08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

150. mál, fæðingarorlof

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Í frv. því sem hér um ræðir eru fjölmörg atriði sem ástæða er til að fjalla um. Það hefur verið rætt um að hér sé á ferðinni eitt brýnasta verkefni þingsins. Það er auðvitað álitamál, en allavega er það brýnt og forvitnilegt og mikilvægt. Það hefur verið undirstrikað af flm. frv. að gildi móðurmjólkur sé ótvírætt. Það undirstrikar sagan. En til skamms tíma hefur það samt sem áður verið mikið deilumál hvort móðurmjólk væri eins nauðsynleg börnum og ýmsir vilja vera láta. Ég mun síðar í mínu máli koma að því hvers vegna ég fjalla hér sérstaklega til móðurmjólk.

Það er talað um í frv. að full laun foreldra eigi að vera viðmiðun í því hvernig fæðingarorlof er afgreitt. Það eru strax vandkvæði á þessu og strax mismunun, strax stefnt að ákveðinni óvissu, þannig að ekki er hægt að skipuleggja hvað um er að ræða mikil fjárútlát í því dæmi sem frv. gerir ráð fyrir. Grundvallaratriðið í þessu máli finnst mér vera það, að jafnaður sé réttur kvenna um fæðingarorlofs, að það gildi fyrir allar konur hvort sem þær eru heimavinnandi eða útivinnandi. Það er grundvallaratriði og á að vera fyrsti áfangi í þessu máli sem er mikið framfaramál. Flm. ræddi um að foreldrar eigi að leggja jafnan grunn að framtíð barnsins. Þetta er auðvitað svo sjálfsagt mál að óþarft er að taka það upp í slíku erindi. En þegar fjallað er um fæðingarorlof hlýtur að þurfa að taka tillit til ákveðinna þátta. Þar tel ég að mikilvægasti þátturinn sé einmitt brjóstagjöfin. Þess vegna á það að vera forgangsatriði þegar slík mál eru afgreidd. Það er fjallað um það í frv. að kjörforeldrar eigi að hafa sama rétt til fæðingarorlofs og aðrir foreldrar. Ég tel þetta ekki einhlítt. Ég tel að þarna eigi meira að ráða mikilvægi brjóstagjafar fyrir barnið.

Það hefur komið fram að það kostar um það bil 2% af fjárlögum að afgreiða fæðingarorlofið eins og frv. gerir ráð fyrir. Það eru ekki svo litlir peningar. Flm. benti á að við eigum að fjárfesta í börnum okkar með því að bjóða þeim það besta sem völ er á. Liður í því er auðvitað fæðingarorlof. Liður í því er sá tími sem foreldrunum gefst til að sinna barninu á fyrstu mánuðum, kannske viðkvæmustu mánuðum lífsins, þeim mánuðum sem barnið er brothættast á leið sinni til að verða þroskaður einstaklingur.

Bent er á það í frv. að nú sé svigrúm til þess hjá atvinnurekstri landsins að taka á sig auknar byrðar vegna fæðingarorlofs. Ég er ósammála slíkum málflutningi einhliða. Sá tími kann að koma, en nú þegar lagt er kapp á að treysta grunn atvinnurekstursins til að skapa aukin atvinnutækifæri verður að fara varlega í slíkum yfirlýsingum og að etja saman öflum sem óeðlilegt er að tengja saman.

Flm., hv. 11. þm. Reykv. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, blandar jafnvel útflutningsbótum til bænda inn í umr. um þetta frv. Ýmis slík atriði, sem reynt er að gera tortryggileg, er ástæðulaust að tengja slíku máli sem varðar rétt allra þegna á Íslandi. Það er spurt hvort ekki sé nær að setja 280 millj. kr. af útflutningsbótum í fæðingarorlof. Það er spurt hvort ekki væri nær að skipta þarna á milli. Það er ekki bændum að kenna hvernig þróunin hefur orðið í útflutningsbótum. Það er rangri stjórn í landinu að kenna. Þegar verðbólga var eðlileg á sínum tíma fékkst hátt hlutfall fyrir það kjöt sem var talið umframframleiðsla, allt að 70–80%. En að undanförnu hefur þetta hlutfall farið niður í 17–19%.

Það eru þannig fjölmörg atriði sem mér finnst ruglað saman í þessum málflutningi. Hins vegar er ástæða til að draga saman það sem skiptir mestu máli og það mun ég gera vegna þess að skorað var á okkur karlmenn í þessari hv. deild að láta til okkar heyra. Við höfum auðvitað sitthvað til málanna að leggja. Hv. 8. landsk. þm. Kolbrún Jónsdóttir hvatti til að karlmenn væru reiðubúnir til að taka á sig nokkra ábyrgð af barnsfæðingum. Ég held að það sé sjálfgefið mál. Ég vil þess vegna fjalla nokkuð um það atriði sem ég gat um í upphafi og ég tel mikilvægast, en það er brjóstagjöfin og það tímabil sem brjóstagjöfin er æskilegust fyrir barnið.

