08.02.1984
Neðri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við fyrri hluta 1. umr. þessa frv. í hv. Nd. og mun því einskorða mig við það sem komið hefur fram í seinni hluta umr. og fyrst og fremst svara þeim fsp. sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín. Þær voru á þá leið, hvort ég mundi leggja fram í fjh.- og viðskn. þessarar deildar, en til hennar verður þessu frv. væntanlega vísað, grg. um kostnað við byggingu flugstöðvarinnar svo og mat á þjóðhagslegu gildi hennar.

Ég get svarað þessum fsp. játandi. Það liggur fyrir kostnaðaráætlun varðandi byggingu þessarar flugstöð var, mjög sundurliðuð áætlun, og í höfuðatriðum hefur verið gerð lausleg grein fyrir kostnaðinum í utanrmn. Mér er einnig kunnugt um að við meðferð málsins í Ed. var mjög nákvæmlega farið út í kostnaðarhliðina í nefnd eða svo hefur mér verið tjáð. Þess vegna get ég svarað því án fyrirvara að þessar upplýsingar verða gefnar nefndinni.

Hins vegar er á það sjónarmið að líta að réttara er að gefa sundurliðaðar upplýsingar um kostnað við einstaka byggingarþætti í nefnd fremur en á opnum fundi, vegna þess að ætlunin er að bjóða þessa framkvæmd út, eins og þegar hefur verið gert við 1. áfanga jarðvegsvinnu, og þá er ekki rétt að þeir sem bjóða í verkið viti hver viðmiðun verkkaupa er nákvæmlega.

Það hefur sömuleiðis verið gerð ítarleg greinargerð af hálfu fjárlaga- og hagsýslustofnunar hvað snertir rekstur slíkrar stöðvar. Sú áætlun er að vísu orðin nokkuð gömul og vera má að hún þarfnist endurskoðunar, en ég hygg að nákvæmari eða betri upplýsingar og áætlanir hafi tæpast verið gerðar um neina aðra byggingarframkvæmd eða fjárfestingu en einmitt þá sem við erum hér um að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í önnur einstök atriði, en þó vil ég láta það koma hér fram vegna ummæla hv. 4. landsk. þm. og vegna samanburðar hans á kostnaði á flatarmálseiningu og rúmmálseiningu sem og hugleiðingar hans um stærð flugstöðvar, að ég tel atveg sjálfsagt að út í þá sálma sé farið í nefndinni og hönnuðum byggingarinnar gefið færi á að skýra bæði stærðarmörk og kostnað við bygginguna. Ég vil taka fram að þessi flugstöð er ekki stærri en svo að flest fyrirtæki sem eiga að fá inni í hinni nýju flugstöð gera meiri kröfur um húsrými en þeim er ætlað í hinni nýju flugstöð. Að vísu má gera ráð fyrir að ýmsir rekstrarþættir verði upp teknir í flugstöðinni sem ekki hefur verið unnt að taka upp vegna þrengsla í hinni gömlu. Meðal annars tel ég ekki of mikla bjartsýni að ætla að bættur aðbúnaður farþega sem ferðast um Keflavíkurvöll og flugvélar sem þar lenda og njóta þjónustu verði til að auka umferðina um völlinn, auka tekjur af Keflavíkurflugvelli og flugstöðinni sérstaklega, þannig að ég tel hér um arðbæra framkvæmd að ræða sem muni standa undir því erlenda láni sem tekið er, sé heimild sú samþykkt sem frv. felur í sér.

Ég hef tekið sem dæmi að aðeins hagnaðurinn af rekstri fríhafnar er nægur til að standa undir afborgunum og vöxtum af því láni sem hér er um að ræða og nauðsynlegt er til að standa undir hluta Íslendinga í byggingarkostnaðinum.

Það er búið að ræða það áður að við Íslendingar göngum ekki með neinn betlistaf í hendi þótt við ætlumst til þess að Bandaríkjamenn greiði nálægt helmingi byggingarkostnaðar þessarar flugstöðvar. Hér hefur ýmist verið talið fyrir neðan okkar virðingu að samþykkja kostnaðarhlutdeild Bandaríkjanna eða þær raddir hafa heyrst að Bandaríkjamenn eigi að greiða allan kostnaðinn eða í það minnsta meiri hluta en nú er ráðgert. Ég vil af því tilefni láta koma hér fram að þessi framkvæmd kemur báðum þjóðum að gagni, Bandaríkjamönnum við framkvæmd eftirlitstarfs þeirra á Keflavíkurflugvelli og frá Keflavíkurflugvelli og okkur Íslendingum í almennri flugumferð um völlinn, þannig að ég tel að eftir atvikum hafi hér verið sæst á kostnaðarhlutföll sem eðlileg megi teljast og þess vegna fullkomlega í samræmi við þjóðarsóma.

Það er svo ástæðulaust að fjalla í mörgum orðum um þá málsástæðu eða rök, ef rök skyldi kalla, sem hv. 5. þm. Reykn. færði fram, þ.e. að framkvæmd þessi væri ögrun við launþega og væri í ósamræmi við þær kröfur sem til launþega eru gerðar nú, meðan við erum að komast út úr okkar efnahagsvanda. Ég vil aðeins svara því með því að halda því aftur á móti fram að hér er um framkvæmd að ræða sem á, ef vel er á haldið, að geta hleypt nýju blóði í ferðaiðnað okkar Íslendinga og skapað okkur Íslendingum tekjur og ætti þess vegna að vera einn þáttur í því að við komumst út úr okkar efnahagsvanda fyrr en ella.