07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

414. mál, varnir gegn mengun sjávar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að lýsa því yfir að tekin hafi verið jákvæð afstaða til till. Norðurlandaþjóða. Ég hygg að það sé nýtilkomið, en fagna því engu að síður. Hins vegar tók ég ekki eftir hvort ráðh. staðfesti að Ísland mundi eiga fulltrúa á júnífundinum, sem ég tel afar mikilvægt. Ég held að við Íslendingar þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna að þessum málum.

Um niðurstöður rannsókna má auðvitað margt segja og margt er sjálfsagt ókannað. Hins vegar er ótvírætt að þegar liggja fyrir niðurstöður um geislavirk úrgangsefni sem hafa seytlað út í Írlandshafið frá Windscale-verksmiðjunni svo að skelfilegt er til að vita. T.d. hefur verið sannað að blóðkrabbameinstilfelli á börnum á stóru svæði kringum verksmiðjuna eru fimm sinnum algengari en annars staðar á Bretlandi. Ég tel því að gera verði allt sem í mannlegu valdi stendur til að þvinga þessi fyrirtæki, hvar sem þau eru í heiminum, til að nýta allan fáanlegan tækjabúnað. Það getur ekki verið einkamál nokkurrar einnar þjóðar. Umhverfismál varða auðvitað okkur öll, hvar sem er í heiminum. En ég skal ekki orðlengja það.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans svör og treysti því að fulltrúar siglingamálastjóra eða siglingamálastjóri sjálfur fái að fylgjast með þessum málum á fundum um sáttmálann.