Það er engin spurning um það að brjóstamjólk er fullkomnasta næringin sem völ er á fyrir börnin. Í henni eru öll efni sem líkaminn þarfnast til vaxtar og hlutföltin eru ávallt rétt. Það er sama hvort um er að ræða brjóstamjólk konu sem hefur notið fjölbreyttrar næringar eða þeirrar sem hefur búið við næringarskort. Það er lítill munur þar á efnisinnihaldi, vítamínum, fitu og eggjahvítuefnum almennt. Það er að vísu svolítið breytilegt hlutfall á milli landa og segir auðvitað ákveðna sögu, en í meginatriðum er ekki um verulegan mismun að ræða. Þannig inniheldur brjóstamjólk konu öll eggjahvítuefni, fitu, steinefni og vítamín sem þörf er á til eðlilegs viðhalds og vaxtar. Hlutföll mjólkurinnar aðlagast sjálfkrafa kröfum barnsins eftir aldri. Og þar komum við að einum meginþætti, eftir aldri, vegna þess að þegar rætt er um það hvort auka eigi fæðingarorlof þá á að gera meiri greinarmun á því hvaða áhrif það hefur fyrir barnið og foreldrana annars vegar, hvaða áhrif það hefur líffræðilega, eða hvort verið er að stilla þessu upp sem einhverju puntdæmi og vitna þá til annarra landa, sem byggja ekki á rökum þessu efni, heldur pólitískri ákvörðun.

Á síðari árum hafa farið fram mjög auknar vísindalegar rannsóknir á gildi brjóstamjólkur. Ég minnist þess úr gagnfræðaskóla að þar stóð í kennslubók um brjóst eftirfarandi að mig minnir: Brjóst eru kirtlar sem gefa af sér mjólk eftir barnsburð. Í hvorum kirtli er safn af pípum sem framleiða mjólkina og skila henni að yfirborði geirvörtunnar.

Þetta umræðuefni er nú að verða að einhverju leyti fræðsla um brjóstamjólk og brjóstagjöf, en ég tel það nauðsynlegt vegna þess að nú eru nýir tímar sem sýna og sanna að það er nauðsynlegt að menn taki meira tillit til þessara hluta en gert hefur verið.

Þegar nýfæddu barni er gefið næringarefni sem ekki er sérstaklega ætlað manneskjum getur hið viðkvæma líffærakerfi þess brugðist hart við með myndun ofnæmis. Í kúamjólk er t.d. tvöfalt meira af eggjahvítuefnum en í mjólk úr konubrjósti. Og þessi efni, þetta efnishlutfall er ekki ætlað mannverum heldur kálfum. Það er álitið samkvæmt nýjum rannsóknum að sé barnið gefið slíkt óskylt efni í frumbernsku geti það valdið ofnæmi sem leiði til ýmissa óþægilegra ofnæmiseinkenna gagnvart ýmsum fæðutegundum síðar á lífsleiðinni. Þar sem ofnæmi er algengt í fjölskyldum og þar af leiðandi oft arfgengt er foreldrum eindregið ráðlagt að reyna að gefa börnunum eingöngu brjóstamjólk fyrstu mánuðina.

Enn skortir á að frætt sé um þessi mál. Það hefur skort á að það sé gert af hálfu hins opinbera og af hálfu þeirra aðila sem sinna þessum þáttum í þjóðfélaginu. Ofnæmi eins og ég gat um, ofnæmiseinkenni geta lýst sér t.d. sem astma, exem eða húðútbrot. Þetta eru aðeins örfá dæmi af mörgum.

