gert til þess að veikja alþýðusamtökin eða þeim til tjóns. Mér er fullkunnugt um að það er vilji þeirra að eiga einhöfða risa að mæta og hefur lengi verið. Allt annað er úrelt og af sér gengin skoðun í þessum málum. Að þeir þurfi ekki að elta uppi eða snegla uppi ótal stærri fyrirtæki eftir að heildarkjarasamningar hafa verið gerðir. Það er að vísu einstaka löngun sem skýtur upp kollinum um það að brjóta ísana með því að leggja undir sig eitthvert lítið fyrirtæki. Slíkt hafa menn séð og e. t. v. minnast menn þess að allóvarlega þótti að samningamátum staðið uppi í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og það er eins og mig minni að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi vikið aðeins að því í máli sínu hér á dögunum. En það er ekki af því góða til lengdar.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist á orð mín um það að hér hefði verið framið lögbrot árið 1966 þegar fallist var á kröfu Alþfl. um að ÍSAL yrði ekki aðili að vinnuveitendasamtökum Íslands. Ísland er aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni og samþykkti reglur hennar um félagafrelsi með þál. árið 1950. Slík þál. hefur lagaígildi og er tómur orðhengilsháttur að skjóta sér neitt fram hjá því. Þessi aðild okkar er lagaígildi enda þótt í þál. sé og verður þess vegna ekki flokkuð undir annað en lagabrot að mínum dómi. Mér er ályktun Alþingis alveg jafn verðmæt eins og það sem njörvað er í lagarammann og ég tek alveg nákvæmlega jafnmikið tillit til hennar. Því miður hefur á síðari árum færst í vöxt að þeir sem með framkvæmdavaldið fara hafa ekki sett sig í þær stellingar að taka fullkomið tillit til viljayfirlýsinga frá Alþingi. Því verður að breyta. Þessarar skoðunar er ég og því er það að það var meira en til hliðar við lagaákvæði að þessi yfirlýsing var gerð, heldur var það að mínum dómi lagabrot í nótuskiptum og kann ég ekki að meta það öðruvísi en svo að þarna sé farið fram hjá og í kringum lögin þó að í prívatnótuskiptum sé. Hvers vegna skyldi maður ella halda að þetta hefði ekki verið að finna í aðalkjarasamningi nema fyrir það að menn vildu láta þetta fara í hljóði? Og kynni kannske að vera að finnandi væru fleiri fordæmi. En sé þetta svona verða þeir að eiga gagnrýni sem þetta framkvæmdu og þýðir ekkert annað en að standa frammi fyrir því, hver svo sem á í hlut.

Hér vék hv. 3. þm. Reykv. að bæklingi sem sendur hefur verið allmörgum fyrirtækjum í Ameríku, Kanada, í Evrópu — einum fjórtán — og Japan. Þar fór hann ýmsum orðum og mörgum um að hér væri með svívirðilegum hætti upplýst um stöðu vinnumála og launþega á Íslandi. Hann vitnaði auðvitað ekki orðrétt til þess arna. En hér er varðandi vinnuaflið á Íslandi byrjað á sérstökum meðmælum með því fyrir hæfni og menntun sem menn geta kynnt sér ef þeir svo vilja.

Hann lét þess getið að kostað hefði eftirgangsmuni að dreifa þessu hér. Mér var þakkað alveg sérstaklega fyrir skjót viðbrögð af hv. 5. þm. Austurl., flokksbróður hans, fyrir að hafa látið dreifa þessu einum hálftíma eftir að beðið var um það. Það voru nú allir eftirgangsmunirnir.

En hér er þessu vinnuafli hælt alveg sérstaklega og talið skara fram úr því sem annars staðar best gerist. Ekki er það að afflytja íslenskan verkalýð.

Svo er sagt í síðustu málsgreininni að hlutfallslega sé vinnuaflið á Íslandi ódýrara en gerist í Skandinavíu. Og nú er bara spurningin: Er þetta rétt eða rangt? Er verið að afflytja eitthvað? Bætt er við: „... og sérstaklega hagstætt ef borið er saman við Bandaríki Norður-Ameríku.“ Er þetta að afflytja eitthvað? Er farið með ósannindi að þessu leyti? (Gripið fram í.)

