07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

413. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta verður síðasta ræðan mín að sinni. Ég vil enn þakka hæstv. menntmrh. fyrir jákvæð svör. Ég vildi að ég fyndi fyrir þeirri vissu í hjarta mínu að allt kæmi þetta fram. En af slæmri reynstu undanfarinna ára hlýt ég að taka því með nokkrum fyrirvara. Ég held að þm. ættu að íhuga það nokkuð að hinar ýmsu tillögur sem hér eru bornar fram og koma til nefnda eru oftlega bornar undir þá embættismenn sem framkvæmdirnar eiga að sjá um. Ég held við könnumst öll við það tregðulögmál sem virðist vera þar á ferðinni og þá hræðslu embættismanna við allar breytingar, næstum sama hverjar þær eru. Ákaflega oft er sagt að þetta og hitt sé svo erfitt í framkvæmd að það sé næstum ógerlegt og annað slíkt. Ég er því ekki hissa þó að þeir starfsmenn tollstjóra hafi talið að hér þyrfti mikið verk að vinna. Ég efast ekkert um að það er rétt. En ég held að allt sé það leysanlegt og þessi staðfesting hafi dregist heldur lengi.

En sé stefnt að því að staðfesta sáttmálann innan mjög langs tíma fagna ég því og þakka fyrir svör hæstv. ráðh.