08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

150. mál, fæðingarorlof

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um fæðingarorlof er allrar athygli vert. Þegar svona mál eru til umr. er þó ástæða til að skoða hvað skuli hafa forgang og hvað ekki. Ég minni á að verkalýðshreyfingin hefur verið það baráttutæki sem varð til þess að koma á fæðingarorlofi. Það hefur verið útfært í ýmsum myndun og einkum með það að markmiði að bæta fólki upp tekjutap, sem það verður fyrir, vinnandi konum upp það tekjutap sem þær verða fyrir undir þessum kringumstæðum.

Hv. síðasti ræðumaður benti einmitt á það, að sú kona sem vinnur úti hlýtur að verða fyrir meiri tekjuröskun en þær sem eru heimavinnandi. Ég fylli þann flokk manna sem álít að svo sé. Ég tel að lenging fæðingarorlofs í sex mánuði sé stefnumið sem beri, að huga að. Hins vegar koma upp efasemdir um hvenær það skuli gert, hvort það skuli gert á þessu þingi eða síðar, vitandi það að aldraðir og öryrkjar, láglaunafólk býr við svo kröpp kjör í dag að ég tel ástæðu til að úrlausn í þeim málum hafi forgang. Ríkisvaldið getur bætt úr, sérstaklega fyrir þeim sem eru öryrkjar og aldraðir, og ég verð að játa að mér finnst að nú, þegar efnahagsástandið er eins og öllum er ljóst. eigi það að ganga fyrir. Hins vegar tel ég mjög eðlilegt að þetta frv. verði skoðað með jákvæðu hugarfari og að stefnt verði að því að lengja fæðingarorlofið frá því sem verið hefur og allt að sex mánuðum. En ég ítreka það og það hlýtur að vera svo, að konur sem vinna úti verða fyrir meiri tekjuröskun en hinar sem heima eru. Við getum síðan deilt um það af hverju konur eru heima, af hverju þær eru ekki útivinnandi. Það geta vissulega verið ástæður fyrir því sem þá er hægt að koma til móts við. Það getur verið ómegð, það getur verið það að kona eigi fatlað barn t.d. og komist ekki út á vinnumarkaðinn þess vegna, en það er hægt að leysa þann vanda eftir öðrum leiðum.

Hæstv. félmrh. lýsti hér vilja sínum í þessum efnum, þ.e. að allar konur njóti fæðingarorlofs, og flutti reyndar um það till. á síðasta þingi. Lítið hefur nú farið fyrir því að þeim málum hafi verið sinnt síðustu mánuði og ekki við gerð fjárlaga. Ég tel það í grundvallaratriðum rangt að líta á málin þannig að allar konur verði fyrir sömu tekjuröskun þegar um þetta er að ræða.