08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

150. mál, fæðingarorlof

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þdm. góðar undirtektir við þetta frv. Mig langar þó til að segja fáein orð um nokkur atriði sem hafa komið fram.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. talaði um að þetta væri ekki málefni kvenna sérstaklega heldur okkar allra. Því er ég hjartanlega sammála og væri æskilegt að allir hefðu þá skoðun. Hins vegar hefur okkur konum stundum fundist það brenna við að þessum málum þokaði seint og þess vegna hafa þetta verið málefni, sem við höfum látið okkur sérstaklega varða, enda koma þau eðlilega mjög við okkur og okkar líf. Ég vona að það verði ekki talið málinu til vansa þó að ég sé kona og beri það fram.

Ég held að við hv. 3. þm. Suðurl. getum notað hliðarherbergi til þess að tala um hvernig við skiljum hin ýmsu orð, þurfum ekki að gera það héðan. En það var þó eitt atriði í máli hans áðan sem mig langar aðeins að gera aths. við. Það er að hann hafi uppi einhverjar hugmyndir um það að frv. fæli í sér svo rýmileg réttindi að farið yrði að gera út á börn. Ég vil uppfræða hv. þm. Árna Johnsen um það að hámarksfæðingarorlofsgreiðsla í dag fyrir útivinnandi konur, sem ekki tilheyra BSRB, BHM eða Sambandi ísi. bankamanna, er 14 114 kr. og ég held að fáir geri út á það, auk þess sem það að ala upp barn er ekki spurning um 6 mánuði eða 9, heldur 20 ár þannig að þar er í stórt verkefni ráðist.

Hér hefur nokkuð verið fjallað um rétt heimavinnandi kvenna og borið saman við rétt útivinnandi kvenna. Hv. 6. landsk. þm. talaði um að það yrði meiri tekjuröskun fyrir útivinnandi konur en heimavinnandi að ala barn. Það má e.t.v. til sanns vegar færa, en við erum hins vegar, eins og ég sagði, að tala um upphæð sem nemur í dag 14 114 kr. þannig að ekki er það nú ofrausn. (Gripið fram í: Það þykir mörgum gott.) Ég veit að það þykir mörgum gott, en eitt misrétti réttlætir ekki annað. Og síðan er það líka að athuga að vitaskuld eru heimavinnandi konur vinnandi þó að þær hljóti ekki laun fyrir sín störf. Eins og ég sagði í framsögu með frv., þá er þetta aðferð til þess að viðurkenna, þó í litlu sé, að þær inni af höndum ákveðin störf fyrir þjóðfélagið sem sjálfsagt er að viðurkenna. Hins vegar er það annað mál og það er e.t.v. stærra mál í þessu samhengi að kjör heimavinnandi kvenna eru, eins og aðrir þm. hafa hér bent á, oft síst betri en hinna útivinnandi. Og til þessara heimavinnandi kvenna, sem búa við lök kjör, þurfum við að reyna að ná líka.

Annað atriði, sem sérstaklega varðar heimavinnandi konur, er að fjárhagsöryggi þeirra er oft enn ótryggara að sumu leyti en útivinnandi kvenna, vegna þess að þær geta ekki sjálfar aflað tekna heldur eru upp á annan einstakling, mann sinn, komnar með það. Og eins og við vitum öll er allur gangur á hvernig hlutirnir skiptast á heimili þannig að þetta er annað atriði sem varðar heimavinnandi konur sérstaklega.

En ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta atriði. Það hafa aðrir gert og ég vísa til þess sem ég talaði hér um í framsögu með frv. Ég vil þakka hæstv. félmrh. hans svör og fara þess á leit við hann að hann skoði alla efnisþætti þessa frv. vendilega.