08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

150. mál, fæðingarorlof

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. góðar undirtektir við þetta frv. Það gleður hjarta mitt að menn skuli sýna þessu máli skilning. Mig langar til að fara þess á leit við virðulegan forseta að hæstv. félmrh. verði viðstaddur hér nú. Þetta mál heyrir undir hann og hans rn. og hann hefur marglýst því yfir að skipan þessara mála varði hann nokkru. Ég hef fáeinar spurningar sem mig langar til að beina til hans.

Mig langar fyrst að víkja orðum mínum að máli hv. þm. Árna Johnsen. Í máli hans kom fram mikill áhugi fyrir brjóstamjólk, brjóstagjöf og brjóstum yfirleitt og fagna ég því að aðrir en konur skuli láta sig þau mál einhverju varða og þá ekki síst hlutverk þessa líffæris sem lífgjafa barna. Hins vegar beindist mál hv. þm. um þessi efni dálítið í sömu átt og verið væri að tala um landbúnaðarmál. Það var talað um konur eins og hvern annan búpening að sumu leyti og borið saman við kýr, svartfugl og annað því um líkt. (Gripið fram í: Það er rangt mat.) Ja, þetta er mitt mat. Ég þykist vita að hv. þm. hafi gert þetta í góðri meiningu, en þarna er undirtónn sem fær a.m.k. konur eins og mig til að verða dálítið reiðar. Þegar við tölum um brjóstagjöf og gildi móðurmjólkur fyrir ungbörn erum við ekki að tala um landbúnaðarafurðir. Við erum að tala um persónulegan þátt og félagslegan fyrir manneskjur, fyrir utan þá næringarþýðingu sem hann hefur fyrir börnin. Ég þykist vita að hv. þm. hafi meint þetta svona og ég skal taka það þannig, a.m.k. að svo búnu máli.

Hv. þm. Árni Johnsen talaði um að ýmsu væri ruglað saman í málflutningi í framsögu um þetta mál. Hann talaði um að 285 millj. væru 2% af fjárlögum. Ég fæ ekki séð hvernig það stenst, en það er önnur saga. Síðan talaði hann um að verið væri að gera útflutningsbætur tortryggilegar. Það get ég ekki séð hvernig stenst heldur. Ég hef ekki nefnt það einu einasta orði að það ætti að skipta á útflutningsbótum og fæðingarorlofsgreiðslum, eins og hv. þm. nefndi. Ég nefndi hins vegar að þarna væri sama upphæð á ferðinni í árlegum greiðslum og sá kostnaður sem frv. felur í sér. Þetta gerði ég til að setja þá upphæð sem hér um ræðir í samhengi fyrir hv. þm.

Hv. þm. Árni Johnsen talaði töluvert um að ekki bæri að rugla saman atvinnurekstri og fæðingarorlofsgreiðslum. Það kom fram í fyrri hluta ræðunnar. Í seinni hluta ræðunnar kom fram að atvinnureksturinn ætti að liðka til til þess að konur gætu haft börn sín á brjósti. Á endanum komst hv. þm. því að þeirri niðurstöðu að málið væri atvinnurekstri eitthvað skylt. En hann talar um það í leiðinni að gera þyrfti konum kleift að fara í sex mánaða launalaust leyfi til að hafa börn sín á brjósti. Það er örfáum konum í dag kleift að fara í launalaust leyfi í sex mánuði.

Samanburður milli landa fór fyrir brjóstið á hv. þm. og líka fyrir brjótið á hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni á síðasta fundi Ed. á mánudaginn var, þegar þetta mál var flutt. Upplýsingar um tilhögun fæðingarorlofsmála í öðrum löndum eru hér settar fram fyrst og fremst sem upplýsingar en ekki sem rök fyrir málinu. Ég held að það skaði engan að vita nokkurn veginn hvernig nágrannaþjóðirnar haga sínum málum að þessu leyti. (Gripið fram í.) Þetta er ekki kvennamál, segir hv. þm., þetta snertir alla. Svo sannarlega snertir þetta alla. Og það eru mér mikil fagnaðartíðindi ef sú skoðun kemst á að þetta sé mál sem allir þurfa að beita sér fyrir.