Því er ástæða til að taka tillit til brjóstagjafar að það getur skipt sköpum fyrir einstaklinginn allt lífið. Margt bendir til þess skv. rannsóknum vísindamanna síðustu ár að hafi barni verið gefin móðurmjólk fyrstu mánuði ævinnar sé það betur verndað gegn hjarta- og meltingarsjúkdómum en önnur börn. Brjóstabörn þjást sjaldan af offitu og ólíklegt er að þau fái nokkurn tíma þá tegund tannátu sem kölluð er pela-earius og herjar oft á smábörn. Þetta eru staðreyndir sem komið hafa fram í nýlegum rannsóknum. Tannskemmdir má að vísu oft rekja til þess að börnum er gefinn sykraður vökvi í pelann eða jafnvel hunang á túttuna. En það kemur fleira til. Brjóstabörn þurfa að hafa töluvert meira fyrir að ná mat sínum en pelabörnin. Mótstaðan er meiri í brjóstinu en túttu. En því fylgir líka að kjálkar og munnur barnsins þroskast betur og eðlilegar, betur og fljótar. Afbrigðilegur kjálki og munnvöxtur er óalgengur hjá fólki sem var á brjósti í bernsku. Þannig leiðir allt að sömu rökum. Þarna er um að ræða tímabil í lífi barnsins sem skiptir feikilega miklu máli. Það er viðurkennt að fyrstu 2–3 mánuðirnir eru sá tími sem brjóstið gefur mest af sér og á auðveldast með að sinna þörfum barnsins.

Þó að hér hafi verið lögð mikil áhersla á mikilvægi móðurmjólkur, þá er auðvitað í mörgum tilvikum ekki unnt að sinna þessu hlutverki af ýmsum ástæðum. Það geta komið til sjúkdómar, það getur komið til gerð brjóstsins og einnig getur komið til að ekki hafi verið kennt sem skyldi hvernig móðir getur ræktað og þjálfað upp brjóstagjöf til barns.

Það er annar góður kostur við brjóstamjólk hve auðmelt hún er. Það er t.d. staðreynd, sem allir feður vita, að hægðir barna eru alltaf mjúkar ef börnin eru eingöngu nærð á móðurmjólk. Það kemur einnig af því að pelagjöf veitir barni ekki sömu víðtæku tilfinningalegu reynslu og líkamlega uppbyggingu eins og brjóstagjöf móður veitir. Rannsóknir, sem framkvæmdar voru fyrir fáum árum í Cambridge á Englandi á hegðunarmismun brjósta- og pelabarna, sýndu að brjóstabörnin tóku oftar frumkvæðið um að hætta að sjúga þótt mæðurnar álitu að þau væru ekki búin að fá nóg. Þetta sjálfræði voru börnin búin að þroska strax á fyrstu vikum ævinnar. Pelabörn hafa sýnt að þau hafa ekki eins gott tækifæri til þess að sýna þennan sjálfsákvörðunarrétt.

Það er eins með konuna í hlutverki móður, þegar hún gefur mjólk, eins og þegar sótt er mjólk til mjólkurkýrinnar. Það þarf að mjólka reglulega og það þarf að mjólka á ákveðinn hátt til þess að brjóstið skili mjólk annars vegar, til þess að kýrin verði ekki geld hins vegar. Þarna þarf að skapa tíma, frið og aðstöðu til þess að móðirin geti sinnt sínu hlutverki.

Barn stækkar mest á fyrstu þremur mánuðum ævinnar, þyngist ef ég man rétt um um það bil 200 g á viku að meðaltali. Á næstu mánuðum þar á eftir þyngist barnið um liðlega 100 g á viku að meðaltali og síðari hluta fyrsta æviársins er vaxtarhraðinn um það bil 100 g á viku.

Fyrstu mánuðina nærist hvert barn á móðurmjólk þegar því verður við komið, með öllum þeim hlunnindum sem það býður upp á, en síðan kemur önnur fæða til. Ætla ég ekki að fjalla um þann tíma. Sá tími fellur utan þess tímabils sem gert er ráð fyrir að fæðingarorlof standi sem fjallað er um í þessari umr.

Í stuttu máli: ljóst er að það er hollt fyrir börnin og fyrir móðurina að hafa barn á brjósti, bæði andlega og líkamlega, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu þess. Það er þó ekki fyrr en á síðari árum sem hafa verið gerðar ítarlegar kannanir á þessum málum. Þær hafa m.a. leitt í ljós að ýmsa þá sjúkdóma sem fylgja menningunni er hægt að fyrirbyggja með brjóstagjöf. M.a. stuðlar móðurmjólkin að þroska taugakerfisins, er í rauninni aðalundirstaða þess að taugakerfi barnsins þroskist til fulls á eðlilegan hátt. Móðurmjólkin kemur í veg fyrir ýmsa sjúkdóma hjá barninu með því að bera í sér sýklavarnir og ónæmi gegn ýmsum sjúkdómum. Á þetta einnig við um ýmsa þá sjúkdóma sem teljast fylgja velferðarþróuninni, eins og t.d. kransæðasjúkdóma. Það er talið að barn, sem hefur nærst á móðurmjólk fyrstu mánuði ævinnar, fái síður kransæðasjúkdóma en önnur börn. M.a. þykir nú nokkuð sannað að hinir ýmsu ofnæmissjúkdómar sem hrjá fólk séu til komnir vegna þess að börnin hafi verið alin á kúamjólk eða á efnum ólíkum þeim sem móðurmjólkin býr yfir. Móðurmjólkin verndar gegn sjúkdómum í öndunarfærum og er í stuttu máli besta veganestið sem hægt er að veita einstaklingi sem er að leggja út í lífsbaráttuna, enda hefur móðurmjólkin þróast með mannkyninu og tekið breytingum jafnframt því og má því teljast hið fullkomnasta fæði.