Til viðbótar er því bætt við að meðalvinnutímafjöldi vinnandi fólks á ári sé eitthvað aðeins meiri — somewhat greater, eins og hér stendur — en á meginlandi Skandinavíu. Þetta er nú það sem hér stendur og mundi ég enda hafa frumkvæði að því að þessum bæklingi verði snarað og hann komi fyrir almenningssjónir vegna þess að ég skammast mín ekkert fyrir hann. Annað mál er það að eðlilegt er að menn sem eru andstæðir þessari stefnu okkar um viðskipti við útlendinga um byggingu stóriðjunnar og rekstur hennar reki hornin í þetta. En þá eiga þeir að segja frá ástæðunum en ekki vera að skrökva til um það sem er þó hér bókað.

Sama er að segja um aflið. Auðvitað höldum við því fram að við séum samkeppnisfærir í orkunni enn þá. Ég hef ekki verið tilbúinn til þess af auðskildum ástæðum að festa mig við einhverja ákveðna tölu í því en þó hyggja menn það af þeim sem kunnugastir eru þessum málum að við séum enn allsæmilega samkeppnisfærir í orkuverði. Þetta er af þessum bæklingi að segja sem hér var verið að býsnast yfir.

Ég hafði aldrei sagt, hvorki í umr. á mánudag var eða áður eða síðar, að kaup mætti ekki hækka eins og hv. 3. þm. Reykv. tók hér fram. Hann er vafalaust að vitna til orða minna í umr. um Straumsvík. Ég taldi að allt annað yrði að ganga á undan því og við þyrftum að hefja samningaviðræður og ráða fram úr því hvernig við gætum komið til móts við fólkið sem örðugast á. Það voru mín orð. Allt annað er útúrsnúningur.

Ég taldi að við þyrftum að byrja á því áður en við tækjum umr. um fólkið í Straumsvík. Og ég beindi orðum mínum þá til hv. 7. þm. Reykv., hvort hann þyrfti ekki að fara að leggja eitthvað til þeirra mála. Hann sagði hér síðast og ég las það í ræðu hans sem ég kynnti mér rétt áðan að ýmislegt væri þokukennt í kröfum hinna lægstlaunuðu hjá Sókn og Iðju. Þá veit maður það. En ég held að við ættum hér heldur að verja tíma okkar til þess að ráða fram úr því hvernig við getum komið til móts við þetta fólk sem áreiðanlega berst í bökkum áður en menn beita orku sinni fyrir vagn starfsfólks í Straumsvík. Ég hef ekkert hikað við að segja frá þessu af því að þetta er skoðun mín. Menn geta þá skilið það sem einhver niðrandi ummæli og árásir á það fólk ef þeir svo vilja vera láta.

Launafólk — segir hv. 3. þm. Reykv. — er að átta sig á því að það verði að hrista af sér núverandi launastefnu. Ég fullyrði að allur atmenningur, þ. á m. launafólk, styður ríkisstj. að yfirgnæfandi hluta til í starfi hennar í viðureigninni við verðbólguna. Og svo standa sakir enn. Á hitt ber að líta að við verðum að finna lausn á því að koma því fólki til hjálpar sem nú berst í bökkum og þeim heimilum sem eru við það að fara á hliðina fjárhagslega. Þetta er vandamálið okkar. Auðvitað eru fleiri vandamál eins og að leysa hið stóra sjávarútvegsdæmi. En allt er það á réttri leið. En undirstaða þess að vel og skynsamlega sé stjórnað í þjóðfélagi er vitanlega það að samkomulag takist við vinnustéttirnar í landinu. Annars er allt unnið fyrir gýg, það skulu menn vita. Menn hafa reynsluna af því. Og með hvaða hætti öðrum leysum við vandamálin en með samningum?

Ég hef engar tölur nefnt í þessu sambandi. Ég veit bara að 4% rammi er ekki nægilegur til handa því sem erfiðast á. (Forseti: Má ég spyrja hæstv. ráðh. hvort hann geti lokið ræðu sinni fljótlega. Við erum komin núna yfir á þann tíma þegar venjulega eiga að vera þingflokksfundir og þessari umr. verður nú að ljúka.)

Hæstv. forseti. Ég skal ljúka máli mínu. En öll er þessi umr. afar upplýsandi um þá málsmeðferð og málafærslu sem forustulið Alþb. temur sér. Ég á ekki von á því að sú herleiðing sem þeir fóru í til Straumsvíkur eigi eftir að verða þeim til ábata eða ávinnings. Öll er málafærslan með þeim hætti að með ólíkindum væri ef það tækist.

En ég bíð eftir því að þeir leggi því lið að við getum ráðið fram og úr því með hvaða hætti við getum hjálpað þeim sem þurfa á úrbótum að halda.