07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

412. mál, starfsskilyrði myndlistarmanna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. um lagafrv. um starfsskilyrði myndlistarmanna vil ég svara svo og gera í örstuttu.máli grein fyrir aðalatriðum í niðurstöðum nefndar þeirrar sem samdi það frv. Það þarf ég að gera vegna þess að síðan það frv. var samið hafa aðstæður breyst á ýmsan veg. Það hafa komið nýjar reglur sem leysa nokkra þætti þess máls sem um er spurt.

Í fyrsta lagi var það myndskreyting opinberra bygginga. Á meðan nefndin sem um var fjallað starfaði voru sett lög nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins. Nefndin taldi því ekki þörf á því að fjalla frekar um þann þátt málsins. Árið 1983 voru veittar alls 768 þús. kr. til Listskreytingasjóðs og nutu þeirra fjármuna sjö listamenn. Það er ljóst að betur má ef duga skal og það þarf auðvitað betri aðstæður í ríkisfjármálum til þess að unnt sé að uppfylla til hins ýtrasta ramma þeirra laga.

Í öðru lagi vil ég fjalla um hugsanlegan launasjóð myndlistarmanna. Eins og málum er nú háttað eiga myndlistarmenn ásamt öðrum listamönnum aðgang að starfslaunum listamanna samkv. reglum um þau nr. 165 frá 1969, en nefndin frá 1982 taldi sanngjarnt að myndlistarmenn nytu hliðstæðrar fyrirgreiðslu varðandi starfslaun við það sem t.d. rithöfundar fá samkv. lögum nr. 29/1975, um Launasjóð rithöfunda. Þess vegna var samið umrætt frv. um launasjóð myndlistarmanna og það fylgir till. nefndarinnar.

Um þetta er það að segja að það eru fleiri hópar listamanna í landinu en rithöfundar og myndlistarmenn, sem hér hafa verið nefndir. Þess vegna þótti rétt, fremur en að flytja frv. sérstaklega, að gera heildstæðar tillögur um úrbætur til listamanna almennt í stað þess að snúa sér að málefnum eins og eins hóps í einu, eins og fram til þessa hefur verið gert. Þess vegna var 18. nóv. s.l. skipuð nefnd til að gera almenna úttekt á fyrirkomulagi launa og styrkja til listamanna með það fyrir augum að þeir fjármunir sem til þessa er varið nýtist sem best íslenskri list. Hv. þm. taldi upp nm. svo að ég mun ekki gera það, en nefnd þessi hefur að undanförnu unnið að öflun gagna, innlendra og erlendra, og mun á næstu dögum skita fyrstu hugmyndum sínum um fyrirkomulag launa og styrkja til listamanna almennt. Í framhaldi af því verður síðan unnið að frekari útfærslu og undirbúningi breytinga eftir því sem tilefni gefst til.

Í þessu sambandi er unnið úr skýrslu sem tekin var saman á vegum menntmrn. í tíð fyrirrennara míns og unnin var af dr. Magna Guðmundssyni. Úr þessari skýrslu hefur Sveinn Einarsson fyrrv. þjóðleikhússtjóri unnið og nefndin hefur þau gögn til hliðsjónar við starf sitt. Skýrslan fjallar um á hvern veg opinberu fé er varið til lista í ýmsum löndum og er mjög ítarleg úttekt.

Nefndin frá 1982 lagði til að lækkaðir yrðu verulega eða felldir niður tollar eða önnur gjöld af efnivörum til myndlistarmanna. Þetta atriði verður nú athugað frekar í samráði við fjmrn. og endurskoðun tollalaga. Þetta atriði hefur líka verið til umfjöllunar á vegum rn. í sambandi við athugun á því hvað gera þarf til að við getum fullgilt Flórens-sáttmálann, sem var til umr. í hv. Alþingi alveg nýlega, en eitt af því sem þar kemur til skoðunar er einmitt efni til listsköpunar. Að því atriði gefst væntanlega tækifæri til að víkja nánar í sambandi við þriðju fsp. hv. þm. svo að ég mun láta þau atriði bíða til þess.

En þetta er í stuttu máli svarið: Frv. nefndarinnar frá 1981 er ekki fyrirhugað að leggja fram á næstunni, en taka hins vegar fyrir þetta mál ásamt málefnum um stuðning við listamenn í landinu almennt, og þær tillögur verða þá væntanlega tilbúnar fljótlega.