07.02.1984
Sameinað þing: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

416. mál, staða heilsugæslulæknis á Eskifirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 318 hef ég leyft mér að bera upp svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbrrh.:

„Hvenær má vænta þess að lögbundin staða við H-2 stöð á Eskifirði verði auglýst og annar læknir ráðinn til stöðvarinnar með búsetu á Reyðarfirði?“

Mörg ár eru liðin frá því að ég flutti hér fyrst á Alþingi frv. um að við heilsugæslustöðina á Eskifirði yrðu tveir læknar og annar þeirra yrði með búsetu á Reyðarfirði. Aðrir Austfjarðaþingmenn hafa þar staðið að heils hugar og vitað um þá nauðsyn sem á því var. Endurskoðun heilsugæslulaganna á árinu 1982 leiddi til þess að stjfrv. innifól í sér þetta ákvæði. Að því áliti stóðu fulltrúar allra flokka og þetta varð að lögum á þingi s.l. vor um að þarna skyldi vera H2 stöð. Það vil ég túlka svo að tveir læknar skyldu vera við stöðina þó að að vísu geti sú túlkun komið til greina að þar skuli vera allt að tveir læknar. Heimild er í sömu lögum um búsetu læknis á öðrum stað en heilsugæslustöðin er enda sé þar heilsugæslusel, þ.e. góð aðstaða fyrir lækni og sjúklinga til daglegra þarfa.

Eins og ég sagði áðan voru lög þessi afgreidd á s.l. vori en síðan hefur ekkert um málið heyrst opinberlega. Mér er hins vegar tjáð að hæstv. heilbrrh. og rn. hans hafi óskað eftir því að þessi staða yrði auglýst eða að fyrir henni yrði veitt heimild. Hins vegar skortir þar fjárveitingu og að nýjar stöður, þó að lögfestar séu með þessum hætti, verði ekki heimilaðar. Því er einnig haldið fram að nýafgreidd fjárlög muni ekki fela í sér fé til þessarar stöðu.

Ég veit að hæstv. ráðh. sem eru landsbyggðarhéruðin mjög kunnug veit að þörfin kallar hér á enn frekar nú en þegar ég flutti þetta mál fyrst vegna fjölgunar í héraði m.a. Ég segi það hér að núverandi heilsugæslulæknir er að gefast upp, m.a. sakir álags sérstaklega vegna síldar- og loðnuveiða þar sem flotinn liggur oft langtímum saman einmitt á þessum tveimur höfnum, Reyðarfirði og Eskifirði, og álagið þar af leiðandi geysilegt á þeim tíma. Auðvitað á þetta við um fleiri staði en þarna er aðeins einn maður til að gegna þessari stöðu.

Að vísu skal tekið fram að heimildin sem er í heilsugæslulögunum um aðstoðarlækna eða íhlaupalækna, ef við viljum kalla það svo, á þessar stöðvar hefur bætt mjög úr þessu en hvergi nærri nóg. Það er mikill þrýstingur á um þetta mál heima fyrir í héraði þar sem eru nær tvö þúsund manns. Auk annars álags sem getið var um er ekki nema von að það sé órói hjá fólki sem horfir upp á vinnuálag þessa læknis og óttast að þrátt fyrir að nú virðist vera nokkurt framboð á læknum almennt verði á ný svo komið fyrir þessu heilsugæsluumdæmi að læknar komi og fari og engin festa verði í neinu. Sömuleiðis er eðlilegt að Reyðfirðingar kalli sérstaklega á þetta og vilji fá lækni til sín með búsetu þar sem nú mun loks vera orðið samkomulag í heitbrigðisráði Austurlands að verði ef annar læknir fæst að stöðinni.

Ég hlýt því með tilliti til þessa óvissuástands að leita svara hjá hæstv. heilbrrh. um það hvað fram undan muni vera í þessum efnum og því er um þetta spurt.