07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2296)

146. mál, umhverfismál

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstaddur upphaf þessarar umr. en heyrði síðustu ræðurnar sem fluttar voru og fyrstu ræðu hæstv. félmrh. Hann kom með upplýsingar í sambandi við kostnað við að hreinsa hringorma úr saltfiski og hefur þar nefnt þann þátt þessa hringormamáls sem hefur kannske orðið fyrst og fremst til að ýta undir þá miklu umræðu sem hefur orðið um þennan orm á undanförnum mánuðum, þ.e. þegar tekið var til hendi við að hreinsa hringorm úr saltfiski. En fram að árinu 1983 hafði saltfiskurinn verið seldur á erlendan markað án þess að haft væri fyrir því að hreinsa þennan aðkomuhlut úr fiskholdinu.

Allt í einu kom yfir markaðinn að kaupendur vildu ekki kaupa fiskinn með þessum aðskotahlut. Jafnvel gekk það svo langt að senda varð heilan fiskfarm til baka af mörkuðunum heim til Íslands til að láta hreinsa þetta. Þeir sem voru að framleiða saltfisk sátu í þeirri súpu að fullverka fiskinn án þess að ormurinn væri hreinsaður úr.

Ég vil þess vegna mótmæla þeim stóru tölum sem hv. félmrh. lagði fram í sambandi við þann kostnað sem væri við að hreinsa þennan aðskotahlut úr saltfiski. Við þær aðstæður sem eru í dag og við þá þróun sem fór í gang þegar vitað var að markaðurinn vildi ekki þessa aðskotahluti í fiskinum breytast allar aðstæður. Kostnaðurinn við að fjarlægja hringorm úr fiski núna í vinnslu í saltfiski er ekki nálægt því eins stór eins og þær tölur sem hæstv. félmrh. nefndi áðan.

Ég tel að að sumu leyti hafi þetta vandamál með hringorminn verið gert mikið stærra en efni standa til, m.a. vegna þessarar stöðu í sambandi við saltfiskinn. Mín tilfinning er sú að á síðustu árum hafi ekki orðið eins mikil aukning á hringormi í fiski eins og fram er haldið, aðallega hafi þetta átt sér stað vegna þess að minni fiskigengd hefur verið á miðunum og meiri hluti aflans verið fiskaður á grunnslóð, þ.e. á þeirri slóð sem þessi tilfærsla á milli setsins og fisksins á sér stað, en miklu minna veitt af göngufiski í hlutfalli við aflamagn.

Hitt vil ég efast um að þær miklu fullyrðingar um fjölda setsins séu á eins miklum rökum reistar og fram er haldið. Margoft koma ferðamenn á Rif og segja: Mikið óskaplega er selnum að fjölga. Það voru bara einir 10–15 selir þarna á Rifinu. Frá því að ég kom á Snæfellsnes hafa þeir verið þarna 10–15, kannske stundum 20 en aðkomumanninum og hinum ókunnuga finnst þarna hver selur sem hann sér vera aukaselur í hópnum. Þess vegna held ég í sambandi við þá aðför sem núna er gerð að selnum að þar skuli að öllu farið með gát.