07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

412. mál, starfsskilyrði myndlistarmanna

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það er mikill munur á áhuga manna á hringorminum og menningunni. Ég verð því að leggja það á hv. Sþ. að hlusta á mig eina aftur og aftur, en að því leyti hygg ég að konur séu ólíkar karlmönnum að þær eru ekki eins vissar um að öllum þyki það skemmtilegt eins og þeim finnst þegar þeir eru lengi í ræðustól.

En ég vil þakka hæstv. menntmrh. enn fyrir svör hennar. Að sumu leyti skil ég ákaflega vel að hún telji rétt að sameina að nokkru hin ýmsu framlög til lista og menningar. Sannleikurinn er sá, að ef maður vill kynna sér þau framlög í heild í ríkisreikningi eða á fjárlögum er það býsna erfitt vegna þess að það fé er ákaflega dreift og satt að segja heldur óskipulega upp sett á báðum stöðum. Ég hef áður lýst því yfir að ég telji starfslaun miklu eðlilegri leið til eflingar lista í landinu en margumrædd listamannalaun, sem ég held að hafi um árabil nýst afar illa. Ég hef því ekkert við það að athuga að þessir sjóðir verði sameinaðir. Ég vona hins vegar að könnun rn. taki ekki allt of langan tíma svo að ég standi hér enn að þrem árum liðnum og spyrji hvernig gangi. En að öðru leyti fagna ég því að að þessum málum er hugað.