Eins og ég gat um áðan er ekki alltaf hægt að bjóða barninu besta kostinn, brjóstagjöf. Þá kemur kúamjólk og annað til sögunnar. En þess ber að geta að kúamjólk, þurrmjólk sem er yfirleitt framleidd úr kúamjólk, sojamjólk eða geitamjólk búa ekki yfir sömu efnasamsetningu og móðurmjólk. Og í þeirri mjólk, í þeirri samsetningu eru engar varnir gegn þeim fjölmörgu sjúkdómum sem barninu er hætt við að fá. En til að annast þetta hlutverk móðurinnar, brjóstamjólkurgjöfina, verður móðirin að geta verið heima hjá barninu. Þetta er spurning um framboð og eftirspurn, því að um leið og hætt er að mjólka brjóst konunnar kemur að því, eins og ég gat um áðan, að þau hætta að framleiða mjólk. Mjólk er þannig mjög mismunandi og það er ástæða til að velta því fyrir sér hve mikill munur er á brjóstamjólk og annarri mjólk sem barninu er boðið upp á.

Ég hef fjallað nokkuð mikið um brjóst í þessu máli mínu. Um langan tíma hefur verið fjallað um brjóst meira á sviði tísku en vegna þess hlutverks sem þau eiga að gegna gagnvart barninu. Brjóst hafa þannig verið kyntákn á síðustu árum og áratugum, kannske fremur en að þau væru aflgjafi og uppspretta fyrir barn. Til skamms tíma a.m.k. hefur verið uppi sú kenning að það skipti ekki máli fyrir konur eða barn hvort sinnt væri brjóstagjöf eða ekki. Ég tel þetta atriði meginmálið sem kemur við sögu í því frv. sem hér um ræðir um lengingu fæðingarorlofs. Þar ber sífellt að sama brunni.

Brjóst konunnar sem forðabúr og uppspretta fyrir barn eru ákaflega litlar forðageymslur miðað við flest önnur spendýr. Þetta mun þó vera eitthvað breytilegt. En reglan þarf að vera á hlutunum, reglan að hægt sé að gefa barninu brjóst. Það er meginreglan til þess að hægt sé að viðhalda þessari heimtingu, þessu eðlilega ástandi sem barnið á að búa við. Þess vegna þarf hver móðir að hafa sama rétt til þess að sinna sínu barni. Og ég geri þar mikinn greinarmun á hvort um er að ræða móður eða föður. Þótt það sé mikilvægt að faðirinn sinni sínu barni, ekki bara á fyrstu mánuðum ævinnar heldur öllum skeiðum, þá verður þessu ekki stillt upp sem einhverju sérmáli kvenna. Þarna er um að ræða mál sem varðar hvern einstakling. Og það er óþarft að vera að blanda inn í pólitískum vangaveltum þegar fjallað er um þessi mál, t.d. útflutningsbótum og öðru því sem getið hefur verið hér um. Þetta er spurning um forgang. Það er ekki erfitt að láta sig dreyma um ákveðna hluti í þessum efnum, að fólk geti sinnt börnum sem lengst og best, en það verður líka að hafa það sjónarmið í huga að einstaklinginn má ekki vernda um of eða of lengi, þótt auðvitað gangi slíkt fyrir á fyrstu árum hvers einstaklings.

Það er einföld félagsleg pólitík í hátterni svartfuglsins eða langvíunnar í bjarginu. Þegar pysjan er orðin afdúnuð þá hendir langvían pysjunni í sjóinn til þess að hún bjargi sér sjálf. Þetta er stysta lýsingin sem hægt er að gefa á því hvernig auðvitað á að rækta upp einstaklinginn einnig. En það verður sem sagt umfram allt að skapa tækifæri til þess að konan, móðirin sjálf, hafi þá aðstöðu sem ég lýsti og er meginmálið í þessu efni. Og þá þýðir ekkert að vera að tala um neitt jafnréttismál þar. Það er móðirin, sem skiptir mestu máli fyrir barnið á þessum fyrstu mánuðum, og það er ekki hægt að heimfæra að faðirinn skipti eins miklu máli. Þarna vegur móðurmjólkin mun þyngra og þess vegna hef ég fjallað um hana hér og þess vegna á að taka tillit til þess.

