07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

177. mál, námsvistargjöld

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 318 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„1) Hver er afstaða menntmrh. til innheimtu svokallaðs námsvistargjalds?

2) Telur ráðh. að þessi innheimta eigi sér lagastoð og ef svo er ekki, hvað hyggst rn. aðhafast í málinu?“ Oft hafa orðið umr. um hin svonefndu námsvistargjöld og um réttmæti þeirra. Þau eru vitanlega innheimt hér á Reykjavíkursvæðinu fyrst og fremst, af Reykjavíkurborg þó alveg sérstaklega. Nýlega hefur borist til okkar harðorð yfirlýsing um þessi námsvistargjöld og innheimtu þeirra frá Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég beint í þessa ályktun stjórnarinnar:

„Stjórn SSA mótmælir harðlega innheimtu námsvistargjalda. Í meira en hundrað ár hefur öll íslenska þjóðin lagst á eitt um að byggja upp og efla hjá sér stönduga og myndarlega höfuðborg. Vegna stöðu sinnar nýtur hún ýmissa sérréttinda svo sem í skólamálum. Á liðnum áratugum hafa landsmenn allir staðið að öflugri uppbyggingu skóla og annarra menntastofnana í höfuðborginni sem ekki síst á þátt í vexti og viðgangi hennar. Nemendur landsbyggðarinnar hafa því eðlilega sótt skóla til höfuðborgarinnar á vetrum þar sem viðkomandi stofnanir eru ekki til í þeirra heimabyggð. Á sumrin hafa þeir sótt í sín heimahéruð að afla tekna til að standa straum af kostnaðarsömu skólahaldi vetrarlangt í höfuðborginni. Stór hluti þessara landsbyggðarnemenda sest síðan að í höfuðborginni og gerist þar fullgildur skattþegi borgarinnar. Það er því augljóst að Reykjavíkurborg hefur margvíslegan hag af sínum utanbæjarnemendum sem þar stunda framhaldsnám. Nemendur úr höfuðborginni sem stunda framhaldsnám úti á landi þurfa ekki að greiða námsvistargjöld þessi.

Stjórn SSA telur því að námsvistargjöldin eigi ekki rétt á sér og þar að auki styðjist þau við ótraustan lagalegan grundvöll.“

Mér þykir rétt í tilefni þessara mótmæta sérstaklega og vegna fullyrðinga um að hæstv. núv. menntmrh. hafi skrifað undir heimild til handa Reykjavíkurborg til innheimtu námsvistargjalda sem fyrrv. ráðh. menntamála hafi tregðast við að spyrja hæstv. menntmrh. um álit á innheimtunni, lagastoð námsvistargjaldanna og aðgerðum ef á döfinni eru.