Hv. þm. sagði líka að þetta væri ekki pólitískt mál, en þá vil ég spyrja hv. þm.: Er skipting sameiginlegra fjármuna landsmanna ekki pólitískt mál? Ég veit ekki betur en að við séum hingað komin á ólíkum pólitískum forsendum m.a. vegna þess að við höfum ólíkar hugmyndir um hvernig við viljum skipta þessum fjármunum. Þess vegna er tilhögun fæðingarorlofsmála pólitískt mál, undan því verður ekki vikist.

Móðirin skiptir meginmáli vegna brjóstagjafar ekki faðirinn, sagði hv. þm. Einn mánuður er skyndilausn. Svo sannarlega er það skyndilausn, enda er í þessu frv. verið að fara fram á að föður gefist svigrúm í tvo mánuði, sem er enn harla lítið.

Fyrst ég er hér komin að lengd fæðingarorlofs, þá vil ég lýsa því yfir að mín persónulega skoðun er sú, að í rauninni þyrfti fæðingarorlof að vera níu mánuðir í það minnsta þannig að móðirin hafi tök á sex mánuðum og faðirinn á þremur mánuðum. Í frv. er hins vegar aðeins lagt til að fæðingarorlof verði sex mánuðir vegna þess að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að svo stórt stökk, úr þremur mánuðum í níu mánuði, verður ekki tekið í einu vetfangi. Þess vegna er lagt til að það verði núna sex mánuðir og meira að segja í áföngum, eins og ég hef þegar greint frá.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um mál hv. þm. Árna Johnsen, en ég þakka honum þann stuðning sem fram kom í ræðu hans að öðru leyti. Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson minntist á það í ræðu sinni að e.t.v. væri óleyfilegt að tala um kostnað þegar blessuð börnin ættu í hlut. En þau eru einmitt ekki ókeypis, eins og stundum virðist hafa verið álitið, og ég held að það sé löngu tímabært að við gerum okkur grein fyrir því og við tökum mið af því í lagasetningu að það kostar peninga að hlúa að yngstu kynslóð þessa lands, það kostar peninga að koma upp líkamlega og andlega heilbrigðum einstaklingum.

Eins og ég sagði í framsögu með frv. er hér um að ræða fjárfestingu sem skilar sér margfalt til baka þegar fram líða stundir. Ef við spörum á þessu sviði erum við að spara eyrinn en kasta krónunni, því að svo að ég tali bara um peninga en ekki hinn mannlega ávinning getur það kostað okkur gífurlega fjármuni í heilsugæslu og við lausn félagslegra vandamála að spara við ungbörn og foreldra þeirra.

Hvað varðar fjármögnun frv. hef ég þegar bent á að um er að ræða forgangsröðun mála og einmitt þess vegna er þetta pólitískt mál. Ég minntist á að vel gæti komið til greina að auka hlut atvinnurekenda í fæðingarorlofsgreiðslum eitthvað, ef mönnum þætti nauðsynlegt að finna nýjan tekjustofn til að standa straum af kostnaði vegna frv., enda ætti atvinnulífið í landinu beinna hagsmuna að gæta. En ég benti líka á að nýr tekjustofn væri e.t.v. ekki nauðsynlegur vegna þess að ríkissjóður er í dag tilbúinn til að bera ýmiss konar tekjutap, ef marka má ýmis þau mál sem hafa verið afgreidd á þessu þingi eða eru í afgreiðslu. En samt dettur mér ekki í hug að gnótt sé fjár í ríkissjóði, heldur veit ég að spurningin er hvaða málum stjórnendur ríkissjóðs vilja veita forgang.

Eins og kom fram í framsögu með frv. mun framkvæmd fyrri áfanga þess kosta um það bil 145.6 millj. kr., sem gerir heildarkostnað við fæðingarorlofsgreiðslur miðað við árið í ár tæpar 283 millj. Nú minnir mig að hæstv. félmrh. hafi látið þau orð falla í umr: hér á þinginu í haust að til greina kæmi að veita um 300 millj. kr. í ár til að greiða fæðingarorlof, sem er heldur hærri upphæð en hér er um rætt. Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh. hvort þetta sé rétt munað hjá mér. Ef ekki, hvernig fórust honum þá orð um þetta? Og eins langar mig til að spyrja hæstv. ráðh. í leiðinni að því hver sé afstaða hans til þessa frv. almennt.