Það er einnig fátækleg lausn í sjálfu sér að ætlast til þess að faðir, sem á rétt á því að taka einn mánuð í fæðingarorlof, geti endilega á þeim mánuði byggt upp sterkt samband við barnið. Þetta hljómar fremur eins og skyndilausn þótt það sé við lýði í okkar lögum.

Þetta er margþætt mál og þarna koma til fleiri atriði. Konur í íslensku þjóðfélagi í dag hafa ekki allar jafna aðstöðu til að lengja það orlof sem þær gjarnan vildu taka frá sinni vinnu í sambandi við barnsfæðingar. Konur missa í mörgum tilvikum atvinnu ef þær taka lengra frí en þrjá mánuði. Það væri frekar þarna sem ætti að liðka til eins og á stendur varðandi atvinnureksturinn í landinu. Þarna á að koma til móts við konuna, koma til móts við nýjan einstakling sem þarf að sinna af fullri alvöru. Það ætti að vera hægt að taka launalaust frí til að sinna barninu a.m.k. fyrstu sex mánuði í lífi barnsins vegna þess að þá, einmitt þá skiptir mestu máli að móðurmjólkin notist til fulls. Kona sem vinnur úti og ætlar að gefa barni brjóst missir í flestum tilvikum mjólkina. Stálmi brjóstsins þolir ekki slíka röskun. Þetta er svo viðkvæmt tímabil að hin minnsta þreyta getur breytt ekki aðeins magni mjólkurinnar heldur einnig efnisinnihaldi. Þetta er þannig brothættari þáttur en margur kannske hyggur.

Ég hef fjallað um þetta í alllöngu máli vegna þess að ég tel ástæðu til að snúa þarna við blaðinu og að menn geri sér betur grein fyrir því hvað móðurmjólkin skiptir miklu máli, ekki aðeins á fyrstu mánuðum heldur í uppbyggingu barnsins fyrir lífið allt, gegn sjúkdómum og mörgu öðru. Þetta er fjárfesting fyrir einstaklinginn og fyrir þjóðfélagið í heild, fjárfesting sem skilar sér í betri heilsu, sem skilar sér í minni kostnaði í sjúkraþjónustu, svo að dæmi séu nefnd.

Þess vegna væri æskilegast að móðir hefði a.m.k. sex mánaða fæðingarorlof. Og ég undirstrika: ég geri þar greinarmun á föður og móður. En hér er um að ræða mikla peninga og þar verður að vega og meta. Ég vil þó ljúka þessu máli mínu með því að undirstrika að fyrst og fremst þarf að jafna rétt allra mæðra, allra kvenna, hvort sem hann er miðaður við þrjá eða fjóra mánuði að það séu ekki bútaðar niður fæðingarorlofsgreiðslur til þessara kvenna eftir því hvar þær eru og hvað þær vinna. Þær gegna allar jafnmiklu hlutverki, því meginhlutverki sem er fæðing barns. Þetta er grundvallaratriði, sem allir eiga að geta sæst á. Hvort við förum síðan að tala um þrjá mánuði, fjóra, sex, tíu eða tólf eða þaðan af lengra, það fer að koma við okkar þjóðfélagsmynstur.

Ég vil aðeins undirstrika einnig að það kom fram í ræðu hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar, 5. þm. Vesturl., að við værum ekki komin eins langt á framfarabraut í þessum efnum og ýmsar nálægar þjóðir. Þetta er ekki einhlítt og ég vil mótmæla þessum orðum. Þetta er í víðtæku samhengi, hvernig fjallað er um fæðingarorlof, barnauppeldi og fleira slíkt í okkar heimshluta. Ég tel t.d. að einn liður í slíku fyrirkomulagi í Svíþjóð gangi of langt, þegar kerfið, þegar embættismennirnir hafa orðið rétt til þess að grípa inn í og taka völdin af foreldrum í smæstu tilvikum og hreinlega ótrúlegum tilvikum, sem ég ætla ekki að fjalla hér um. Við eigum að miða okkar kerfi við íslenskar aðstæður, við okkar heimilislega þjóðfélag. Þar hjálpar maður manni. Það er liður í því sem ekki verður skipulagt með peningagreiðslum. Þó erum við sammála um að þarna eigi að vera grundvallarréttur. En fyrst og fremst á að leiðrétta það þannig að fólki sé ekki mismunað, að móðirin fái notið sín hvar sem hún er á okkar landi.