26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég fullvissa hv. 5. landsk. þm. um að ég hef ekki dregið eitt hænufet í land með mínar hugmyndir. Ég hef alveg mótaðar, ákveðnar hugmyndir um í hvaða átt á að stefna. En ég skal viðurkenna að þær eru ekki útfærðar í smáatriðum.

Hitt er annað mál, að það virðist af málflutningi virðulegs þm. að hann hafi haft gott af því að hafa fund með sjávarútvegsmönnum og útgerðarmönnum úr sínu kjördæmi rétt fyrir þennan fund. Ef ég skil rétt munu þeir hafa verið þar saman hv. ritari þessarar deildar og hann. Hann gerir sér þá betri grein fyrir því, að vandinn í sjávarútveginum er jafnvel meiri en þær fréttir sem virðulegum þm. hafa borist hingað til gefa til kynna. Það er nefnilega staðreynd að hann er meiri en þm. virðast almennt gera sér grein fyrir. Því þarf djarfar ákvarðanir og það fljótt, ef það á að bjarga þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sem er undirstaðan að þeirri velmegun sem við höfum búið við um langa hríð.

Það gerir ekki neinn skaða að blanda saman tilfinningum og skynsemi. Ég harma ef einhver er þess ekki umkominn.

En ég skal svara þeirri spurningu sem hv. 5. landsk. þm. beindi til mín varðandi tilboð í togara, sem Þormóður rammi á Siglufirði hefur gert. Þormóður rammi hefur hvorki sótt um til fjmrn. né óskað eftir, ekki mér vitanlega, leyfi til að gera tilboð í það skip sem um var rætt né nokkurt annað.