07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

413. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Á þskj. nr. 145 er að finna till. til þál. um staðfestingu svokallaðs Flórens-sáttmála sem hæstv. menntmrh. minntist á áðan. Í grg. fyrir till. sem 1. flm., hv. þm. Gunnar G. Schram, talaði fyrir s.l. fimmtudag er að finna sögu sáttmálans og skal því ekki farið ítarlega út í hana, en hv. þm. bent á að kynna sér grg.

Sáttmáli þessi var samþykktur á aðalfundi UNESCO í Flórens á Ítalíu árið 1950 og fjallar um niðurfellingu gjalda af efni til mennta, vísinda og menningarmála, en sáttmálinn hefur aldrei verið staðfestur af ríkisstj. Íslands. Till. um staðfestingu hefur áður verið flutt á hinu háa Alþingi en þá fluttu hana hv. þm. sem þá sátu í Rannsóknaráði ríkisins. Till. varð þá ekki útrædd.

Í grg. hv. þm. Gunnars G. Schram segir svo, með leyfi forseta:

„Ísland er eitt af fáum ríkjum í flokki svokallaðra þróaðra ríkja, sem ekki hefur gerst aðili að sáttmála þessum. Ísland hefur þó í reynd framfylgt öllum ákvæðum Flórens-sáttmálans frá 1950 að undanteknu ákvæðinu um aðflutningsgjöld af vísindatækjum.“

Þetta vil ég leyfa mér að segja að sé ekki alveg rétt því að sáttmálinn kveður svo á að undanþeginn aðflutningsgjöldum skuli vera listaverk, safngripir með menntunarlegt, vísindalegt eða menningarlegt gildi. Mér er fullkunnugt um að gjalda er krafist af listamönnum sem flytja verk sín til sýninga hérlendis og hið sama gildir um listaverk í eigu safna sem ekki á að selja en einungis sýna. Oft er hægt að fá þessi gjöld endurgreidd en mikið umstang fylgir þessu og hefur oft valdið sýnendum miklum erfiðleikum hér á landi. Ég vil upplýsa að af þessu hef ég beina reynslu sem fyrrv. stjórnarmaður á Kjarvalsstöðum. Hefur stjórnin og starfsmenn hússins orðið að standa í hvers kyns umstangi í kringum tolla af frægum verkum sem hafa verið um áratuga skeið á söfnum erlendis og eru ekki ætluð til annars en sýningar í menningarlegu skyni.

Hér er því mikilvægt hagsmunamál á ferðinni sem varðar starfsskilyrði listamanna. Yrði Flórens-sáttmálinn staðfestur er þetta vandamál úr sögunni og ekki síður mikilvægt að létta tollum af vísindatækjum að sjálfsögðu. Það er óvenjulegt að einstakir stjórnarþm. flytji tillögur um mál sem þetta þar sem ríkisstj. er í lófa lagið að staðfesta sáttmálann óski hún þess. Ég hef lýst stuðningi mínum við till. og mun styðja samþykkt hennar í hv. allshn. en vegna þess hvernig flutningi till. er hagað getur ekki talist óeðlilegt að fá upplýsingar um það beint hvort andstaða sé innan ríkisstj. um staðfestingu. Ég hef því leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. sem hljóðar svo og er á þskj. 309:

„Hvað dvelur framlagningu frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að staðfesta Flórens-sáttmála, alþjóðasáttmála um niðurfellingu aðflutningsgjalda af vörum til nota á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála?“